Jón Gnarr vann á Kópavogshæli: „Það hafði enginn áhuga á þessu fólki“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Það hafði enginn áhuga á þessu fólki. Það fór þarna og þetta var ákveðin endastöð eða geymslustaður. Það var almennt samfélagslegt meðvitundarleysi um málefni fatlaðra, fatlanir og takmarkanir - hálfgert meðvitundarleysi um mennskuna.“

Þetta segir Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri og fyrrverandi starfsmaður á Kópavogshæli, í samtali við RÚV. Þar ræðir hann þær upplýsingar sem koma fram í skýrslu vistheimilanefndar um Kópavogshælið.

Jón segist aldrei hafa orðið vitni að ofbeldi af hálfu starfsfólks á hælinu, en þar vann hann í rúm tvö ár á níunda áratugnum. Hann segist þó stundum hafa farið að hágráta á vöktunum eða eftir þær, vegna einsemd vistmanna eða afskiptaleysi gagnvart þeim. „Ég man til að mynda aldrei eftir að einhver hafi komið að heimsækja neinn.“

Jón var um tvítugt þegar hann vann á hælinu. Hann segir að skýrslan komi honum ekki á óvart. Vinnustaðurinn hafi glímt við mikla undirmönnun. Alltaf hafi vantað starfsfólk og vaktirnar hafi verið undirmannaðar. Starfsmenn hafi svo þurft að takast á við alls kyns uppákomur. Starfsfólk hafi iðulega kvartað yfir stöðunni en enginn hafi tekið á móti þeim umkvörtunum. Hann lítur svo á að þó leitað sé að sökudólgum nú hafi um samfélagslegt vandamál verið að ræða. Enginn hafi sýnt þessu fólki áhuga.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.