fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Haukur Már: „Þau grétu þegar þau komu heim úr þessum heimsóknum“

Átti bróðir sem dvaldi á Kópavogshæli – Ljúfur og skapgóður – slasaðist lífshættulega

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Miðvikudaginn 8. febrúar 2017 10:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er eftirminnilegt að foreldrum okkar voru sporin þung þegar þau fóru að heimsækja frumburðinn sinn á fávitahælið, eins og það hét. Og þau grétu þegar þau komu heim úr þessum heimsóknum. Stundum fórum við systkinin með og kynntumst þannig þessum skelfilega stað.“

Þetta segir Haukur Már Haraldsson í færslu á Facebook en blindur bróðir hans dvaldi á Kópavogshælinu. Komið hefur í ljós að börn sem vistuð voru á fullorðinsdeildum Kópavogshælisins þurftu í verulegum mæli að þola líkamlegt og andlegt ofbeldi. Dæmi er um að barn hafi verið neytt til að borða eigin ælu. Annað var bundið nakið við ofn. Eru þetta fáein dæmi um hryllingin sem átti sér stað í Kópavogi og kemur fram í skýrslu Vistheimilanefndar sem síðdegis í gær kynnti skýrslu sína sem fjall­ar um vist­un barna á Kópa­vogs­hæli 1952 til 1993. Börn voru vistuð með fullorðnum vistmönnum á hælinu áður en barnadeildir voru opnaðar 1972 og 1974.

Auðvelt fórnarlamb

Hann skaðbrenndist og lá milli heims og helju á Landspítalanum í nokkrar vikur

Það hefur tekið á ættingja og alla þjóðina að heyra skelfilegar lýsingar í fjölmiðlum. Haukur Már segir um bróður sinn.

„Hann var blindur og með heilarýrnun, sérlega ljúfur drengur og skapgóður og unni tónlist, einkum sígildri. Hann fór ekki á hælið vegna þess að hann væri til vandræða heldur vegna þess að heimilisaðstæður gerðu það nauðsynlegt. Þar, á hælinu, var von um að hann gæti fengið þá fræðslu og umhyggju sem hann þurfti. Það reyndist tálsýn.“

Haukur segir að blindan hafi gert bróður hans að auðveldu fórnarlambi.

„Þarna voru allir vistmenn hverrar deildar í sameiginlegu rými og hann var varnarlaus gagnvart þörf sambýlinga sinna til að taka frá honum matinn eða, það sem verra var, að ganga í skrokk á honum. Hann var eilíflega krambúleraður í framan, með sár og bólgur eftir barsmíðar.“

Flýtti sér að borða

Segir Haukur að þetta hafi orðið til þess að hann hafi komið sér upp matarvenjum sem hann hélt í fram í andlátið og það þrátt fyrir að vera kominn í annað og betra umhverfi. Hann hafi því borðað í flýti til að koma í veg fyrir að matnum yrði stolið.

„Uppáhaldsdrykkurinn hans var Kók í flösku. Hann tók flöskuna og sturtaði úr henni upp í sig til að vera viss um að fá eitthvað áður einhver tæki flöskuna af honum. Hans varnaraðgerðir.“

Slasaðist illa

Hann tók flöskuna og sturtaði úr henni upp í sig til að vera viss um að fá eitthvað áður einhver tæki flöskuna af honum.

Eitt atvik er sárast í minningu Hauks en þá stórslasaðist bróðir hans. Bróðir hans fékk að fara einu sinni í bað og í eitt skipti þegar hann var settur í baðkarið skrúfaði starfsmaðurinn aðeins frá heitavatninu og skrapp frá. Þegar starfsmaðurinn kom til baka sat bróðir Hauks í heitu vatni upp fyrir læri.

„Hann skaðbrenndist og lá milli heims og helju á Landspítalanum í nokkrar vikur. Og síðan áfram meðan sárin voru að gróa. Eftir þetta gat hann ekki gengið svo vel væri, þar sem sárin gréru illa og örin tóku í þegar hann hreyfði sig. En í ljós kom á sjúkrahúsinu að hann var með svo bullandi njálg að starfsfólkið þar sagðist aldrei hafa séð annað eins. Þannig að ekki var umhirðan merkileg á hælinu.“

Hamingjusamur í Garðabæ

Bróðir Hauks lést fyrir 11 árum. Þá var hann hamingjusamur en síðustu æviárin bjó hann á sambýli við sjóinn sem staðsett var í Garðabæ, með fólki sem honum þótti vænt um og fólki sem bar sömu tilfinningar til hans.

„Þangað var gaman að heimsækja hann. Þannig hafa breytingarnar blessunarlega orðið í umönnun fatlaðra frá því á hörmungarárunum í Kópavogshæli.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“