fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Egill: „Það dytti engum í hug að bíða með meðferð ef barnið væri með hvítblæði“

Gagnrýnir að beðið sé með ADHD-greiningu sonar síns fram á grunnskólaaldur – „Það er miklu dýrara að gera ekki betur“

Björn Þorfinnsson
Þriðjudaginn 28. febrúar 2017 15:44

Gagnrýnir að beðið sé með ADHD-greiningu sonar síns fram á grunnskólaaldur - „Það er miklu dýrara að gera ekki betur“

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það hlýtur að vera eitthvað bogið við kerfi sem leyfir börnum að þjást, jafnvel árum saman af því að það virðist vera eitthvað prinsipp að hvorki greina börn né taka þau til meðferðar fyrr en þau hafa náð ákveðnum aldri. Það er ekkert aldurstakmark á ADHD – afhverju er þá aldurstakmark á greiningu og meðferð. Það dytti engum í hug að bíða með meðferð ef barnið væri með hvítblæði,“ segir Egill P. Egilsson, tveggja barna faðir í pistli , sem vakið hefur mikla athygli, og birtist á þingeyska fréttamiðlinum Vikudegi

Hefur málað sig út í horn félagslega

Sonur Egils er á leikskólaaldri og hefur að sögn föðursins málað sig út í horn félagslega strax á unga aldri. „Önnur börn eru löngu farin að hafa varann á gagnvart honum, vilja jafnvel ekki hleypa honum með í leik og kannski það sem verst er, kenna honum um allt sem aflega fer – líka þegar hann á ekki hlut að máli.“ Egill tekur skýrt fram að sonur hans hafi fengið frábæra þjónustu í skólakerfinu en gagnrýni hans snýr að heilbrigðiskerfinu. Þaðan koma þau skilaboð að rétt sé að bíð fram á grunnskólaaldur með því að greina hvort að sonur Egils sé með ADHD-greiningu eða ekki. Rökin séu þau að 50% slíkra greininga á leikskólaaldri haldi þegar í grunnskóla er komið. Egill bendir á að þá hljóti 50% slíkra greininga að standa. Með slíka greiningu að vopni eigi sonur hans rétt á ýmsum sérkennsluúrræðum og það opni möguleikann á lyfjagöf.

Lyfjagjöf er tabú

„Ég veit að lyfjagöf ungra barna er mikið tabú á Íslandi. Sjálfur hef ég haft miklar efasemdir um að rétt sé að gefa börnum lyf af því að þau eiga við hegðunarvanda að stríða. Það má samt ekki gleyma því að hegðunarvandinn er sprottinn af vanlíðan. Drengurinn gerir sér fulla grein fyrir því að hann ræður ekki við sig í mörgum aðstæðum en getur samt ekki hamið sig. Hann spennist upp fyrir vikið og líður mjög illa. Ég held að ég geti aldrei útskýrt það nógu vel hvernig mér líður sem foreldri að horfa upp á barnið mitt þjást ár eftir ár,“ segir Egill.

Egill segist alltaf vera með sting í hjartanum þegar hann fer með son sinn á leikskólann. „Hann þarf að vera þar í átta tíma,- fimm daga vikunnar í aðstæðum sem hann ræður mjög illa við. Ég hef oft látið mig dreyma um að taka hann einfaldlega af leikskólanum og hafa hann heima – þó ekki væri nema hálfan daginn. Aðstæður mínar bara leyfa það ekki. Það eina sem gerir það bærilegt að vita af stráknum mínum í þessum aðstæðum er einmitt það stórkostlega teymi starfsfólks sem heldur utan um hann. Og auðvitað líður honum ekki illa allan tímann sem hann er í leikskólanum, það er passað vel upp á það en hann á erfitt hluta úr degi nánast hvern einasta dag,“ segir hann.

„Það er miklu dýrara að gera ekki betur“

Egill segir að þrátt fyrir allt sé sonur hans mjög heppinn enda búi hann í litlu samfélagi á Húsavík þar sem hann fái úrvalsþjónstu. Það sama eigi ekki endilega við um önnur börn. „Ég hugsa með hryllingi til allra þeirra barna sem ekki eru jafn heppin og drengurinn minn. Að búa í litlu samfélagi þar sem allri leggjast á eitt við að finna réttu úrræðin. Öll börnin sem hafa fallið ofan í dimmar gjótur gallaðs kerfis. Fá ekki þau úrræði sem þau þurfa, einangrast félagslega og bíða þess aldrei bætur. Ég hlusta ekki á afsakanir þess efnis að það sé of dýrt að gera betur. Það er miklu dýrara að gera ekki betur. Hugsið ykkur bara verðmætin sem við glötum með hverjum þeim einstaklingi sem aldrei fær notið hæfileika sinna af því að kerfið brást honum. Ég er að flestu leyti mjög bjartsýnn á framtíð sonar míns en af því að ég hef séð það betur og betur í gegnum allt það ferli sem við mamma hans höfum þurft að fara í gegn um með hann; að hvað sem það heitir sem strákurinn er að berjast við – hefur hann fengið frá mér,“ segir Egill.

Drepfyndin atvik í bland við erfiðleika

Í pistlinum lýsir hann grátbroslegum hversdagslegum ósigrum sínum sem hugsanlega stafa af ógreindum athyglisbresti. „Ég finn aldrei það sem er beint fyrir framan nefið á mér, ég gleymi meira og minna öllu sem ég þarf að muna en man eftir svo að segja öllu sem ég hef ekkert að gera með að muna. Svona rúlla ég,“ segir Egill. Hann lýsir því hvernig bíllyklarnir virðast gufa upp þegar síst skyldi, vettlingarnir hverfa á óútskýrðan hátt og að sjónvarpsfjarstýringin finnur sér reglulega samastað í ísskáp heimilisins.
Að sögn Egils veldur athyglisbresturinn oft drepfyndnum atvikum en skapi einnig margskonar erfiðleika. Þá hafi honum tekist að yfirstíga að mestu með því að þroskast og læra inn á sjálfan sig, þeirri vegferð vill hann hlífa syni sínum við.

Sjálfsvígstilraunir og geðspítalainnlagnir

„Þó ég sé þakklátur fyrir lífshlaup mitt er það að mörgu leyti þyrnum stráð. Manísk áfengisneysla á mínum yngri árum til að fylla upp í eitthvað óskilgreint tómarúm innra með mér; sjálfsvígstilraunir og geðspítalainnlagnir hafa sett mark sitt á líf mitt. Þrátt fyrir þessa reynslu og kannski einmitt vegna hennar tel ég mig betur í stakk búinn til að forða elsku drengnum mínum frá sömu örlögum. Því miður eru ekki öll börn jafn heppin – það eiga fleiri einstaklingar eftir að feta sömu spor og ég hef gert og sumir munu ekki lifa það af. Kerfi sem horfir upp á lítil börn líða illa í nokkur ár áður en hægt er að gera nokkuð í því er ekki til þess fallið að auðvelda framtíð þessara sömu einstaklinga. Ég vona að við sem samfélag séum þess megnug að læra af því sem aflaga fer. Að við notum þá reynslu sem við öðlumst til að hlúa sífellt betur að komandi kynslóðum því ef við gerum það ekki verðum við alltaf fátækari fyrir vikið,“ segir Egill.

Pistilinn má í lesa í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu