fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Dagsektir gætu reynst banabiti Útvarps Sögut

Hafa haldið áfram að nota aukatíðni í leyfisleysi – Vilja fá að senda út á tveimur tíðnum – Hver dagur kostar stöðina 75 þúsund krónur

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 28. febrúar 2017 07:00

Hafa haldið áfram að nota aukatíðni í leyfisleysi – Vilja fá að senda út á tveimur tíðnum – Hver dagur kostar stöðina 75 þúsund krónur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Póst- og fjarskiptastofnun hefur frá og með 24. febrúar síðastliðnum byrjað að leggja dagsektir á Útvarp Sögu sem nema 75 þúsund krónum á dag. Ástæðan er að forsvarsmenn útvarpsstöðvarinnar hafa haldið áfram að nota tíðnina 102,1 og brjóta þannig gegn fyrri ákvörðun stofnunarinnar um að þeim bæri að hætta því.

Tímabundið leyfi og misskilningur

Forsaga málsins er að Útvarp Saga, sem er á FM 99,4, fékk árið 2015 tímabundið leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) til að senda líka út á 102,1 í tilraunaskyni til að mæla dreifingu sína. Forsvarsmenn Útvarps Sögu voru nefnilega ósáttir við að stöðin næðist illa víða á höfuðborgarsvæðinu á tíðni 99,4.

DV fjallaði um það í nóvember þegar PFS synjaði Útvarpi sögu um að fá að senda út dagskrá stöðvarinnar á tveimur FM-tíðnum til að tryggja betri dreifingu um allt höfuðborgarsvæðið. Í þeirri ákvörðun voru samskipti stofnunarinnar við forsvarsmenn stöðvarinnar rakin. Svo virðist sem forsvarsmenn Útvarps Sögu hafi misskilið svar PFS við upphaflegu beiðninni þar sem kom skýrt fram að ef stöðin vildi fá 102,1 tíðnina, yrði stöðin að hætta að nota 99,4 innan nokkurra mánaða.

Takmörkuð auðlind

Í kjölfarið fylgdu nokkrar framlengingar á tímabundinni úthlutun stöðvarinnar á 102,1 þar sem Útvarp Saga var að láta mæla hlustun á tíðnina áður en ákvörðun yrði tekin um hvor tíðnin yrði fyrir valinu. Ekkert bólaði á svörum og hélt stöðin ótrauð áfram að senda út á rásunum tveimur þrátt fyrir að frestur hennar hefði runnið út þann 30. nóvember 2015.

Í apríl 2016 var stöðinni svo veittur lokafrestur til að komast að niðurstöðu. Eftir að hafa fengið annan frest fór stöðin loks fram á að fá að nota báðar tíðnirnar, með vísan í meðal annars það að Bylgjan og Ríkisútvarpið hefðu leyfi til að senda út á fleiri en einni tíðni á höfuðborgarsvæðinu. PFS hefur hins vegar bent á að FM-tíðnibandið sé takmörkuð auðlind sem nota beri skilvirkt og vegna eftirspurnar væri ekki svigrúm til að úthluta fleiri en einni tíðni á sama svæði til hverrar stöðvar. PFS vill meina að dreifing 99,4 væri að mestu leyti viðunandi og bauð stöðinni aðstoð við að bæta nýtingu og auka útbreiðslu með ýmsum hætti.

Í ákvörðuninni sem DV fjallaði um í nóvember kom fram að Útvarp Saga þyrfti að hætta tafarlaust að nota 102,1 fyrir 25. nóvember ellegar myndi PFS grípa til aðgerða.

Þær aðgerðir hófust síðan 24. febrúar síðastliðinn, þar sem Útvarp Saga sendir enn út á báðum tíðnum og virðist neita að skila annarri þeirra inn.

Ein tíðni banabiti stöðvarinnar

Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu, hefur lýst því yfir að hér sé um að ræða allsherjar samsæri til að þagga niður í stöðinni, sem vissulega er umdeild, þar sem ákvörðunin muni kippa stoðunum undan rekstri stöðvarinnar.

Þessi sjónarmið komu líka fram í samskiptum Útvarps Sögu við PFS í ákvörðun stofnunarinnar um að leggja dagsektir á stöðina.

Þar héldu forsvarsmenn stöðvarinnar fram að „það muni augljóslega hafa afgerandi áhrif á rekstrargrundvöll stöðvarinnar ef dagsektir verða lagðar á og það sé í raun ígildi þess að loka fyrir starfsemi félagsins. Sendirinn á 102,1 MHz sé nauðsynlegur til útbreiðslu og dreifingar á stóru hlustunarsvæði stöðvarinnar á Suð-vesturhorni landsins og höfuðborgarsvæðinu.“

Sendi út á einni tíðni í 12 ár

Í þessu samhengi bendir PFS á að dagskrá Útvarps Sögu hafi verið send út á einni tíðni, 99,4, á höfuðborgarsvæðinu árin 2003–2015.

„Það felur því alls ekki í sér stöðvun á rekstri stöðvarinnar ef slökkt verður á sendi á tíðninni 102,1 MHz. Þó svo að útbreiðsla sé betri á 102,1 MHz þá dugði sendir á tíðninni 99,4 MHz til þess að reka stöðina í 12 ár og hlýtur að geta dugað á meðan mál þetta er rekið fyrir úrskurðarnefnd. Úrskurðarnefnd taldi það ljóst í úrskurði sínum 2. desember 2016 að stöðvun útsendinga á 102,1 MHz myndi ekki hafa í för með sér að útsendingar kæranda muni stöðvast, heldur væri um óbreytta starfsemi að ræða frá því sem var áður en mál þetta hófst.“

Reiðir hlustendur

Það er óhætt að segja að það hafi verið mikil reiði í símatímum Útvarps Sögu á föstudag, þar sem meðal annars var gripið til þess að hafa sérstakan aukasímatíma, og hlustendum og velunnurum stöðvarinnar mörgum heitt í hamsi sem og forsvarsmönnum hennar. Hyggjast hlustendur jafnt sem forsvarsmenn þrýsta á Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að beita sér í málinu þar sem málaflokkurinn heyri undir hann.

PFS er heimilt að beita dagsektum frá 50 þúsund krónum og allt upp í hálfa milljón, og þó 75 þúsund krónur séu nærri lágmarkinu þá er fjárhæðin fljót að telja. Þannig getur einn mánuður af dagsektum kostað þessa litlu útvarpsstöð rúmar 2,3 milljónir króna. Þrátt fyrir þvingunaraðgerðirnar segjast forsvarsmenn Sögu hvergi ætla að hvika í baráttu sinni gegn þögguninni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu