fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Svínastía í enda Austurstrætis

Egill Helgason
Sunnudaginn 26. febrúar 2017 20:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vesturhluti Austurstrætis er núorðið ein allsherjar skemmtistaða- og skyndibitagata. Þessir staðir eru ekki allir jafn virðulegir, má kannski segja að götuspottinn þarna sé nokkuð subbulegur. Líklega ekki ráðlegt að vera þar mikið á ferli að næturþeli. Svo tekur við Ingólfstorg sem er svolítið sérstakt að því leyti að þarna var ekki neitt torg forðum tíð, heldur var byggt alla leið út að gatnamótum Aðalstrætis. Það hefur áður komið fram að ég er ekki mikill aðdáandi Ingólfstorgs. Það er eins og stór steypuklessa.

 

 

Hér má sjá hvernig var umhorfs þar sem Ingólfstorg er nú á árunum fyrir stríð. Þarna stendur Hótel Ísland enn, en það brann árið 1944. Reyndar er nokkur hefð fyrir skemmtanalífi á þessum stað, því þarna voru á undir lok 19. aldar drykkjukrár sem kallaðar voru Káetan, Almenningur og Svínastían. Fór illt orð af þeim öllum.

Benedikt Gröndal skáld kom á Svínastíuna þegar hann var á fyllerístúrum, enda var sagt að hann kynni best við að drekka með dónum. Ein samtímalýsing á staðnum hljómar svo:

Ég er sannfærður um það, að ekki myndi ég nú una hag mínum lengi á slíkum stað sem „Stíunni“. Öl- og vínþefurinn var óþolandi og á þann ódaun bættist tóbaksreykurinn, sem stundum var svo mikill, að naumast sást frá öðrum enda „Stíunnar“ til hins. Þessir drukknu menn slangruðu eftir gólfinu og ráku sig hver á annan, og þegar leið á kvöldið, sváfu sumir við borðin og var oft örðugt að vekja þá.

Faðir Benedikts, Sveinbjörn Egilsson, rektor, skáld og þýðandi, bjó raunar í húsi sem var þarna beint á móti, Aðalstræti 1, þar átti hann heima árið 1850 þegar skólapiltar hrópuðu að honum Pereat. Sveinbjörn, þessi grandvari maður, lést skömmu síðar, en einn aðalforsprakki Pereatsins, Steingrímur Thorsteinsson, varð seinna rektor Lærða skólans sjálfur og bjó þarna stutt frá, í Thorvaldsenstræti og vissi hús hans út að Austurvelli.

Verslunin sem var á jarðhæð Hótel Íslands og sést þarna í mun hafa heitið Vöruhúsið. En í einni versluninni í húsinu hélt Jónas frá Hriflu á sínum tíma sýningu á list sem hann taldi háðulega lélega, þetta var árið 1942 og meðal verka sem Jónas sýndi var Þorgeirsboli eftir Jón Stefánsson, þannig var sýningin stundum nefnd Þorgeirsbolasýningin. Jónas var þá formaður menntamálaráðs.

Húsið við hliðina á, Aðalstræti 7, sunnanmegin stendur enn og er nokkuð einmana, en Aðalstræti 9 brann 1967 og var rifið árið eftir. Þegar myndin hér að neðan er tekin var þar Braunsverslun, en seinna var þarna skáldið Vilhjálmur frá Skáholti með blómabúð, svo nokkuð sé nefnt.

 

 

Hér er horft á sömu húsalengju og á myndinni að ofan, nema úr öfugri átt. Fremst er Fógetagarðurinn og hefur verið nokkuð blómlegur á þessum árum, sýnist manni.

 

 

 

Hérna erum við svo komin inn í Austurstrætið, eftir stríð. Þetta er Austurstræti 3, þarna er nú veitingahús sem nefnist Kebahúsið. Uppi á lofti hafði Kjarval vinnustofu. Á þessum árum, og langt fram í mitt minni, tíðkaðist að hengja upp auglýsingar fyrir kvikmyndahúsin í kassa sem héngu uppi þarna í Austurstrætinu. Það var mikil skemmtun að rýna í þá og sjá hvað var verið að sýna í bíó – eða hvað var væntanlegt. Maður skoðaði alltaf í þessa kassa þegar maður átti leið framhjá.

Á myndinni má sjá auglýsingar frá Trípólíbíói, Tjarnarbíói og Austurbæjarbíói – þau eru öll horfin – en glöggur lesandi síðunnar Gamlar ljósmyndir greindi hver tími myndarinnar er út frá kvikmyndaframboðinu.

Myndin er tekin um mánaðamótin sept.-okt. árið 1949, því þá voru myndirnar sem auglýstar eru á skiltunum (á húsi Leðurverslunar Jóns Brynjólfssonar) annars vegar „Frieda“ í Tjarnarbíói og „Cloak & dagger“ í Austurbæjarbíói, í sýningu. Cloak & Dagger byrjaði 30. sept. en Frieda endaði sýningar 1. eða 2. okt.

 

 

Hér er svo önnur mynd af sama húsi, en tekin úr annarri átt og einhverjum árum fyrr.  Þarna má líka sjá bíóauglýsingarnar, og erlendan hermann sem er að rýna í þær. Úti í götunni stendur svo herjeppi, en við enda götunnar er Morgunblaðshúsið ekki risið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega
Eyjan
Í gær

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Lýsa vantrausti á ríkisstjórnina, krefjast þingrofs og nýrra kosninga

Lýsa vantrausti á ríkisstjórnina, krefjast þingrofs og nýrra kosninga
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: ESB er miklu meira en sameiginlegur markaður og evran

Ole Anton Bieltvedt skrifar: ESB er miklu meira en sameiginlegur markaður og evran
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sögusagnir sem borgin vísaði á bug eiga sér meiri stoð í raunveruleikanum en af er látið

Sögusagnir sem borgin vísaði á bug eiga sér meiri stoð í raunveruleikanum en af er látið
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Fylgið minnkað um helming – 40 þúsund vantreysta Bjarna sem sætir afarkostum VG

Orðið á götunni: Fylgið minnkað um helming – 40 þúsund vantreysta Bjarna sem sætir afarkostum VG