fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Hlutu Michelin-stjörnu fyrir mistök

Lítið kaffihús í Frakklandi fylltist af forvitnum matgæðingum

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 26. febrúar 2017 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kaffihúsið Le Bouche á Oreille lætur ekki mikið yfir sér. Það er í borginni Bourges í miðju Frakklands og þar ræður eigandinn, Véronique Jacquet, ríkjum. Staðurinn er með sæti fyrir 20 manns og þar skenkir Véronique í glös og tekur á móti glorsoltnum verkamönnum sem eru helstu viðskiptavinir staðarins. Hún er eini starfsmaðurinn í fullu starfi.

Þar er ýmislegt á boðstólum, meðal annars heimagert lasanja og „beef bourguignon“ sem kokkur staðarins, Penelope Salmon, reiðir fram í hlutastarfi. Þrátt fyrir að viðskiptavinir staðarins séu alsælir með góðan mat og hagstætt verð (hlaðborð með vínflösku og eftirrétt að eigin vali kostar tæpar 1.500 krónur) þá verðskuldar veitingastaðurinn kannski ekki alþjóðlegar viðurkenningar.

En einmitt það gerðist á dögunum þegar Le Bouche á Oreille var skyndilega úthlutað Michelin-stjörnu á vefsíðunni heimsfrægu. Þar má sjá kort af öllum þeim stöðum sem státa af stjörnum og þar á meðal var staður Véronique Jacquet. Þess má geta að fyrsti íslenski veitingastaðurinn fékk Michelin-stjörnu í vikunni þegar Dill hlotnaðist sá heiður. Rætt er við eiganda Dill framar í blaðinu.

Véronique Jacquet skenkir hér bjór.
Ánægð Véronique Jacquet skenkir hér bjór.

Mynd: L'Echo Républicain

Skyndilega fylltist veitingahúsið af matgæðingum sem ólmir vildu smakka á réttunum auk þess sem síminn hringdi látlaust vegna fyrirspurna frá forvitnum fréttamönnum.

„Setti hjarta sitt í matreiðsluna“

Fáguðum matarsnobburum varð fljótlega ljóst að mistök hefðu átt sér stað og það gerðu forsvarsmenn Michelin-veitingarýninnar einnig. Það tók samt tvo daga að leiðrétta misskilninginn og á meðan var vitlaust að gera á litla staðnum í Bourges.

Stjarnan eftirsótta átti að fara á sælkerastað með sama nafni stutt frá París. Það var ekki bara nafnið sem ruglaði starfsmenn Michelin í ríminu heldur stendur litli staðurinn hennar Véronique við Route de la Chapelle í Bourges á meðan sá „fínni“ stendur við götu sem nefnist Impasse de la Chapelle.

„Það varð allt vitlaust á staðnum. Fjölmiðlamenn vildu ólmir fá viðtal og sonur minn hringdi öskrandi úr hlátri frá París. Allir vinir mínir og fastakúnnar staðarins hringdu í mig og skildu ekkert í af hverju ég hafði ekki sagt þeim frá Michelin-stjörnunni,“ sagði eigandinn við þarlenda fjölmiða.

Kokkur staðarins, áðurnefnd Penelope, sagði í viðtölum að vissulega hefði hún aldrei búist við að fá Michelin-stjörnu en að „hún setti hjarta sitt í matreiðsluna.“ Frönsk fréttastofa tók síðan stutt viðtal við viðskiptavin staðarins sem rumdi af ánægju: „Þessi staður ætti skilið að fá tvær stjörnur.“

En allt fór vel að lokum. Aymeric Dreux, yfirmatreiðslumaður veitingastaðarins sem var réttmætur handhafi Michelin-stjörnunnar, hafði afar gaman af þessum misskilningi. „Ég hringdi í frú Jacquet og við skellihlógum að þessu. Ég bauð henni að koma í heimsókn og prófa veitingastaðinn minn við tækifæri og ef ég verð á ferðinni í Bourges þá mun ég hiklaust kíkja í hádegisverð og bjórglas til hennar,“ segir Dreux.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“
Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Í gær

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans
Fréttir
Í gær

Segir það verða sannkallaða martröð fyrir Rússa ef þeir ráðast inn í stórborgina Kharkiv

Segir það verða sannkallaða martröð fyrir Rússa ef þeir ráðast inn í stórborgina Kharkiv
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“