fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Margrét Gauja: „Kæra Heiðrún Lind, ég þarf ekki pung til að fá hærri laun“

„Pungur er eitthvað það alviðkvæmasta á karlmannslíkamanum“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 25. febrúar 2017 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég efast ekki um að það væri gott að efla og styrkja konur en það breytir ekki þeirri staðreynd að samfélagið og viðhorf samfélagsins þurfa að breytast verulega. Mér er illa við að kalla konur fórnarlömb en „victim blaming“ var það fyrsta sem mér datt í hug þegar hún gagnrýnir pungskort kvenna,“ segir Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir um ummæli Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur þess efnis að konum vanti oft „dálítinn pung“ í viðræðum við vinnuveitendur um kaup og kjör.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir nýráðin framkvæmdastjóri Samtaka félaga í sjávarútvegi lét ummælin falla í forsíðuviðtali Fréttablaðsins í morgun. „Við krefjumst ekki þeirra launa sem við eigum skilið. Við verðleggjum okkur lægra en karlmenn án þess að nokkurt tilefni sé til þess. Þetta skil ég ekki“ segir hún og telur vera þörf á átaki í þessum efnum enda sé enginn að koma að fyrra bragði og bjóða fólki launahækkun. „Stundum er líka gott að hugsa að maður hafi engu að tapa, þegar maður er í svona samningaviðræðum. Þá tekur maður frekar áhættu – pungurinn verður stærri,“ segir Heiðrún í viðtalinu.

Gagnrýnir ummæli Heiðrúnar um pungskort kvenna
Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir Gagnrýnir ummæli Heiðrúnar um pungskort kvenna

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þarf ekki pung til að fá hærri laun

Þessi orð Heiðrúnar hafa orðið fyrir þónokkurri gagnrýni á samfélagsmiðlum. Margar konur eru ósáttar við þá yfirlýsingu að þær þurfi pung til að vera álitnar marktækar.

„Kæra Heiðrún Lind, ég þarf ekki pung til að fá hærri laun eða jafnhá laun og strákar fyrir sömu vinnu. Píkan á mér þarf að hætta að vera ástæða þess að fólk telji mig minna virði en þeir sem eru með pung,“ skrifar Margrét Gauja Magnúsdóttir fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar á Facebook síðu sína í morgun og birtir um leið mynd af forsíðu Fréttablaðsins.

„Vandinn er að hún [Heiðrún] fullyrðir að vandinn liggi hjá konum – sem eru ekki nógu harðar, ekki með „pung“, sem er svona allsherjar myndhverfing fyrir hörku, sjálfstæði og sjálfstraust“ skrifar ein kona í umræðu um viðtalið á Facebook hóp um feminisma, hún bætir við að fullyrðingin renni stoðum undir að vandinn liggi ekki hjá konum, heldur sjá samfélagi sem gerir kröfur um að konur líkist körlum til að „eiga séns.“

Rannsókn sýnir að konur biðja ekki síður um launahækkun

Konur hafa í gegnum tíðina oft verið gagnrýndar fyrir að krefjast ekki hærri launa og þar sé að finna skýringu á kynbundnum launamun. „Ég fékk þessa ráðgjöf frá karlmanni einu sinni þegar ég var að hugsa um framgang í starfi: Það er enginn að fara að gefa þér neitt – þú verður að setja kröfuna fram. Ég hef alltaf haft þetta bakvið eyrað,“ segir Heiðrún í viðtalinu við Fréttablaðið. Nýleg rannsókn hrekur aftur á móti þá mýtu að konur séu ekki nógu harðar í samningaviðræðum. Rannsóknin var birt á síðasta ári og var framkvæmd af Cass viðskiptaskólanum í London, Háskólanum í Warwick í Bretlandi og Háskólanum í Wisconsin í Bandaríkjunum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að ef konur biðja um launahækkun eru 25% minni líkur á að það beri árangur en þegar karlar biðja um það sama. Einnig sýndi rannsóknin fram á það að konur voru ekki ólíklegri en karlmenn til að biðja um launahækkun.

Pungur er eitthvað það alviðkvæmasta á karlmannslíkamanum

Óttar M. Norðfjörð rithöfundur er einn þeirra sem gagnrýnt hafa ummæli Heiðrúnar en hann hafði þetta um málið að segja:

“Að kona kjósi að nota „pung“ sem samheiti yfir þor, ákveðni eða hugrekki truflar mig af nokkrum ástæðum – jú, það er hægt að tala um ósanngirni gagnvart konum, eins og þær séu ekki hugrakkar að eðlisfari, að þær þurfi að tileinka sér eitthvað frá karlmanninum til að verða hugrakkar, að sársauki einu sinni í mánuði, svo ekki sé talað um barnsburð, krefjist ekki margfalt meira hugrekkis en að fæðast með pung – en aðallega þó út af því að pungur er eitthvað það alviðkæmasta á karlmannslíkamanum og ætti ekki að eiga neitt skylt við hugrekki. Ég legg raunar til að við notum „að vanta dálítinn pung“ yfir það, einhvern sem þarf að vera mýkri og viðkvæmari.

Dæmi:
A: „Hún Sigga er svo andlega fjarlæg og köld alltaf.“
B: „Æ, greyið stelpan, hana vantar dálítinn pung.““

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“