fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

„Þetta mun breyta leiknum hér heima“

Gunnar Karl Gíslason, einn eigenda Dill, er himinlifandi með Michelin-stjörnuna – Fyrir á hann eina í Bandaríkjunum

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 24. febrúar 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er fyrst og fremst stórkostleg viðurkenning fyrir okkur hjá Dill. Þetta sýnir okkur að við höfum verið á réttri leið með staðinn og ég get ekki lýst því hvað þetta er sætt,“ segir Gunnar Karl Gíslason, einn af eigendum Dill restaurant. Veitingastaðurinn varð á miðvikudaginn þess heiðurs aðnjótandi að fá fyrstu Michelin-stjörnuna sem íslensku veitingahúsi hlotnast.

Gunnar Karl hefur þó áður upplifað viðurkenningu frá Michelin. Fyrir rúmi ári hætti hann afskiptum af daglegum rekstri Dill og hélt til New York þar sem hann opnaði, ásamt Claus Meyer, nýjan veitingastað, með norrænu ívafi, á Grand Central-járnbrautarstöðinni heimsfrægu. Það ævintýri hefur gengið vonum framar því veitingastaðurinn, sem nefnist Agern, hlaut Michelin-stjörnu í nóvember síðastliðnum, auk þess sem hann var nýlega valinn einn af 10 bestu veitingastöðum í New York-borg af virtum matargagnrýnanda á síðum New York Times.

Af hverju Michelin-stjarna?

Af hverju Michelin-stjarna?

Árið 1900 hóf franska dekkjafyrirtækið Michelin að gefa út bækur þar sem fyrirtækið mælti með veitingahúsum fyrir ferðalanga, sem og hótelum og öðru sem nauðsynlegt er í ferðalögum. Markmið fyrirtækisins var að hvetja einstaklinga til að leggja land undir fót og þar með hugsanlega til kaupa á bifreið. Ef það gengi eftir þá myndi það óhjákvæmilega leiða til aukinnar sölu á dekkjum.

Um aldarfjórðungi síðar, árið 1926, byrjaði Michelin að gefa völdum veitingahúsum stjörnur. Eina stjörnu fá veitingahús sem eru sérstaklega góð í sínu fagi en tvær stjörnur fá veitingahús sem eru frábær og verðskulda að ferðalangar leggi lykkju á leið sína. Þrjár stjörnur fá síðan einstakir veitingastaðir sem verðskulda sérstakt ferðalag til að viðskiptavinir geti notið matarins. Allt þetta hljómar einfalt en sannleikurinn er sá að aðeins útvaldir veitingastaðir ná því markmiði að fá yfirhöfuð eina stjörnu. Dill er nú í þeim hópi.

Fylgist náið með

„Það hefur gengið afar vel hérna úti í New York. Ég ákvað að einbeita mér alveg að Agern að minnsta kosti fyrstu tvö árin og fékk Ragnar Eiríksson til þess að taka við stjórninni í eldhúsinu. Hann hefur staðið sig stórkostlega en það sama má segja um alla aðra starfsmenn okkar. Það er valinn maður í hverju rúmi, frá kokki til uppvaskara. Ég er afar stoltur af mínu fólki,“ segir Gunnar Karl. Afskipti hans eru helst þau að hann skoðar alla matseðla á Dill gaumgæfilega sem og myndir af öllum réttum.

Tókst í fyrstu tilraun

Undanfarin ár hefur sá orðrómur verið á kreiki að gagnrýnendur Michelin hafi komið til Íslands og tekið út íslensk veitingahús. Sá orðrómur á ekki við rök að styðjast. „Michelin gerði Norðurlöndin að sérstöku svæði fyrir fjórum árum. Fyrst um sinn héldu þeir sig alfarið við allra stærstu borgirnar og það heyrðist meira að segja að þeir myndu ekki fara til borga með undir hálfri milljón íbúa. Sem betur fer varð sú ekki raunin. Útsendarar Michelin voru því að heimsækja landið í fyrsta sinn og það er því gleðilegt að okkur tókst að fá viðurkenninguna í fyrstu tilraun,“ segir Gunnar Karl.

„Það heyrðist meira að segja að þeir myndu ekki fara til borga með undir hálfri milljón íbúa. Sem betur fer varð sú ekki raunin.“

Heimildir DV herma að allir helstu veitingastaðir Reykjavíkur hafi verið teknir út af Michelin-fólkinu en það gat Gunnar Karl ekki staðfest.

Vill aðra stjörnu

„Þetta er auðvitað frábær auglýsing fyrir okkur og mun örugglega skila sér í aukinni aðsókn. Íslenskir matreiðslumeistarar eru keppnisfólk og því efast ég ekki um að þetta muni hreinlega breyta leiknum heima. Núna sjá allir að þetta er hægt og þá er ég viss um fjölmargir muni herða róðurinn,“ segir Gunnar Karl.

Þótt að stjarnan sé mikil viðurkenning fyrir Dill er ekki þar með sagt að starfsmenn og eigendur geti slegið slöku við.
„Stjörnurnar eru veittar árlega og það er meira en að segja það að halda stjörnunni. Við þurfum því að vera á tánum og helst gera enn betur. Kannski setjum við stefnuna á að bæta annarri við,“ segir Gunnar Karl og hlær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“