fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Frumvarp um millidómsstig afgreitt í ósætti

Meirihlutinn vildi ekki samþykkja áréttingu um að gæta skyldi að jafnréttislögum

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 23. febrúar 2017 14:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekki náðist sátt milli meirihluta og minnihluta í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis um afgreiðslu nefndarinnar á frumvarpi um millidómsstig á fundi nefndarinnar í morgun. Ástæðan var sú að meirihluti nefndarinnar vildi ekki að sett yrði inn árétting til ráðherra um að gæta skuli að jafnréttislögum þegar 15 nýir dómarar verða tilnefndir í Landsrétt.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, vekur athygli á þessu á Facebook og kallar það svekkelsi dagsins. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata tekur undir með Andrési í færslu á sinni Facebook síðu og bendir á að um sé að ræða fyrsta þingmál sem nefndin afgreiðir eftir að ný ríkisstjórn tók við.

Töldu nefndarálit nóg

Um er að ræða frumvarp til breytinga á lögum um dómstóla þar sem meðal annars er fjallað um nefnd sem meta skuli hæfi dómaraefna sem skipa skal við Landsrétt. Fulltrúi Vinstri grænna, Andrés Ingi, og fulltrúar Pírata, Þórhildur Sunna og Einar Brynjólfsson, í nefndinni vildu að við frumvarpið bættist eftirfarandi setning: „Skal ráðherra þar sérstaklega hafa í huga jafnréttislög,“ og vísuðu til þess þegar dómsmálaráðherra skilaði tilnefningum inn til staðfestingar til Alþingis. Á þetta vildu fulltrúar meirihlutans ekki fallast en töldu nægjanlegt að minnast á þetta atriði í nefndaráliti með frumvarpinu. Frumvarpið var því afgreitt í ósætti úr nefndinni með áliti meirihlutans og mun því ganga til annarrar umræðu.

Andrés Ingi segir í samtali við DV að minnihutinn muni semja og bera fram breytingartillögu við frumvarpið þar sem þessi áhersla komi fram. Auk þess bókuðu þingmennirnir vonbrigði sín vegna þessa með eftirfarandi hætti: „Umfjöllun um millidómstigið hefur einkennst af þverpólitískri samstöðu, enda er um mál að ræða sem varðar eina grunnstoð samfélagsins, þ.e. dómskerfið. Minnihlutinn harmar að þessi samstaða skuli nú rofin vegna þess að meirihlutinn geti ekki sætt sig við orðalag í þágu kynjajafnréttis í lagatexta.“

Andrés segir jafnframt að það kunni að virðast kjánaskapur að ítreka að jafnréttislög gildi í landinu. Hins vegar sé vart hægt að bregðast við með öðrum hætti í ljósi orða dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen, í umræðum um frumvarpið á Alþingi hinn 7. febrúar síðastliðinn. Þar sagði hún: „Tel ég ekki til velfarnaðar fallið almennt að hugsa skipan í jafn mikilvæg embætti og dómarastörf eru með þeim hætti sem fyrirspyrjandi er að kalla eftir að mögulega sé gert, ef ég skil hann rétt, að litið sé sérstaklega til kynjasjónarmiða“.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala