fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Þegar konur drepa

Sjö verstu launmorðingjar sögunnar – Hryðjuverk og fjöldamorð alræmdra kvenna

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 22. febrúar 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Morðið á Kim Jong-nam, hálfbróður Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, í síðustu viku hefur vakið mikla athygli. Lögreglan í Malasíu hefur síðan handtekið tvær konur sem grunaðar eru um aðild að morðinu en hinn 46 ára gamli Kim Jong-nam hneig niður á alþjóðaflugvellinum í Kúala Lúmpúr. Grunur leikur á að eitrað hafi verið fyrir honum með rísin, sem er eitrað prótínduft úr aldinkjörnum kristpálma og dugar eitt milligramm af því til að drepa fullorðinn einstakling.

Yfirvöld í Suður-Kóreu eru þess fullviss að leigumorðingi hafi verið að verki; Kim Jong-nam hafi verið þyrnir í augum yfirvalda í Pyongyang í Norður-Kóreu og að lengi hafi staðið til að ráða hann af dögum. Til marks um það hafi hann notið verndar kínverskra yfirvalda síðastliðin fimm ár. Hann var á leið til Makaó, sérstjórnarhéraðs í Kína, þar sem hann bjó í útlegð.

Samkvæmt umfjöllun breska dagblaðsins Telegraph hefur óstaðfestur orðrómur farið á flug þess efnis að konurnar hafi verið launmorðingjar á vegum leyniþjónustu Norður-Kóreu og ef rétt reynist eru þær ekki fyrstu konurnar sem komast í heimsfréttirnar fyrir glæpi sína.

Telegraph tók af þessu tilefni saman lista yfir sjö alræmda kvenkyns launmorðingja fyrri tíma, sem komið hafa að morðum, hryðjuverkum og annars konar fjöldamorðum.


1. Shi Jianqiao

Þegar herforinginn Shi Congbin var myrtur af Zhili-stríðsherranum Sun Chuanfang árið 1925, ákvað dóttir herforingjans, Shi Jianqiao, að hefna föður síns.
Morðið á herforingjanum var sérlega ógeðfellt en hann var afhöfðaður og höfuð hans rekið á tein og haft til sýnis á lestarstöð. Shi ákvað í kjölfarið að hafa uppi á stríðsherranum alræmda og myrti hann á förnum vegi með þremur skotum. Hún flúði þó ekki vettvanginn heldur varð eftir til að réttlæta gjörðir sínar fyrir vegfarendum, meðal annars með því að útdeila bréfum til að útskýra aftökuna.
Þessi siðferðislega afstaða hennar varð enda til þess að hún var náðuð að fullu árið 1936 á grundvelli „filal piety“ sem byggir á kenningum Konfúsíusar um dyggð sem drýgð er af virðingu við foreldra sína, sér eldri og forfeður.


2. Mata Hari

Margaretha MacLeod var þekktur exótískur dansari víða í Evrópu á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Í dag er hún þó þekktust undir nafninu Mata Hari og oft kölluð mesti kvennjósnari 20. aldarinnar. Hún er talin hafa safnað leynilegum upplýsingum frá háttsettum bandamönnum og komið þeim í hendur Þjóðverja. Með gjörðum sínum er hún talin hafa átt beinan þátt í dauða allt að 50 þúsund franskra hermanna.

Hún var fyrst fengin til starfa af þýsku leyniþjónustunni árið 1914 sem sá möguleika í njósnum hennar vegna þess hversu háttsetta elskhuga hún átti og þeirri staðreynd að hún gat ferðast næsta óáreitt þvert um Evrópu sem hollenskur ríkisborgari.

Eftir að Bretar afhjúpuðu hana sem njósnara var hún á endanum tekin af lífi af Frökkum árið 1917, þá 41 árs, eftir að hafa verið fundin sek um að sjá Þjóðverjum fyrir hernaðarleyndarmálum. Sagan segir að hún hafi „flassað“ aftökusveitina með því að fletta af sér yfirhöfninni, andartökum áður en skotin riðu af.


3. La Tigresa

Mynd: EPA

Idoia Lopez Riano, einnig þekkt undir gælunafninu La Tigresa, var ein af leiðtogum herskárra Baska sem börðust fyrir sjálfstæði frá Spáni á níunda áratug síðustu aldar. Hún bar ábyrgð á sprengjuárás sem banaði 12 borgarahermönnum árið 1986 og annarri, síðar sama ár, sem banaði fimm manns. Þá segir sagan að hún hafi dregið lögreglumenn á tálar áður en hún myrti kollega þeirra og varð hún fljótt einn mest eftirlýsti hryðjuverkamaður aðskilnaðarsinna, ETA.

Árið 2003 var hún loks dæmd í 1.500 ára fangelsi fyrir glæpi sína. Árið 2011 var hún rekin úr og afneitað af ETA eftir að hún baðst afsökunar á gjörðum sínum.


4. Marie Sukloff

Marie Sukloff var ung rússnesk bóndadóttir í byrjun 20. aldar á þeim tíma sem Fyodor Dubasov fyrirskipaði ofsóknir gegn og morð á gyðingum. Sukloff gekk í raðir samtaka sem vildu koma Dubasov fyrir kattarnef. Kvöld eitt árið 1914 lét Sukloff í félagi við annan mann til skarar skríða. Vitorðsmaður hennar kastaði þá sprengju undir vagn harðstjórans en hún lenti í snjóskafli og sprakk ekki. Án þess að hika hljóp Sukloff að sprengjunni, tók hana upp og kastaði henni inn um gluggann á vagni Dubasovs sem lét lífið í sprengingunni. Sukloff lifði af en var síðar handsömuð og fangelsuð fyrir morðið.


5 Kim Hyun-hui

Mynd: EPA

Kim Hyun-hui var 19 ára gömul framdi hún hryðjuverk sem kostaði 115 manns lífið. Kim heldur því fram að hún hafi verið valin úr háskólanum í Pyongyang til að ganga í leyniþjónustu Norður-Kóreu. Þar hafi hún gengist undir sex ára þjálfun, eða þar til Suður-Kórea var að fara að halda Ólympíuleikana í Seúl árið 1987, til að læra að tala og hegða sér eins og japanskur ríkisborgari.

Sagan segir að Kim Il-sung og sonur hans Kim Jong-il hafi verið staðráðnir í að koma í veg fyrir að leikarnir færu fram svo Kim Hyun-hui var fyrirskipað að sprengja suðurkóreska flugvél.

Hún kom því fyrir sprengju í handfarangursgeymslu flugs 858 en sjálf kom hún sér frá borði í millilendingu í Abu Dhabi. Á leiðinni að næsta áfangastað til millilendingar, í Bangkok í Taílandi, sprakk sprengjan og kostaði 115 manns lífið.
Hyun-hui var handsömuð og játaði verknaðinn. Hún var dæmd til dauða árið 1989 en var síðar náðuð af forseta Suður-Kóreu, Roe Tae-Woo. Það hljómar kannski furðulega en hún er í dag gift suðurkóreskum leyniþjónustumanni og eiga þau saman tvö börn. Hún er 55 ára í dag og lifir enn í ótta við hefndaraðgerðir frá Norður-Kóreu fyrir liðhlaup sitt.


6. Charlotte Corday

Málverk eftir  Jean-Jacques Hauer.
Charlotte Corday Málverk eftir Jean-Jacques Hauer.

Árið 1793, á tímum frönsku ógnarstjórnarinnar, tók unga aðalskonan Charlotte Corday það að sér að ráða áhrifamikinn blaðamann, Jean-Paul Marat, af dögum. Hún leit svo á að dagblað hans, L‘ami du Peuple, bæri ábyrgð á September-fjöldamorðunum þar sem á bilinu 1.200 til 1.400 fangar voru drepnir í miklu blóðbaði. Taldi hún sig geta forðað Frökkum frá allsherjar borgarastyrjöld með því að myrða Marat.

Við komuna til Parísar komst hún á fund með Marat undir því yfirskini að hún hefði upplýsingar um fyrirhugaða uppreisn. Á meðan hann skrifaði hjá sér falskan vitnisburð hennar dró hún fram stóran hníf og stakk hann í brjóstið. Fjórum dögum síðar var Corday tekin af lífi með fallöxi. Marat varð á hinn bóginn að píslarvætti hjá Jakobínum, frönsku róttæku stjórnmálahreyfingunni sem leiddi frönsku byltinguna.


7. Brigitte Mohnhaupt

Mynd: EPA

Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var Mohnhaupt meðlimur í kommúníska hryðjuverkahópnum Red Army Faction (RAF) sem herjaði á Þjóðverja um áratugaskeið og banaði að minnsta kosti 30 manns. Mohnhaupt átti aðild að morðum á nokkrum þekktum Þjóðverjum á borð við iðnjöfurinn Hans Martin Schleyer, yfirmann Dresdner-bankans, Juergen Ponto og ríkissaksóknarann Siegfried Buback.

Mohnhaupt, sem lýst var sem einni verstu og hættulegustu konu Vestur-Þýskalands, var árið 1985 dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir glæpi sína, sem hún sýndi enga iðrun vegna. 24 árum síðar varð mjög umdeilt þegar henni var veitt reynslulausn úr fangelsi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Í gær

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis