fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Ríkisstjórn í kröppum dansi

Hveitibrauðsdagarnir hófust aldrei – Vandræði frá fyrsta degi – Stjórnin þegar fallin í einu máli

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 21. febrúar 2017 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar undir forystu Bjarna Benediktssonar hefur nú setið við völd í 42 daga. Á þeim stutta tíma hefur stjórnin átt við fádæma vandræði að etja, allt frá fyrsta degi og fram á daginn í dag. Óánægja með ráðherraval, andstaða stjórnarþingmanna við mál á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, næsta fordæmalausar óvinsældir í skoðanakönnunum, ósamstaða stjórnarþingmanna í stórum málum og óvinsæl mál í almannaumræðu, við allt þetta hefur ríkisstjórnin þurft að glíma. Í raun er stjórnin þegar fallin í einu máli, ef marka má yfirlýsingar þingmanna, og um fleiri mál ríkir ekki eining.

DV tók saman nokkur helstu vandræðamálin sem ríkisstjórnin hefur staðið frammi fyrir á þessum tæpa einum og hálfa mánuði sem hún hefur verið við völd.

Páll andsnúinn ráðherraskipan

„Lítilsvirðing gagnvart Suðurkjördæmi“
Páll andsnúinn ráðherraskipan

Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, studdi ekki ráðherraskipan Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, og lá ekki þeirri afstöðu sinni. Í stöðuuppfærslu á Facebook 11. janúar greindi Páll frá þessu og sagði ráðherraskipanina ganga gegn lýðræðislegu umboði og að hún fæli í sér lítilsvirðingu gagnvart Suðurkjördæmi. „Á þingflokksfundi í gærkvöldi sagðist ég því miður ekki geta stutt þá ráðherraskipan sem formaður flokksins gerði tillögu um. Fyrir því væru tvær ástæður: Í fyrsta lagi gengi þessi skipan í veigamiklum atriðum gegn því lýðræðislega umboði sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu áunnið sér í prófkjörum og síðan kosningum í haust. Í öðru lagi fæli hún í sér lítilsvirðingu gagnvart Suðurkjördæmi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vann sinn stærsta sigur í kosningunum.“

Ráðherravalið mistök

Páll lét ekki þar við sitja heldur mætti hann í Vikulokin á Rás 1 og ítrekaði þessa afstöðu. „Ég lít á þetta sem mistök,“ sagði Páll. „Formaður flokksins er skynsamur maður og leiðréttir þau ábyggilega við fyrsta tækifæri.“

Ekki er hægt að halda því fram að um þægilegt veganesti hafi verið að ræða fyrir Bjarna og ríkisstjórnarsamstarfið, að fá sendingu sem þessa á fyrsta degi. Vitað er að fleiri voru ekki sáttir við ráðherravalið, þar á meðal Brynjar Níelsson, en fáheyrt er að óánægja sé orðuð með svo afgerandi hætti sem Páll gerði í þessu tilfelli.

Stjórnin í praxís fallin

Stjórnarþingmenn andvígir ríkisstjórnarfrumvarpi
Stjórnin í praxís fallin

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að ráðast gegn launamun kynjanna. „Í því skyni að sporna við launamisrétti af völdum kynferðis verði áskilið að fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri taki upp árlega jafnlaunavottun.“ Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er frumvarp um jafnlaunavottun boðað en félags- og jafnréttismálaráðherra, Þorsteinn Víglundsson, ætlar að leggja frumvarpið fram. Jafnlaunavottun var eitt af stærstu kosningamálum Viðreisnar.

Fyrst Óli Björn

Nú bregður hins vegar svo við að þingmenn ríkisstjórnarinnar, eða öllu heldur þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hafa lýst því yfir að þeir hyggist ekki styðja frumvarpið. Fyrstur reið á vaðið Óli Björn Kárason sem sagði í viðtali við Viðskiptablaðið 9. febrúar að hann myndi ekki styðja frumvarpið. Ríkisstjórn sem boði aukin afskipti af atvinnulífinu sé ekki sérlega hægri sinnuð, sagði Óli Björn og meinti ekki sem hrós.

Svo Brynjar

Nokkrum dögum síðar lýsti Brynjar Níelsson því einnig yfir, í viðtali við mbl.is að hann myndi ekki heldur styðja frumvarp um jafnlaunavottun. „Ég held að þetta sé bara vanhugsað og menn séu að gefa sér rangar forsendur,“ sagði Brynjar og bætti við: „Þetta er bara einhver vitleysa. Ég vona að menn endurskoði þetta.“ Brynjar hafði raunar áður lýst því yfir að hann væri óánægður með stjórnarsáttmálann og sérstaklega jafnlaunavottunina. Í viðtali við DV kallaði hann frumvarpið óþarfamál, „til dæmis þessi helvítis jafnlaunavottun. Það er algjörlega fráleitt.“

Ráðherra lýsir efasemdum

Auk þeirra Óla Bjarnar og Brynjars hefur Sigríður Á. Andersen einnig tjáð sig um kynbundinn launamun og jafnlaunavottun. Í grein í árshátíðarriti Orator, félags laganema við Háskóla Íslands, sagði Sigríður að ekkert væri hægt að fullyrða um kynbundið misrétti á launamarkaði. Sigríður vitnaði í skýrslu velferðarráðuneytisins frá árinu 2015 þar sem sagt er að ekki sé hægt að fullyrða að óútskýrður launamunur sem mælist sé eingöngu vegna kynferðis. Yrði þeim upplýsingum gerð betri skil í opinberri umræðu léki ekki vafi á að þrýstingur á opinberar aðgerðir í jafnréttismálum „til dæmis kynjakvóta og jafnlaunavottanir, myndi minnka.“

Ekki í höndum ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin hefur minnst mögulegan meirihluta, 32 þingmenn af 63. Í praxís má því segja að stjórnin sé fallin, alla vega í þessu máli. Nánast fordæmalaust er að svo margir þingmenn ríkisstjórnarflokka lýsi sig andsnúna ríkisstjórnarfrumvarpi að þingstyrkur sé ekki fyrir málinu. Ríkisstjórnin mun því þurfa að treysta á velvild stjórnarandstöðunnar til að koma málinu í gegn. Samkvæmt heimildum DV munu þingmenn stjórnarandstöðunnar vera nokkuð klofnir í málinu. Annars vegar hlakkar í þeim vegna vandræða ríkisstjórnarinnar en hins vegar eru þeir margir með hálfgert óbragð í munninum vegna þess. Ástæðan er sú að almennt styðja þeir jafnlaunavottun og sjá ekki fyrir sér að geta verið á móti málinu en hafa á sama tíma engan áhuga á að skera ríkisstjórnina úr snörunni.

Næsta fordæmalausar óvinsældir

Stuðningur við ríkisstjórnarflokkanna fellur
Næsta fordæmalausar óvinsældir

Óvinsældir ríkisstjórnarinnar eru næsta fordæmalausar sé horft til nýlegra skoðanakannana. Í lok janúar birtust tvær kannanir sem mældu stuðning við stjórnina, annars vegar könnun Maskínu og hins vegar könnun MMR. Í þeirri fyrrnefndu sögðust aðeins 25 prósent vera ánægð með ríkisstjórnina en 47 prósent sögðust óánægð. Í könnun MMR sögðust aðeins 35 prósent aðspurðra styðja ríkisstjórnina. Stuðningurinn mælist nokkuð meiri í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup, sem birtur var 7. febrúar, en þar segjast 44 prósent styðja stjórnina. Í nýrri könnun MMR frá 9. febrúar er stuðningurinn kominn niður í 32,6 prósent.

Óvanalega mikil andstaða

Þetta er mun minni stuðningur en flestar ríkisstjórnir hafa átt að venjast í upphafi kjörtímabils síns. Þannig mældist ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur með 61 prósents stuðning eftir kosningarnar í apríl 2009 og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar mældist með ríflega 62 prósenta stuðning eftir kosningarnar vorið 2013.

Fylgi Viðreisnar helmingast

Þá hefur fylgi ríkisstjórnarflokkanna hríðfallið í skoðanakönnunum frá kosningum, einkum og sér í lagi fylgi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Í fyrrnefndum Þjóðarpúlsi sögðust ríflega 5 prósent styðja Viðreisn og í nýjustu könnun MMR mælist fylgið 5,6 prósent. Viðreisn hlaut 10,5 prósent atkvæða í kosningunum 29. október síðastliðinn. Björt framtíð mældist með um 7 prósenta stuðning í Þjóðarpúlsinum og 5,3 prósent í könnun MMR en hlaut 7,2 prósent atkvæða í kosningunum. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 28 prósent í Þjóðarpúlsi en 23,8 prósent í MMR könnuninni. Flokkurinn hlaut 29 prósent atkvæða í kosningunum. Þess má geta að samkvæmt könnun MMR, sem er hin nýjasta þegar þetta er skrifað, eru Vinstri græn orðin stærsti flokkur landsins og mælast með um 27 prósenta fylgi.

Setið á skýrslum

Pólitísk ákvörðun um að birta ekki skýrslur fyrir kosningar
Setið á skýrslum

Bjarni Benediktsson hefur legið undir verulegu ámæli sökum þess að tvær skýrslur sem unnar voru fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem Bjarni stýrði á síðasta kjörtímabili, voru ekki birtar fyrir síðustu kosningar, þrátt fyrir að hafa verið tilbúnar. Annars vegar var um að ræða skýrslu um umfang aflandseigna Íslendinga og skattaundanskot í tengslum við þær eignir. Hins vegar var um að ræða skýrslu um þjóðhagsleg áhrif Leiðréttingarinnar svokölluðu.

Báðar tilbúnar fyrir kjördag

Fyrrnefnda skýrslan, sú sem fjallar um aflandseignir Íslendinga, var tilbúin um miðjan september 2016 og var kynnt fyrir Bjarna í byrjun október það ár. Skýrslan var hins vegar ekki birt fyrr en 6. janúar á þessu ári. Svo sem kunnugt er var ástæðan fyrir því að kosningum var flýtt uppljóstrun á aflandseignum stjórnmálamanna í Panama-skjölunum svokölluðu. Því hefur verið haldið fram að tekin hafi verið pólitísk ákvörðun um að birta ekki skýrsluna fyrir kosningar. Hver sem ástæðan er hefur það vakið mikla úlfúð og reiði að skýrsla þessa efnis hafi ekki verið birt fyrir kosningar, þegar hún var tilbúin.

Síðari skýrslan, sú sem fjallar um þjóðhagsleg áhrif Leiðréttingarinnar, mun hafa verið tilbúin í drögum í janúar á síðasta ári, eftir því sem Kjarninn greindi frá. Lokadrög voru tilbúin í júní 2016 og vinnslu við skýrsluna var lokið í október 2016, fyrir kosningar. Skýrslan var hins vegar ekki birt fyrr en 18. janúar á þessu ári. Í skýrslunni kemur fram hvernig leiðrétting verðtryggðra fasteignalána dreifðist á milli Íslendinga. Meðal annars kemur fram þar að sá fimmtungur þjóðarinnar sem átti mestar hreinar eignir fékk tæplega þriðjung þeirra 72 milljarða sem fóru í leiðréttinguna. Þessum upplýsingum, um eitt allra stærsta þingmál síðustu ríkisstjórnar, var haldið frá kjósendum fyrir kosningarnar 2016.

Áfengisfrumvarpið hengt á stjórnina

Andstaða í skoðanakönnunum og samtök eru á móti
Áfengisfrumvarpið hengt á stjórnina

Þingmenn fjögurra flokka hafa lagt fram frumvarp þess efnis að einkaleyfi ÁTVR á sölu á áfengi verði afnumið og heimilt verði að selja áfengi í verslunum. Auk þingmanna stjórnarflokkanna þriggja eru þrír Píratar meðflutningsmenn að frumvarpinu. Þrátt fyrir þátttöku Píratanna hefur verið litið á frumvarpið í almannaumræðu sem skilgetið afkvæmi ríkisstjórnarinnar, einkum Sjálfstæðisflokksins, enda alls ekki í fyrsta skipti sem þingmenn flokksins flytja viðlíka frumvarp. Fyrsti flutningsmaður er enda Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Frumvarpið hefur valdið verulegum deilum og ljóst er að ekki styðja allir þingmenn stjórnarflokkanna það. Þá kom í ljós í nýrri skoðanakönnun að meirihluti Íslendinga, 61,5 prósent, er mótfallinn frumvarpinu. Þá hefur fjöldi samtaka og embætta lagst gegn frumvarpinu. Þar á meðal má telja Barnaheill, UNICEF, Umboðsmann barna og landlækni.

Sem fyrr segir er áfengisfrumvarpið ekki ríkisstjórnarfrumvarp en er hins vegar tengt stjórninni með órjúfanlegum hætti í umræðunni. Umræðan um það hefur ekki verið stjórninni í vil.

Sakaður um að leggja á landsbyggðarskatt

Hugmyndum um vegtolla vægast sagt illa tekið
Sakaður um að leggja á landsbyggðarskatt

Jón Gunnarsson samgönguráðherra hefur greint frá því að til skoðunar sé að taka upp vegagjöld á vegum frá höfuðborgarsvæðinu til að takast á við þann vanda sem vegakerfið á við að etja. Jón sagði á fundi í byrjun þessa mánaðar að um 10 milljarða vantaði upp á til að fjármagna að fullu framkvæmdir á samgönguáætlun á þessu ári einu. Vegatollar væru ein þeirra leiða sem til skoðunar væru til að bregðast við því.

Samflokksmenn í sveitarstjórnum ósáttir

Þessar yfirlýsingar Jóns hafa strokið mörgum verulega öfugt. Þannig hafa bæði bæjarráð Árborgar og Hveragerðis bókað andstöðu sínar við hugmyndirnar og leggjast eindregið gegn gjaldtöku á leiðum til og frá höfuðborgarsvæðinu. Aldís Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar og flokkssystir samgönguráðherra, sagði þannig í fjölmiðlum að einhugur væri í bæjarstjórninni um að leggjast alfarið gegn öllum hugmyndum um vegagjöld. Óeðlilegt væri að aðeins hluti landsmanna tæki þátt í fjármögnun af þessu tagi, eðlilegra væri að slíkt tæki til allra landsmanna. Þá hefur Ásta Stefánsdóttir, bæjarstjóri í Árborg og einnig flokkssystir ráðherra, sagt að vegatollar myndu skaða samkeppnishæfni landshlutans.

Þá leggst Félag íslenskra bifreiðaeigenda gegn hugmyndunum og bendir á að nú þegar séu innheimtir tugir milljarða af bifreiðaeigendum með ýmissi skattheimtu. Árið 2011 efndi félagið til undirskriftasöfnunar á heimasíðu sinni til að mótmæla hugmyndum um vegtolla sem þá voru uppi og rituðu undir hana ríflega 41 þúsund atkvæðisbærra manna. Því má halda því fram að býsna almenn andstaða sé við hugmyndir af þessu tagi.

Sagðir sértækar skattahækkanir

Vegagjöld af þessu tagi hafa verið uppnefnd landbyggðarskattur og vitað er að mikil andstaða er við hugmyndirnar innan stjórnarandstöðunnar, sem án efa mun beita sér hart gegn málinu. Þannig hefur Katrín Jakobsdóttir bent á að um sértæka gjaldheimtu væri að ræða sem í raun væri ígildi skattahækkana á ákveðna hópa, þvert á loforð Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar.

Þá eru efasemdir uppi innan stjórnarliðsins, meðal annars hefur Brynjar Níelsson lýst því að til að hægt sé að leggja á vegagjöld verði vegfarendum að vera kleyft að fara aðrar leiðir í staðinn.

Jón Gunnarsson hefur sjálfur sagt að engar ákvarðanir hafi verið teknar um upptöku vegatolla heldur sé eingöngu verið að skoða málið ásamt öðrum hugmyndum. Engu að síður hafa hugmyndirnar fallið í mjög grýttan jarðveg og munu án efa valda stjórninni áframhaldandi erfiðleikum í umræðunni.

Fór rangt með á Alþingi

Umhverfisráðherra vísaði í orðalag sem ekki er til staðar
Fór rangt með á Alþingi

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra fór rangt með í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi þegar hún svaraði fyrirspurn Oddnýjar Harðardóttur fyrr í þessum mánuði. Oddný spurði þar hvort Björt hygðist beita sér fyrir lagabreytingu í anda málefnasamnings ríkisstjórnarinnar um að ekki verði efnt til nýrra ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna uppbyggingar á mengandi stóriðju. Björt fullyrti í svari sínu við fyrirspurninni að nefnd um veitingu ívilnana hefði fengið tilmæli um að ekki skyldi veita ívilnanir til mengandi stóriðju. Nefndin hefur hins vegar engin slík tilmæli fengið. Greint var frá málinu í Kvennablaðinu og Stundinni.

Í svari sínu við fyrirspurninni fullyrti Björt einnig að í rammalöggjöf um ívilnanir til nýfjárfestinga væri „talað um náttúru- og umhverfisvernd“. Það er ekki rétt hjá Björt.

Hefði átt að nota orðalagið leiðsögn

Björt hefur svarað fyrir málið með þeim orðum að hún hafi verið að vísa til stefnu ríkisstjórnarinnar en hefði ekki átt að nota orðið „tilmæli“ í þessu tilfelli heldur hefði orðið „leiðsögn“ verið heppilegra. „Það sem ég var að vísa til með orðum mínum er stefna ríkisstjórnarinnar. Hún er mjög skýr í þessum málum og kemur fram í stjórnarsáttmálanum. Þeirri leiðsögn hefur verið komið á framfæri til ráðuneytanna allra sem vinna nú eftir henni.“

Engu að síður hefur Björt legið undir töluverðri gagnrýni fyrir málið, einkum á samfélagsmiðlum.

Þingmenn tala gegn ráðherra

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala þvert á yfirlýsingar Þorgerðar Katrínar
Þingmenn tala gegn ráðherra

Verkfalli sjómanna lauk um liðna helgi þegar að samningar í deilu þeirra við útvegsmenn náðust eftir tíu vikna verkfall. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lýsti því ítrekað yfir á síðustu metrum kjaradeilunnar að ekki kæmi til greina að stjórnvöld kæmu að lausn hennar með sértækum aðgerðum, svo sem með því að afnema skatt af fæðispeningum. Eitt skyldi yfir alla ganga.

Páll gagnrýnir ríkisstjórnina

Þessa afstöðu gagnrýndi Páll Magnússon, formaður atvinnuveganefndar, harðlega og sagði alvarlegt að það skyldi stranda á stjórnvöldum að leysa málið, „eða þessum tveimur ráðherrum sem með þetta höndla, sjávarútvegsráðherra og fjármálaráðherra. Stjórnvöld eru ábyrg fyrir því gagnvart þjóðinni að þessi auðlind sé nýtt. Það má ekki standa upp á þessi sömu stjórnvöld, að það séu þau sem komi í veg fyrir að flotinn sigli úr höfn og til veiða.“

Vildi sértækar aðgerðir

Þá sagði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, að aðkoma ríkisins væri algjörlega óhjákvæmileg nokkrum dögum áður en samdist og vísaði til kröfu sjómanna og útgerðarmanna um að fæðispeningar yrðu undanþegnir skatti. „Ég er alveg tilbúinn að taka þann slag og tel að við verðum bara að sýna röggsemi og klára þetta mál í dag. Það þarf svo vitanlega að fara í gegnum þingið með breytingum á skattalögum og þar fram eftir götunum.“

Þorgerður sögð hafa hótað sjómönnum

Sem kunnugt er leystist kjaradeilan án þess að til þessarar sértæku aðkomu ríkisvaldsins kæmi. Þorgerður Katrín lýsti því hins vegar yfir að hún hefði verið með bráðabirgðalög tilbúin ef ekki hefði komið til þess að deilan leystist. Spurð hvort hún hefði hótað því að setja lög á verkfallið neitaði hún því en sagði að deiluaðilar hefðu verið meðvitaðir um að lögin væru tilbúin.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, kom hins vegar fram í gær og sakaði Þorgerði um að hafa stillt samninganefndum sjómanna upp við vegg og hótað þeim lagasetningu. Sjómönnum hafi verið stillt upp við vegg. Samningurinn var samþykktur með naumum meirihluta síðastliðið sunnudagskvöld, 52,4 prósent samþykktu samninginn en 46,9 prósent höfnuðu honum. Það styrkir ekki ríkisstjórnina að óeining hafi verið innan hennar um aðkomu ríkisvaldsins að málinu auk þess sem talsmenn sjómanna gagnrýna síðan þátt Þorgerðar Katrínar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Í gær

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar
Fréttir
Í gær

Maður á sjötugsaldri í gæsluvarðhald vegna andláts konu á Akureyri

Maður á sjötugsaldri í gæsluvarðhald vegna andláts konu á Akureyri
Fréttir
Í gær

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristján Berg veit betur núna og biðst afsökunar: „Það verður að hlúa betur að fólki með geðræn vandamál“

Kristján Berg veit betur núna og biðst afsökunar: „Það verður að hlúa betur að fólki með geðræn vandamál“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þingmaður bendir á athyglisverða staðreynd – „Með brotabroti af útgjöldum okkar til hersins höfum við náð þessum árangri gegn Rússlandi“

Þingmaður bendir á athyglisverða staðreynd – „Með brotabroti af útgjöldum okkar til hersins höfum við náð þessum árangri gegn Rússlandi“