Meirihlutinn telur Ísland vera á rangri braut

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Meirihluti Íslendinga telur hlutina á Íslandi almennt séð vera á rangri braut. Þeir sem höfðu áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum, fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði og viðhaldi velferðakerfisins voru líklegri til að telja hlutina á Íslandi almennt séð á rangri braut en þeireir sem höfðu mestar áhyggjur af glæpum og ofbeldi, ofþyngd barna og verðbólgu reyndust líklegri til að telja hlutina á réttri leið.

Í nýlegri könnun MMR voru þáttakendur spurðir hvort þeir teldu hlutina á Íslandi almennt séð vera að þróast í rétta átt eða hvort þeir séu á rangri braut. Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar sögðu 54,3 prósent hlutina vera á rangri braut en 45,7 prósent sögðu þá vera að þróast í rétta átt.

Nokkur munur var á svörum eftir lýðfræðihópum. Þannig reyndist aldurshópurinn 50-67 ára líklegastur til að telja hlutina á rangri braut eða 62 prósent. Elsti og yngsti aldurshópurinn voru aðeins líklegri til að telja hlutina á réttri braut eða 52 prósent þeirra 68 ára og eldri og 51 prósent 18 ára og eldri.

Af þeim sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu töldu 51 prósent hlutina vera á rangri braut samanborið við 61% þeirra sem búsettir voru á landsbyggðinni. Eftir því sem heimilistekjur voru hærri, því líklegra var fólk til að telja hlutina vera að þróast í rétta átt.

Stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna voru líklegastir til að telja hlutina á Íslandi vera að þróast í rétta átt. Af stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins töldu 82 prósent hlutina vera að þróast í rétta átt, 80% prósent stuðningsmanna Viðreisnar og 61 prósent stuðningsmanna Bjartrar framtíðar. Stuðningsmenn Pírata voru líklegastir til að telja hlutina á rangri braut eða 79 prósent.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.