fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Lilja bauð Brynjari í Framsókn: „Af hverju erum við ekki í sama flokki?“

Verkfall sjómanna og vegtollar komu meðal annars til umræðu á Eyjunni á ÍNN í gærkvöldi

Einar Þór Sigurðsson
Föstudaginn 17. febrúar 2017 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Að mínu mati er alveg útilokað að rukka vegtolla ef það er ekki önnur leið í boði. Algjörlega útilokað,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, í þættinum Eyjunni á ÍNN í gærkvöldi. Þar ræddu þau Lilja og Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þau mál sem hafa verið í deiglunni á hinu pólitíska sviði undanfarna daga.

Hæpnar hugmyndir Jóns

Hugmyndir um gjaldtöku til að fjármagna framkvæmdir á vegum á suðvesturhorni landsins hafa vakið talsverða athygli og komu þau mál meðal annars til umræðu í þættinum í gærkvöldi. Talað hefur verið um að veggjöld séu ekkert annað en dulin skattahækkun á borgara landsins. Brynjar og Lilja eru bæði sömu skoðunar og segja að hæpið sé að rukka fyrir umferð ef engir aðrir möguleikar eða leiðir eru í boði fyrir vegfarendur.

„Hugmyndin er kannski ekki skattahækkun en ég get alveg skilið veggjöld ef þú átt aðra leið. Þess vegna tel ég að þetta geti verið leið við ákveðnar framfarir í samgöngumálum en við verðum að passa okkur með almennar framkvæmdir og almenna vegi að menn verði að komast án gjalds,“ sagði Brynjar.

„Að mínu mati er alveg útilokað að rukka vegtolla ef það er ekki önnur leið í boði. Algjörlega útilokað.“

Lilja kvaðst vera sammála því. „Að mínu mati er alveg útilokað að rukka vegtolla ef það er ekki önnur leið í boði. Algjörlega útilokað.“

Brynjar svaraði að bragði: „Þá erum við alveg sammála. Af hverjum erum við ekki í sama flokki?“ Lilja brást við með því að bjóða Brynjari að færa sig yfir í Framsóknarflokkinn. „Þú verður bara að koma yfir. Við erum hinn nýi róttæki flokkur.“

Óundirbúin ríkisstjórn

Lilja og Brynjar ræddu fleiri mál í þættinum, meðal annars sjómannaverkfallið. Í morgun var greint frá því að verkfallið komi til umræðu á fundi efnahags- og viðskiptanefndar sem hófst í morgun. Morgunblaðið greindi frá því í morgun að möguleiki sé á að gengið verði frá samningi á milli sjómanna og útgerðarmanna í dag.

Greint var frá því í gær að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hygðist setja af stað vinnu til að meta áhrif skattabreytinga sem fælu í sér að gera fæðispeninga sjómanna skattfrjálsa. Kom það fram á sameiginlegum fundi efnahags- og viðskiptanefndar og atvinnuveganefndar. Þorgerður sagði til stæði að þessari vinnu, að meta áhrif skattabreytinganna, yrði lokið í apríl.

Lilja og Brynjar gagnrýndu Þorgerði – og stjórnvöld – fyrir viðbrögð þeirra í kjaradeilunni.

„Við verðum að sýna ábyrgð, það eru miklir almannahagsmunir undir.“

„Eftir verkfall í rúma tvo mánuði og ætla að skoða málið í aðra tvo mánuði. Við verðum að vera undirbúin og vera búin að skoða þessi mál nákvæmlega,“ sagði Brynjar og bætti við að svo virtist vera sem stjórnvöld væru ekki reiðubúin með neina áætlun. „Það virðist ekki vera miðað við þetta ef þú ætlar að skoða almennar aðgerðir eftir tvo og hálfan mánuð. Það eru gífurlegir hagsmunir undir og við ætlum að fara að skoða eitthvað. Ég er ekki alveg sáttur við það. Við verðum að sýna ábyrgð, það eru miklir almannahagsmunir undir. Þetta snýst ekki bara um sjómenn og útgerðarmenn og ég er ekki tilbúinn að láta verkfallið dangla einhvern tíma í viðbót meðan ég er að skoða eitthvað.“

Sjómenn og útgerðarmenn beri líka ábyrgð

Brynjar áréttaði þó að sjómenn og útgerðarmenn eigi að bera ábyrgð. „Það er grundvallaratriðið. En við verðum samt að vera búin að undirbúa okkur og vita hverjar afleiðingar verða. Hvað við getum gert og verið þá tilbúin með það. Vera búin að merkja það niður hvað við getum gert. Þetta á að vera allt búið í mínum huga.“

„En við verðum samt að vera búin að undirbúa okkur og vita hverjar afleiðingar verða.“

Lilja tók undir þetta og benti á að hún hefði lagt fram fyrirspurn til Þorgerðar þann 31. Janúar síðastliðinn þar sem hún spurði hvort búið væri að meta þjóðhagsleg áhrif verkfallsins.

„Ráðherrann kemur og svarar að það sé ekki búið að gera það og fer í kjölfarið að meta þessi þjóðhagslegu áhrif. En það kom mér samt á óvart að hún útilokaði alla aðkomu. Ég var ekki að tala um sértækar aðgerðir eða lög eða neitt slíkt heldur bara hvað er búið að gera,“ sagði Lilja og bætti við að markmiðið hafi líka verið að ýta við ríkisstjórninni. Um sé að ræða eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar og margar sjávarbyggðir séu í verulegum vandræðum. Þessi vinna hafi farið af stað og þá hafi komið í ljós að hagsmunirnir séu gríðarlegir.

„Ég hélt í kjölfarið á því – og þegar búið væri að kynna skýrsluna – að þá myndi komast meiri alvara í málið og menn færu í þetta af miklu meiri þunga. Það sem mér finnst hafa komið í ljós er að ríkisstjórnin er óundirbúin. Mér finnst þetta ekki fagleg nálgun á málið og nýjasta útspilið að menn ætli að taka sér tvo mánuði í viðbót er bara ekki boðlegt. Þess vegna hef ég óskað eftir fundi í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem ég óska eftir því að ráðherrann fari yfir stöðu mála og hún kynni fyrir okkur þjóðhagslega matið og hvaða almennar aðgerðir hún er að skoða. Mér finnst að við í efnahags- og viðskiptanefnd eigum að fá gott yfirlit vegna þess að ef menn eru að tala um dagpeninga tengist það skattkerfinu – þá er það okkar mál. Þetta er ekki einkamál bara viðsemjandi. Þetta eru þjóðarhagsmunir.“

Stefnir á að verða stærri en Icelandair

Skúli Mogensen, forstjóri og aðaleigandi WOW air, var einnig gestur Björns Inga á Eyjunni í gærkvöldi. Margt athyglisvert kom fram í máli Skúla, meðal annars sú trú hans að WOW air yrði senn stærsta flugfélag landsins með fleiri farþega en Icelandair.

„Ég tel verulegar líkur á því að við verðum með fleiri farþega en Icelandair strax á næsta ári. Það er hins vegar ekkert markmið í sjálfu sér að verða stærri en Icelandair. Ég hef látið það líka flakka að það er ágætt að stefna að því að verða Íslandsmeistari en ég hef miklu meiri áhuga á að verða heimsmeistari. Þess vegna er ég að horfa á Norwegian með þeirra 155 vélar og þeir verða með 178 vélar á næsta ári. Þannig að þegar við erum að bera okkur saman við önnur flugfélög þá erum við að horfa á fremstu lággjaldafélögin í heiminum og læra af þeim og skoða hvernig þau eru að vaxa og hvaða ákvarðanir þau eru að taka. Fyrir vikið erum við að fara erlendis líka. Það er afleiðing af því, að við erum að verða stærri en Icelandair, en það er ekkert markmið í sjálfu sér.“

Viðtalið við Brynjar og Lilju:

Eyjan_16FEB17_2_hluti from inntv on Vimeo.

Viðtalið við Skúla Mogensen:

Eyjan_16FEB17_1_hluti from inntv on Vimeo.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu