Banaslysið í Silfru: „Ég horfði á manneskju deyja í dag“

Frásögn bandarísks ferðamanns vekur athygli

Mynd: Scot

„Ég horfði á manneskju deyja í dag og mér er verulega brugðið.“ Svona hefst Facebook-færsla Bandaríkjamannsins Scot Hacker sem varð vitni að banaslysinu í Silfri um liðna helgi. Breska blaðið Daily Mail fjallaði um slysið á vef sínum í gærkvöldi.

Í fréttinni kemur fram að einstaklingurinn sem lést hafi verið 65 ára. Scott varð vitni að slysinu en hann var þarna að fara í sinn fyrsta köfunarleiðangur. Scott segir að það hafi verið einstök upplifun að kafa í Silfru en þegar hann var að fara upp úr, í níðþungum kafarabúningnum, hafi hann strax tekið eftir því að eitthvað óeðlilegt væri á seyði.

Erfitt að fá upplýsingar

„Það var verið að veita konu á miðjum aldri skyndihjálp. Bráðaliðar komu aðvífandi, þyrla sveimaði yfir og það var erfitt að fá upplýsingar um hvað hafði gerst. En ég er nokkuð viss um að hún hafi fengið hjartaáfall þegar hún var að kafa. Mér er mjög brugðið,“ segir Scott í færslunni.

Í frétt Daily Mail kemur fram að um hafi verið að ræða áttunda dauðsfallið í Silfru frá árinu 2010. Vegna mikils ágangs ferðamanna í köfun í Silfru séu til dæmi þess að fólk þurfi, eftir að hafa klætt sig í kafarabúning, að bíða í drykklanga stund eftir því að komast ofan í. Þröngur búningurinn hefti blóðflæði um líkamann sem eykur líkur á slysum.

Líður yfir fólk

Þetta rímar við frásögn Einars Sæmundsen, fræðslustjóra Þingvallaþjóðgarðs, sem sagði í frétt RÚV á mánudag að til séu dæmi þess að liðið hafi yfir fólk meðan það bíður á bakkanum eftir því að komast ofan í.

„Eitt af því sem háir þarna er hvað það er langur biðtími á bakkanum, sem er ekki bara óþægilegt fyrir gesti bara að hanga og bíða. Það er öryggisatriði, vegna þess að yfir veturinn þá eru menn að kólna og þeir dofna,“ sagði Einar í fréttinni. Hann bætti við að nauðsynlegt væri að því yrði komið þannig fyrir að hægt yrði að takmarka fjöldann sem fer ofan í Silfru. Til þess þurfi þó lagabreytingu.

Í samtali við Daily Mail segir Scot að þeir sem voru á svæðinu hafi verið beðnir um að færa sig þegar þyrla Landhelgisgæslunnar kom á vettvang. Hacker, sem er forritari, búsettur í Kaliforníu, segir að þennan dag hafi margir hópar verið á svæðinu. Hver og einn hópur hafi þurft að bíða eftir því að komast að.

Fagmaður þarf að vera á svæðinu

Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður sagði við RÚV í vikunni að það þurfi að vera fagmaður á vakt við Silfru meðan hópar eru við köfun. Hann tók undir með Einari um að takmarka þyrfti þann fjölda ferðamanna og þann fjölda fyrirtækja sem bjóða upp á köfunarleiðangra í Silfru. Einar sagði að tvennt þyrfti að gerast, fagmaður þyrfti að vera á svæðinu sem hefði valdheimildir til að grípa inn í og að takmarka fjöldann. „Eins og þetta er núna þá er Silfra opin eins og Hvannadalshnúkur. Það geta allir gengið á hann og hafið þangað leiðsögn og það er eins með Silfru.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.