„Fyrir suma verður þetta fótboltaveisla, fyrir aðra ofbeldisveisla“

Heimildarmynd BBC varpar ljósi á fótboltabullur í Rússlandi

Í myndinni er meðal annars fylgst með hópslagsmálum milli stuðningsmanna tveggja liða. Hér er aðeins um æfingu að ræða.
Slagsmál Í myndinni er meðal annars fylgst með hópslagsmálum milli stuðningsmanna tveggja liða. Hér er aðeins um æfingu að ræða.

Hópslagsmál og skipulagt ofbeldi setti svartan blett á Evrópumótið í knattspyrnu sem fram fór í Frakklandi síðastliðið sumar. Rússneskar fótboltabullur létu heldur betur til sín taka og í nokkur skipti sauð upp úr milli enskra og rússneskra stuðningsmanna.

Sjá einnig:
Allt brjálað í Marseille: Rússar og Englandingar slógust – einn í lífshættu

Fótboltabullurnar æfa sig í bardagaíþróttum.
Vel þjálfaðir Fótboltabullurnar æfa sig í bardagaíþróttum.

Boða slagsmál

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur nú framleitt heimildarmynd um fótboltabullur í Rússlandi, en myndin þykir varpa nokkuð skýru ljósi á það skipulagða ofbeldi sem því miður virðist vera fylgifiskur fjölmargra knattspyrnuliða.

Teymi á vegum BBC heimsótti borgina Rostov í Rússlandi fyrir skemmstu, en þar munu einmitt fimm leikir fara fram á heimsmeistaramótinu sem verður haldið í Rússlandi eftir rúmt ár. Talið er að þaðan hafi margir af þeim ofbeldisseggjum komið, sem lentu í slagsmálum við Englendingana í fyrrasumar.

„Fyrir suma verður þetta fótboltaveisla, en fyrir aðra verður þetta ofbeldisveisla,“ segir einn Rússinn í mynd BBC. Vísar hann til HM næsta sumar og boðar að það sama verði uppi á teningnum í Rússlandi og í Frakklandi.

Þrautþjálfaðir einstaklingar

Svo virðist vera sem fótboltabullurnar rússnesku séu afar skipulagðar. Allt eru þetta þrautþjálfaðir einstaklingar sem meðal annars æfa sig í baradagaíþróttum til að tryggja að þeir hafi yfirhöndina í slagsmálum.

Í myndinni kemur fram að Rússinn sem vísað er í hér að framan sé leiðtogi hópsins sem lét til sín taka í Marseille í fyrrasumar. Talið er að um 200 rússneskar fótboltabullur hafi haft sig mest í frammi í hópslagsmálunum sem brutust út. Leiðtogi hópsins segir að enskir stuðningsmenn ættu að passa sig sérstaklega og að karlkyns stuðningsmenn Englands, sem ferðist um í hópum, verði lamdir.

Æfa slagsmálin

Það er kvikmyndagerðarmaðurinn Alex Sockley von Statzer sem er meðaurinn á bak við heimildarmyndina. Í myndinni er meðal annars fylgst með Rússunum æfa sig í bardagaíþróttum og fylgst með þeim í hópslagsmálum gegn stuðningsmönnum annarra rússneskra liða. Í einum slagsmálunum sést fótboltabulla sparka ítrekað í höfuð andstæðings síns. Slagsmálin eru síðan stöðvuð og í kjölfarið takast mennirnir í hendur og slagsmálunum lýkur.

Það ætlaði allt um koll að keyra í Marseille í fyrrasumar.
Allt brjálað Það ætlaði allt um koll að keyra í Marseille í fyrrasumar.

Útsendarar Pútíns?

Í fyrrasumar var greint frá því að tengsl væru á milli rússneskra yfirvalda og einhverra af þeim fótboltabullum sem létu til sín taka í Frakklandi. Í segir Alex, höfundur myndarinnar, að þetta virðist vera rétt og hann hafi rætt við stuðningsmann Spartak Moskvu, eins sögufrægasta liðs Rússlands, sem sagði að mennirnir sem létu til sín taka hefðu verið útsendarar Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta. Þetta væru einstaklingar sem hefðu hlotið herþjálfun og tilgangur hópsins væri að senda Evrópubúum skýr skilaboð þess efnis að ástæða væri til að óttast Rússa.

„Ég ætla að gefa þeim sem hingað koma góð ráð. Kynntu þér sögu þessa lands áður en þú kemur. Við förum í stríð á hundrað ára fresti og eru fæddir bardagamenn, það er í blóðinu okkar. Ef þú kemur til okkar með sverð þá deyrðu með þessu sama sverði,“ segir ein fótboltabullan í myndinni.

Sjálfur hefur Vladimir Pútín Rússlandsforseti sagt að lögregluyfirvöld í Rússlandi muni fylgjast vel með fótboltabullum. Þeir sem fari yfir strikið verði fangelsaðir.

Myndin, sem heitir Russia‘s Hooligan Army, verður sýnd á BBC Two í kvöld.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.