Ásdís Halla segist vilja fækka útibúum ÁTVR, stytta opnunartíma, loka á helgum, líka á sumrin og taka tóbak úr verslunum

Á að leyfa áfengi í matvöruverslunum?
Sjá niðurstöður

Ásdís Halla Bragadóttir athafnakona og fyrrum bæjarstjóri Garðabæjar segist vilja róttækar breytingar á ÁTVR. Segir Ásdís að hún vilji að tóbak verði ekki lengur selt í búðum, aðeins verði hægt að kaupa það í útibúum ÁTVR. Ásdís Halla var áberandi í pólitík fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árum áður en hennar aðalstarf er nú rekstur Hótel Íslands.

Þetta sagði Ásdís Halla á Facebook og bætti við að hún vildi ekki aðeins að tóbak verði selt í ÁTVR. Hún sagðist einnig vilja að útibúum yrði fækkað. Opnunartími styttur. Þá ætti alltaf að vera lokað um helgar og einnig á sumrin.

Uppfært: Eftir að Ásdís Halla tjáði sig með þessum hætti hefur hún sagt að þetta sé ekki hennar einlæga skoðun heldur sett fram í léttri kaldhæðni en upphafsinnlegg hennar var þetta:

„Í umræðunni um aðgengi að áfengi finnst mér fólk gleyma því fyrir hvað skammstöfunin áTvr stendur. T-ið er fyrir tóbak sem er ekki síður skaðlegt heilsu fólks en áfengi. Ég vil tóbakið aftur inn í áTvr, fækka útibúunum, stytta opnunartímann, hafa allt lokað um helgar og líka á sumrin þegar börnin vafra um göturnar.“

Mikil umræða

Mikil umræða hefur átt sér stað um áfengisfrumvarp sem til stendur að leggja fram í þinginu. Niðurstöður kannana benda til þess að meirihluti Íslendinga vilji ekki að áfengi verði selt í matvörubúðum. Ásdís Halla segir:

„Mín persónulega skoðun er sú að áfengi og tóbak er illa misnotað í samfélaginu - finnum leiðir til að stemma stigu við því en lifum ekki í þeirri blekkingu að sérstök áfengisverslun á vegum ríkisins leysi vandann.“

Ásdís heldur fram að aukið aðgengi ýti undir neyslu.

,,Ég vil tóbakið aftur inn í áTvr, fækka útibúunum, stytta opnunartímann, hafa allt lokað um helgar og líka á sumrin þegar börnin vafra um göturnar.“

„Ef við viljum draga úr aðgengi þá á ekki stöðugt að fjölga útibúum ÁTVR og lengja opnunartíma. Þar sem ég bjó í USA var áfengi selt í matvöruversluninni - en í sérstöku horni sem var afgirt og lokað á ákveðnum tímum, t.d. alla sunnudaga. Í því hverfi var aðgengi að áfengi takmarkaðra en í Reykjavík þar sem áfengið er verslunum á vegum ríkisins,“ segir Ásdís Halla og finnst hræsnin vera mikil í umræðunni. Sett sé samasem merki á milli þess að ekki eigi að hafa of mikið aðgengi en á sama tíma sé sagt að eina lausnin sé að Ríkið annist söluna sem keppist síðan við að vera með sem mest aðgengi.

Þá segir Ásdís Halla einnig:

„Frábær árangur hefur náðst í að draga úr áfengisneyslu ungs fólk og reykingum - höldum þvi áfram. En það sem er svo galið að menn láta eins og öllum sé borgið ef að ríkið sér um söluna á víninu. Það skiptir engu hver selur vínið - það sem skiptir miklu meira máli er umgörðin, aðgengið en kannski fyrst og fremst menningin sem ýtir undir neyslu eða dregur úr henni.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.