Völvan fær 300 þúsund: Vitundarvakning um málefni píkunnar

Vilja breyta viðhorfi gagnvart píkunni - Smættuð niður í leggöng sem móttak fyrir getnaðarlim

Inga Björk Bjarnadóttir hefur vakið athygli fyrir réttindabaráttu fatlaðra.
Inga Björk Bjarnadóttir Inga Björk Bjarnadóttir hefur vakið athygli fyrir réttindabaráttu fatlaðra.

Þrjár ungar konur á aldrinum 19 til 24 ára, Inga Björk Bjarnadóttir, Ingigerður Bjarndís Ágústsdóttir og María Hjarðar fengu styrk að upphæð 300 þúsund króna frá Reykjavíkurborg þann 24. janúar en þær vilja vitundarvakningu á öllu sem sem viðkemur píkunni. Verkefni þeirra heitir Völvan, vitundarvakning um málefni píkunnar. Þeim finnst vanta opinskáa umræðu um píkuna og telja að fræðsla í skólum sé takmörkuð. Verkefnið snýr líka að líkamsvirðingu, kynferðisofbeldi, getnaðarvörnum, kynlífi, sjálfsfróun og barneignum.

Umsækjendurnir

Mynd: Mynd: DV

Þær Inga Björk og María Hjarðar hafa verið áberandi fyrir sín baráttumál en Ingigerður var formaður Keðjunnar, nemendafélags Kvennaskólans í Reykjavík. Inga Björk Bjarnadóttir hefur vakið athygli fyrir réttindabaráttu fatlaðra. Hennar helsta baráttumál hefur verið að benda á það ofbeldi sem fatlaðar konur verða fyrir. Inga Björk hefur einnig talað um reynslu sína sem fötluð kona í hjólastól og hvernig komið er fram við hana þegar hún fer út á skemmtanalífið:

„Ef ég segi nei þá hef ég verið kölluð tussa, ég hef verið kölluð tík og mér hefur verið hótað nauðgun fyrir að segja nei,“ sagði Inga Björk í samtali við Ísland í dag fyrir ári.

María Hjarðar steig fram í viðtali við Vísi en hún var þá nemi í menntaskólanum á Egilsstöðum og formaður femínistafélags skólans. Þá hefur María verið á lista fyrir Vinstri græn. Sagði María við Vísi að hún hefði gengið í gegnum erfiða tíma sjálfshaturs.

„Mér finnst alls ekki nógu mikið um það að konur kunni að meta líkama sína og finnist þær sjálfar flottar og æðislegar.“
Maria Hjarðar „Mér finnst alls ekki nógu mikið um það að konur kunni að meta líkama sína og finnist þær sjálfar flottar og æðislegar.“
Mynd: Atli Berg

„Mér finnst alls ekki nógu mikið um það að konur kunni að meta líkama sína og finnist þær sjálfar flottar og æðislegar. Glansmyndir af líkömum og andlitum kvenna gefa upp ranga mynd af raunveruleikanum sem mér finnst sorglegt.“

Sagði María að það hefði hjálpað henni að mynda sig fáklædda.

„Það er kominn tími til þess að við, í samfélagi sem að segir okkur að hata okkur sjálf, mótmælum og elskum okkur. Það er stór partur af því að læra að elska sjálfan sig að stíga út fyrir þægindarammann. Það að taka af sér myndir reglulega gæti verið partur af því.“

Í umsókninni segja konurnar:

Völva, sem hefur sama hljóm og enska orðið vulva, er svo eitt fallegasta orð íslenskrar tungu að okkar mati, auk þess að vera valdeflandi.

„Nafn átaksins er tilkomið vegna vangaveltna okkar um enska orðið „vagina“, sem þýðir leggöng, en hið rétt orð yfir píku er „vulva“. Þetta er lýsandi fyrir ríkjandi viðhorf til píkunnar; að hún sé smættuð niður í leggöng sem móttak fyrir getnaðarlim og sem fæðingarveg. Eitt helsta markmið okkar er að breyta þessu viðhorfi svo við sem samfélag gerum okkur grein fyrir því að píkan, völvan, er svo miklu meira en bara leggöng. Völva, sem hefur sama hljóm og enska orðið vulva, er svo eitt fallegasta orð íslenskrar tungu að okkar mati, auk þess að vera valdeflandi.“

Í tengslum við átakið verður sett á fót Facebook-síða með myndböndum, greinum og viðtölum um málefni píkunnar. Nú þegar hefur fjöldi þekktra Íslendinga ákveðið að koma að vitundarvakningu um málefni píkunnar.

„Viðmælendur okkar allir eiga það sameiginlegt að vilja breyta viðhorfi fólks til píkunnar og trúa því að með fræðslu og vitundarvakningu vinnist baráttan um jafnrétti.“

Í þessum hópi eru m.a. Óttarr Proppé, Ólafur Stefánsson, Hrefna Sætran, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Ólafur Darri Ólafsson, Hildur Lilliendahl og Edda Björgvinsdóttir.

Ávinningur

Nafn átaksins er tilkomið vegna vangaveltna okkar um enska orðið „vagina“, sem þýðir leggöng, en hið rétt orð yfir píku er „vulva“.

Konurnar sóttu um 500 þúsund króna styrk en fengu eins og áður segir 300 þúsund en áætlaður kostnaður við verkefnið í heild er 2,5 milljónir.

Fimmtudaginn 9. mars mun fyrsta myndbandið líta dagsins ljós og 10. mars verður haldin veisla í tengslum við fyrsta myndskeiðið þar sem almennir borgarar og þjóðþekktir einstaklingar tala um það sem þeim er hugleikið í tengslum við píkuna eins og það er orðað í umsókninni. Þá munu greinar og blogg um píkuna birtast reglulega á samskiptamiðlum. Í umsókninni segir:

Væntanlegur ávinningur vitundarvakningarinnar er að samfélagið verði víðsýnna og hamingjusamara eftir að hafa kynnst píkunni betur, þar sem hún er nú uppspretta kynferðislegrar ánægju helmings þjóðarinnar. Einnig er væntanlegur ávinningur sá að fólk komist nær því að kyn aftri sér ekki, hvort sem er fjárhagslega, félagslega eða persónulega. Þá er von okkar að átakið verði þáttur í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi, sem er helsta dánarorsök kvenna á aldrinum 16–44 ára í Evrópu og heiminum öllum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.