Björn segir kunningja sinn hafa myrt Jón Gunnar

Ákærði neitar sök og fullyrðir að kunningi sinn, Ronnie Hällstrom, hafi banað Jóni

Jón Gunnar til vinstri og Ronnie Hällstrom. Fyrir miðju má sjá Björn sem grunaður er um að hafa banað Jóni.
Jón Gunnar til vinstri og Ronnie Hällstrom. Fyrir miðju má sjá Björn sem grunaður er um að hafa banað Jóni.

Hinn 9. febrúar síðastliðinn var fyrirtaka í máli sænska ríkisins gegn þarlendum manni sem grunaður er um að hafa banað Jóni Gunnari Kristjánssyni þann 18. júlí síðastliðinn. Árásin átti sér stað á tjaldsvæði í grennd við Akalla-neðanjarðarlestarstöðina í samnefndu úthverfi Stokkhólms. Í lok júlí var greint frá því að einn einstaklingur hafi verið handtekinn en lögreglan taldi líkur á að tveir hafi verið að verki. Nú liggur fyrir að sá grunaði heitir Björn Kollberg en hann á einnig yfir höfði sér dóm fyrir tvær aðrar hættulegar líkamsárásir nokkru fyrr, þjófnað á bifreið og fíkniefnalagabrot. Málsvörn Kollberg er sú að benda á félaga sinn, Ronnie Hällstrom, sem búsettur var á umræddu tjaldsvæði. Heldur meintur morðingi því fram að Hällstrom hafi veitt Íslendingnum hina banvænu áverka og að það séu samantekin ráð íbúa tjaldsvæðisins að skella skuldinni á hann. Hällstrom segir í yfirheyrslum að áskanirnar séu „hlægilegar“.

Miklir áverkar á líkinu

Myndin er úr öryggiskerfi Akalla-neðanjarðarlestarstöðvarinnar og er af Birni Kollberg (lengst til hægri), skömmu eftir að hann á að hafa banað Jóni Gunnari Kristjánssyni. Öryggisverðir eru að hafa afskipti af honum á stöðinni eftir að hann reyndi að lauma sér inn án þess að borga fargjald.
Meintur morðingi Myndin er úr öryggiskerfi Akalla-neðanjarðarlestarstöðvarinnar og er af Birni Kollberg (lengst til hægri), skömmu eftir að hann á að hafa banað Jóni Gunnari Kristjánssyni. Öryggisverðir eru að hafa afskipti af honum á stöðinni eftir að hann reyndi að lauma sér inn án þess að borga fargjald.

Jón Gunnar Kristjánsson fæddist á Íslandi árið 1981 og var því 35 ára gamall þegar hann lést. Hann flutti til Svíþjóðar tveggja ára að aldri og bjó þar síðan ásamt fjölskyldu sinni. Um tíma lagði hann stund á læknisfræði en virtist síðan hafa fallið af beinu brautinni í lífinu og undir það síðasta var hann farinn að umgangast einstaklinga sem tengjast undirheimum þar ytra. Jón lætur eftir sig tvö ung börn.

Árásin, sem kostaði Jón lífið, átti sér stað í hádeginu, mánudaginn 18. júlí í blíðskaparveðri. Í ákærunni gegn Birni Kollberg kemur fram að Jón hafi verið ítrekað stunginn í brjótkassann, bakið og handleggi auk þess sem hann hafi verið sleginn með bandýkylfu og járnstöng í höfuðið. Þá er það niðurstaða lögreglurannsóknar að Jón hafi legið varnarlaus í jörðinni þegar mesta ofbeldið gekk yfir. Áverkarnir á líkama Jóns voru verulegir og verða þeir ekki útlistaðir frekar af tillitssemi við aðstandendur Jóns. Opinber dánarorsök hans er vegna alvarlegs áverka á heila og blóðs í lungum.

Leysti frá skjóðunni eftir þrjá mánuði

Myndin er tekin af sænsku lögreglunni þegar Hällstrom var handtekinn þann 18. júlí. Hann var með stöðu grunaðs manns þar til í októberlok 2016.
Ronnie Hällstrom Myndin er tekin af sænsku lögreglunni þegar Hällstrom var handtekinn þann 18. júlí. Hann var með stöðu grunaðs manns þar til í októberlok 2016.

Í opinberum gögnum málsins kemur fram að Björn Kollberg hafi verið handtekinn 8. ágúst 2016 og tveimur dögum síðar var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald þar sem hann hefur setið síðan. Þremur mánuðum síðar ákvað hann að leysa frá skjóðunni þegar að allt virtist stefna í hann yrði dæmdur fyrir morðið. DV hefur undir höndum afrit af yfirheyrslunni á meintum morðingja en slík gögn eru aðgengileg fjölmiðlum þar í landi. Yfirheyrslan gefur innsýn í síðustu stundir Jóns Gunnars en þess ber þó að geta að lögreglan hefur talið vitnisburðinn það ótrúverðugan að Björn var síðar ákærður fyrir morðið, þrátt fyrir að hann fullyrði að annar hafi verið að verki.

Björn heldur því fram að þennan örlagaríka morgun, 18. júlí, hafi hann verið staddur hjá vinkonu sinni og hringt í barnsmóður sína, Ninu, sem býr í tjaldvagni á áðurnefndu tjaldsvæði í Akalla. Þau hafi rætt um börnin sín sem eru í fóstri á vegum hins opinbera og meðferðina sem að Nina hafi verið á leið í. Björn segist hafa tjáð Ninu að hann myndi koma í heimsókn til hennar og lána henni peninga og sígarettur. Þá hafi Nina kvartað undan því að Jón haldi til á tjaldsvæðinu og hafi verið að valda sér ónæði. Vinur Björns hafi síðan skutlað honum til barnsmóður sinnar.

Átök brjótast út

Þegar á tjaldvæðið í Akalla var komið hafi Björn hitt vin sinn, áðurnefndan Ronnie Hällstrom, sem hafi tjáð honum að Nina væri í símanum en að Jón Gunnar svæfi í fortjaldi vagnsins. Björn hafi þá þegar í stað gengið að tjaldinu og lamið í það til þess að vekja Jón. Hann hafi síðan gengið að vinum sínum, meðal annars Hällstrom, og fengið sér sígarettu. Hann kveðst hafa verið í afar góðu skapi en allt hafi breyst skömmu síðar þegar Jón hafi komið gangandi út úr tjaldinu með kúbein í annarri hendi og skiptilykil í hinni. Björn segist hafa vitað þá að uppgjör væri yfirvofandi. Hann hafi gengið til móts við Jón með stálrör af ryksugu í hendinni sem Hällstrom rétti honum. Tvímenningarnir hafi þegar í stað farið að rífast hástöfum og ógnað hvor öðrum með verkfærunum.

Þekktust frá fyrri tíð

Á þessu stigi yfirheyrslunnar viðurkennir Björn að leiðir hans og Jóns hafi áður legið saman. Tvisvar áður hafi skorist í odda með þeim, fyrst nokkru áður þegar þeir slógust og skölluðu hvornannan og síðar þegar Björn stal bíl af Jóni. Jón hafi verið afar ósáttur við það, eðli málsins samkvæmt, og endaði með að lemja Björn fyrir verknaðinn. Þá hafi Jón verið verulega ósáttur við vin Björns sem leigði af honum íbúð og stóð ekki við sitt. Þessir óuppgerðu atburðir hafi leitt til þess að upp úr sauð á tjaldsvæðinu í Akalla.

Fram kemur í yfirheyrslunni að Jón hafi lagt frá sér kúbeinið á einhverjum tímapunkti en þegar átök brutust út milli mannanna hafi Björn tekið það upp og slegið Jón í handleggina. Jón reyndi að verja sig og meðal annars rifið í hálsfesti Björns með þeim afleiðingum að tvímenningarnir féllu á jörðina. Slagsmálin bárust síðan að nærliggjandi trjám í útjaðri tjaldsvæðisins en þá fullyrðir Björn að Ronnie Hällstrom hafi komið aðvífandi og stungið Jón í brjóstholið. Björn hafi þá öskrað að honum hvað í ósköpunum Hällstrom væri að gera. Í kjölfarið hafi hann ákveðið að hypja sig af vettvangi og tekið neðanjarðarlestina niður í miðbæ Stokkhólms. Meira viti hann ekki um afdrif Jóns né viti hann ástæðu þess að Hällstrom hafi stungið Jón.

Björn segir að það hafi ekki komið sér á óvart að hann væri bendlaður við morðið en hann hefði talið að rannsókn myndi leiða sakleysi sitt í ljós. Eftir þrjá mánuði frá handtökunni hafi lögmaður Björns tjáð honum að allt stefndi í að hann yrði dæmdur fyrir morðið og því hafi hann loks ákveðið að leysa frá skjóðunni og segja sína hlið.

„Hann reyndi að reisa sig upp“

Hnífurinn sem Axel Overödder kom til lögreglu og fullyrti að Ronnie Hällstrom hefði falið sér.
Meint morðvopn Hnífurinn sem Axel Overödder kom til lögreglu og fullyrti að Ronnie Hällstrom hefði falið sér.

DV hefur einnig undir höndum lögregluskýrslur vegna yfirheyrslu Ronnie Hällstrom og annarra vitna í málinu. Þegar skýringar Björns voru bornar undir Hällstrom þá vísaði hann þeim algjörlega á bug og sagði þær „hlægilegar“. Að hans mati væri Björn að reyna að koma sjálfum sér úr klípunni með því að benda á aðra. Hann segist hafa komið að Jóni í blóði sínu ásamt Ninu, barnsmóður hins meinta morðingja. Hann hafi kallað á hana að hringja í sjúkrabíl sem hún gerði og skömmu síðar stökk hún upp í bíl og keyrði til móts við sjúkraflutningamennina til þess að tryggja að þeir kæmust sem fyrst á vettvang. Á meðan hafi Hällstrom beðið með Jóni sem enn var með lífsmarki.

Varð fyrir hrottalegri árás þann 18. júlí síðastliðinn sem endaði með því að hann lét lífið. Réttarhöld yfir meintum morðingja standa nú yfir í Svíþjóð.
Jón Gunnar Kristjánsson Varð fyrir hrottalegri árás þann 18. júlí síðastliðinn sem endaði með því að hann lét lífið. Réttarhöld yfir meintum morðingja standa nú yfir í Svíþjóð.
Mynd: Af Facebook

„Hann reyndi að reisa sig upp en ég sagði honum að hann yrði að liggja kyrr. Hann væri læknir og hann ætti að vita það,“ segir Hällstrom í skýrslunni.

Fékk hníf frá Hällstrom

Fram kemur í gögnunum sem DV hefur undir höndum að Hällstrom hafi verið handtekinn nokkrum vikum eftir árásina og fengið réttarstöðu grunaðs manns. Þar réði miklu vitnisburður manns að nafni Axel Overödder sem steig fram og sagði að Hällstrom hefði laumað að sér hníf sem mögulega tengist morðinu á Jóni. DV hefur ekki upplýsingar um hver svör Hällstrom voru en rannsókn lögreglu á aðild hans lauk þann 25.október 2016.

Þá hefur DV undir höndum vitnisburð eins íbúa í nærliggjandi tjaldvagni, sem fullyrðir að hann hafi séð Björn slá Jón af alefli með járnröri og hafi Íslendingurinn fallið fram á hnén við höggið. Meira sá maðurinn ekki enda forðaði hann sér af vettvangi.

Eins og áður segir var Björn Kollberg ákærður fyrir morðið á Jóni Gunnari en Ronnie Hällstrom er með stöðu vitnis. Málið var tekið fyrir þann 9. febrúar en verður framhaldið miðvikudaginn 15. febrúar.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.