Kona handtekin fyrir morðið á bróður Kim Jong-un: Farið yfir myndefni frá flugvellinum

Lögregla leitar fimm til viðbótar - Kim Jong Nam féll úr náðinni árið 2001

Þessi kona er talin tengjast málinu.
Grunuð Þessi kona er talin tengjast málinu.

Lögreglan í Malasíu hefur handtekið konu sem grunuð er um aðild að dauða bróður Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. Bróðirinn, Kim Jong Nam, sem var 46 ára, hneig niður á alþjóðaflugvellinum í Kuala Lumpur á mánudag en grunur leikur á að eitrað hafi verið fyrir honum.

Konan sem var handtekin var með víetnamskt vegabréf og var hún handtekin á þessum sama flugvelli. Ekki liggur fyrir hver ástæða morðsins var en yfirvöld í Suður-Kóreu eru þess fullviss að um leigumorðingja hafi verið að ræða. Kim Jong Nam hefði verið þyrnir í augum yfirvalda í Pyongyang í Norður-Kóreu og það hafi staðið til að ráða hann af dögum. Til marks um það hafi hann notið verndar kínverskra yfirvalda síðastliðin fimm ár. Hann var á leið til Makaó, sérstjórnarhéraðs í Kína þar sem hann bjó.

Lögreglan í Malasíu fer nú yfir myndefni frá flugvellinum og birtust myndir af meintum banamanni Nams í fjölmiðlum í gærkvöldi. Þar má sjá unga konu í bol, með álatruninni LOL, á flugvellinum en ekki liggur fyrir hvort hún hafi verið handtekin. Lögregla leitar annarrar konu og fjögurra karla í tengslum við málið.

Kim Jong Nam var elsti sonur Kim Jong-il, fyrrverandi leiðtoga Norður-Kóreu. Á árunum 1994 til 2001 var talið nær fullvíst að hann myndi taka við stjórnartaumunum í Norður-Kóreu af föður sínum. Hann féll hins vegar úr náðinni árið 2001 þegar greint var frá því að hann hefði reynt að komast til Japans á fölsuðu vegabréfi. Frá árinu 2003 hefur hann verið í útlegð og frá þeim tíma, allt til andláts hans, hafði hann gagnrýnt yfirvöld í Norður-Kóreu harðlega og þá sérstaklega bróður sinn, Kim Jong-un.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.