Aðalheiður fór grátandi heim af Hólmsheiði: „Þetta er svo hörmulegt“

Segir ekkert meðferðar eða uppbyggingarstarf vera til staðar og sjónvarpsgláp sé eina dægrastyttingin - „Þetta er miklu verra en fólk heldur að það sé“ - Óskar eftir sjálfboðaliðum

„Þarna er þetta fína hús með allskonar fínni aðstöðu. Fína aðstaðan virðist hins vegar ekkert vera notuð og allir bara í reiðileysi og þunglynd,“ segir Aðalheiður Ámundadóttir lögfræðingur sem situr í stjórn Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun. Hún kveðst hafa farið grátandi heim eftir að hafa eytt nokkrum klukkutímum í fangelsinu að Hólmheiði nú á dögunum. Hún segir ekkert betrunarstarf fara fram innan veggja fangelsisins og lýsir lífi fanganna sem tilbreytingarsnauðu og innihaldslausu. Hún hefur nú stofnað sérstakan hóp á facebook sem ber nafnið Fangahjálpin.

Aðalheiður tjáði sig fyrst um málið í opinni færslu á facebook á sunnudagskvöld þar sem hún lýsir heimsókn sinni á Hólmsheiði síðasta laugardag. Hún auglýsti um leið eftir sjálfboðaliðum; fólki, fyrirtækjum og félagasamtökum sem væru tilbúin til að leggja hönd á plóg og gera föngunum á Hólmsheiði kleift að lifa uppbyggjandi og mannsæmandi lífi sem gæfi þeim möguleika á betrun. „Þarna virðist engin dagskrá vera yfir daginn. Það er ekkert dagsplan og eiginlega ekkert við að vera nema sjónvarp.“

Kvenkyns fangar fá einn AA fund á viku og þá tekur Aðalheiður fram að þrátt fyrir að prýðileg líkamsræktaraðstaða sé í fangelsinu þá séu opnunartímarnir takmarkaður. Líkamsræktin standi því að mestu leyti auð.

„Engin almenn hreyfing, engin útivera. engin vinna, ekkert meðferðarstarf, ekkert tómstundastarf, ekkert uppbyggingarstarf. Ekkert. Bókasafnið virðist vera úr einu dánarbúi og nær eingöngu rykfallin gömul ritsöfn (íslendingasögur, Laxness, Þórbergur og svo framvegis sem ég get ekki ímyndað mér að venjulegt fólk lesi sér til dægrastyttingar á mánudagseftirmiðdegi.“

Þá segir Aðalheiður að upphæð sem fangarnir fá skammtað dugi ekki fyrir mannsæmandi fæði. Hún segir ástandið „hörmulegt“:

„Þetta er miklu verra en fólk heldur að það sé og við verðum að gera eitthað í þessu.“

Aðalheiður sagði ljóst að taka þyrfti málin í eigin hendur og óskaði eftir hjálp frá einstaklingum sem vilja láta gott af sér leiða í verki. „Hver vill og kann eitthvað í líkamsræktarmálum? Hver kann allskonar og getur boðið upp á námskeið? Hvern vantar starfsfólk í störf sem hægt er að vinna í fangelsi? Hver á bækur sem fólk nennir að lesa? Hver kann að kenna útlendingum íslensku? Hver á pening til að borga fólki sem vill kenna og vera með námskeið?“

Hátt í 90 manns hafa nú gerst meðlimir í facebookhópnum Fangahjálpin en Aðalheiður tekur fram í stöðuuppfærslu á facebook í gær að í kjölfar þess að hún tjáði sig um aðstæður fanganna á Hólmsheiði hafi fjölmargir boðið fram gjafir og vinnu en verið er að leggja drög að að samráði við Fangelsismálastofnun, Rauða krossinn og fleiri aðila svo hægt sé að finna góðvild þessara einstaklinga farveg. Þá hvetur hún alla sem vilja gefa, kenna, vera með námskeið eða hverskyns aðstoð fyrir fangana á Hólmsheiði að óska eftir aðgangi að hópnum. „Notum hugmyndaflugið. Ekkert er útilokað eða ómögulegt“ segir jafnframt á síðu facebookhópsins Fangahjálpin.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.