fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
FréttirLeiðari

Vond ímynd stórútgerðarinnar

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 14. febrúar 2017 09:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjómannaverkfallið hefur verið langt og strangt. Það er ljóst að gríðarlegir peningar hafa tapast, svo miklir reyndar að undrun sætir að ekki var samið fyrir löngu. Enginn hefur grætt á þessu verkfalli. Sjómenn, sem hafa verið samningslausir í sex ár, slökuðu nokkuð á kröfum sem þeir segja þó hafa verið hógværar og sanngjarnar. Stórútgerðin sýndi strax frá byrjun þrjósku, enda er það víst helst þar sem menn hafa efni á að tapa. Lítil útgerðarfélög mega þó örugglega ekki við tapinu og þar hljóta menn að vera mjög uggandi.

Stórútgerðin ætti að íhuga sinn gang. Í hugum fjölmargra Íslendinga er ímynd hennar ekki góð. Í daglegu tali er iðulega talað um „útgerðarauðvaldið“ – sem segir sitt um viðhorfið. Stóru sjávarútvegsfyrirtækin græða á tá og fingri og eigendur þeirra fá ríflegar arðgreiðslur. Ljóst er að fyrirtækin gætu greitt mun hærri veiðigjöld til ríkisins en þau gera. Á sama tíma hefur verið lítill áhugi á að leiðrétta kjör sjómanna. Það er ekki skrýtið þótt hvarfli að einhverjum að útgerðin hafi verið að draga deiluna á langinn og þreyta þannig sjómenn svo þeir gæfu eftir.

Ólíkt útgerðinni njóta sjómenn ómældrar virðingar landsmanna. Í gegnum aldir hafa þeir verið lofaðir og um þá ort kvæði og af þeim sagðar sögur. Þjóðin er vel meðvituð um að starf sjómanna er erfitt og áhættusamt og kostar jafnframt mikla fjarveru frá fjölskyldu. Fáir eru hins vegar til að mæra útgerðina, ef einhver gerir slíkt er hann samstundis sakaður um að ganga götu hagsmunaaðila. Stórútgerðin í landinu mætti vel leggjast í naflaskoðun og spyrja sig hvort ekki sé ástæða fyrir því illa umtali sem hún mætir svo víða.

Deilur eins og þessa ber ætíð að leysa við samningaborðið. Þegar þetta er ritað hefur samkomulag enn ekki náðst en vonandi gerist það sem fyrst. Sjómenn hafa gefið nokkuð eftir og vonandi sér útgerðin sóma sinn í því að gera hið sama.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala