fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Engin ákvörðun tekin um að skoða fleiri heimili

Vistheimilanefnd telur að hægt væri að hjóla beint í uppgjör við sambærilegar stofnanir og Kópavogshæli – Dómsmálaráðherra með málið til skoðunar

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 14. febrúar 2017 07:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það kann að vera að það sé ástæða til að skoða fleiri heimili af þessum toga og mögulega nýtist þessi vinna og fyrri vinna eitthvað í skoðun á slíku, en það hefur engin ákvörðun verið tekin um frekari skoðun á öðrum heimilum,“ segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra um næstu skref í kjölfar skýrslu vistheimilanefndar um Kópavogshæli. Fram kom í skýrslu nefndarinnar að fjölmargar aðrar stofnanir og heimili eigi margt sammerkt með hælinu sem gefi tilefni til frekari skoðunar auk þess sem nefndarmenn leggja til að núverandi fyrirkomulag verði einfaldað svo hugsanlega megi komast hjá margra ára vinnu við uppgjör sambærilegra mála. Dómsmálaráðherra segir að ekki sé hægt að gefa sér að aðbúnaður og aðstæður hafi alls staðar verið með sama hætti, án þess að það hafi verið skoðað.

Næstu skref eru nú á höndum dómsmálaráðherra, annars vegar uppgjör á sanngirnisbótum við íbúana á Kópavogshæli og ákveða framhaldið með tilliti til annarra sambærilegra stofnana.

Er hægt að fara beint í uppgjör?

Hrefna Friðriksdóttir, formaður vistheimilanefndar, segir að nefndin hafi lagt til einföldun á núverandi kerfi, sem byggi á lögum um skipun vistheimilanefndar og svo annars vegar sanngirnisbætur.

„Vistheimilanefnd er falið að taka út einhverja tiltekna staði, svo kemur skýrsla og þá er hægt að skoða sanngirnisbætur. Við erum hreinlega að leggja til að menn hugsi rækilega eitthvert einfaldara fyrirkomulag. Og þá er hugsunin fyrst og fremst sú að biðja menn að gefa því gaum hvert þetta raunverulega uppgjör er sem við viljum að fari fram. Vitum við kannski nógu mikið, almennt séð, eru nógu yfirgnæfandi líkur á því hvernig þetta hafi verið á sambærilegum stöðum til þess að við getum farið beinna í uppgjörið?“

Meira í DV í dag

Allir beðnir afsökunar

Hrefna bendir á að í afsökunarbeiðni forsætisráðherra á dögunum hafi hann ekki bara beðið aðstandendur og vistfólk á Kópavogshæli afsökunar á þeirri ómannúðlegu og markháttuðu vanrækslu sem börn bjuggu við á hælinu, heldur líka aðra þá, fatlað fólk, börn og fullorðna, sem vistað hafi verið á stofnunum hér á landi og sætt þar ofbeldi eða illri meðferð.

„Það þarf að vega og meta hvaða heimili önnur koma til álita, hver þeirra voru sambærileg. Lituðust þau af alveg sömu viðhorfum, sömu samfélagslegu stöðu, viðhorfa og lagaramma? Nú er komin ákveðin afsökunarbeiðni, það er búið að varpa ákveðinni mynd á þetta og ef að uppgjörið felst fyrst og fremst í sanngirnisbótum, er ekki hægt að heimila fólki að fara beinna í það?“ spyr Hrefna. Hún segir að setja þyrfti ný lög um uppgjör og greiðslu sanngirnisbóta og könnun og greiðslu sanngirnisbóta og útfæra ýmis tilgreind atriði sem að þessu snúa. Vistheimilanefnd hafi fengið sams konar erindisbréf og áður hafði verið gefið út og segir Hrefna að nefndin hafi talið sér skylt að kafa djúpt. Það hafi verið tímafrekt að safna saman gögnum og fara í gegnum söguna kerfisbundið, með tilheyrandi viðtölum.

„Kannski var það tvíverknaður að einhverju leyti því svo þarf líka að taka afstöðu til sanngirnisbótanna.“

Kallað eftir uppgjöri víðar

Hrefna segir nefndina hvetja eindregið til þess að það fari fram einhvers konar uppgjör við þá sem voru á stöðum sem megi kalla sambærilega við Kópavogshælið. Þetta sé ekki búið.
Í helgarblaði DV kom einmitt fram í viðtali við Magnús Helga Björgvinsson þroskaþjálfa, sem starfaði um áratugaskeið á Kópavogshæli, sú krafa um að fleiri stofnanir yrðu skoðaðar, því hann hafi heyrt sögur frá öðrum heimilum sem líklega hafi verið verri en Kópavogshæli.

Hrefna segir að vistheimilanefnd telji, í ljósi þess hvernig búið hafi verið að kortleggja barnaverndarstofnanir í fyrri skýrslum og nú þessa stofnun fyrir fatlað fólk, að til sé góður grunnur.

„Ef við fáum færa sérfræðinga sem hafa þekkingu á hvernig þetta hefur verið í gegnum tíðina þá ættum við að geta hjólað beinna í uppgjör. En þá þurfum við líka að ákveða við hverja við ætlum að gera upp. Er þetta fortíðaruppgjör, bara stofnanir sem eru ekki lengur við lýði? Eða viljum við ganga lengra? Bara börn? Allir fatlaðir? Nokkrar spurningar sem við veltum upp þurfi að spyrja. Ef farið verður að tillögum okkar að skoða nýtt fyrirkomulag er ljóst að það mun taka tíma. Aðalatriðið er þó að setja þessa vinnu í gang,“ segir Hrefna. En næstu skref í þessum efnum, sem og hvort fallist verður á tillögur vistheimilanefndar um einföldun á núverandi fyrirkomulagi er pólitísk ákvörðun, sem nú er á forræði dómsmálaráðherra.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um að önnur heimili en Kópavogshæli verði skoðuð en að verið sé að skoða tillögur vistheimilanefndar.
Til skoðunar Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um að önnur heimili en Kópavogshæli verði skoðuð en að verið sé að skoða tillögur vistheimilanefndar.

Mynd: Alþingi

Engin ákvörðun tekin

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um skoðun á öðrum heimilum.

„En við erum bara að skoða þessar tillögur vistheimilanefndar í þessari skýrslu um einfaldari málsmeðferð slíkra mála. En það hefur engin ákvörðun verið tekin.“ Tillögur af sama toga var einnig að finna í fyrri skýrslum vistheimilanefnda.
Aðspurð hvað henni hafi fundist um þær sláandi upplýsingar sem fram komu um aðbúnað og meðferð barna á Kópavogshæli viðurkennir Sigríður að vera ekki búin að lesa alla skýrsluna en að hún hafi átt fundi með fulltrúum nefndarinnar og séð helstu niðurstöður.

Kom ekki á óvart

„Ég hef sagt áður að því miður þá kannski hafi þetta ekki komið manni á óvart í ljósi þeirra skýrslna sem lágu fyrir áður frá öðrum heimilum. Þetta var svolítið sem maður hafði á tilfinningunni. Að á þessum tíma hafi verið önnur afstaða til barna og réttinda þeirra en við setjum á oddinn núna í dag. Og því miður fatlaðra líka. Menn áttu því kannski ekki von á góðu, en þetta var ömurlegt.“

Aðspurð hvort hún telji ekki, þó það yrði í einfaldaðri og beinskeyttari mynd, að íslenskt þjóðfélag skuldi þeim sem voru á þessum stofnunum og heimilum að öll þessi mál verði leidd fram í dagsljósið og gerð upp með einhverjum hætti, segir Sigríður að það kunni að vera ástæða til að skoða fleiri heimili af þessum toga.

Ekkert hægt að fullyrða

„Það er heldur ekki hægt að gefa sér að aðbúnaður og aðstæður hafi verið alls staðar með sama hætti. Þessar stofnanir voru mismunandi að umfangi og aðstæður aðrar. Við skulum ekki fullyrða neitt um starf þeirra án þess að það hafi verið skoðað sérstaklega.“

Blaðamaður bendir á að þótt vissulega sé ekki hægt að alhæfa þá séu vísbendingar um að á þessum árum hafi þetta verið með þessum hætti.

„Já, það getur gefið vísbendingar um að þetta hafi bara verið andinn á þessum tíma.“

Sláandi að sjá heildarmyndina

Aðspurð hvernig það hafi verið að veita vistheimilanefnd formennsku og hvort niðurstöðurnar hafi verið verri en hana hafi grunað, segir Hrefna að hún hafi verið ýmsu vön úr starfi sínu um árabil á Barnaverndarstofu.

„Ég hafði ákveðna reynslu af því að lesa um mjög erfiðar og sárar aðstæður fólks. Ég hafði líka lesið hluta af því sem þegar hafði verið unnið um Kópavogshæli og oft heyrt rætt um það. Það sem var sláandi við að fara inn í þessa vinnu var að safna öllu saman. Ég var þakklát fyrir það hvað var þó hægt að finna af skrifuðum gögnum, bæði samtímagögn úr fjölmiðlum og svo líka úr sjúkraskýrslunum og viðtölum. Þessi heildarmynd varð óneitanlega sláandi þótt maður væri búinn að heyra svona sögur, en að finna hvað þetta átti stoð í gögnunum var bæði þakklátt en líka mjög sláandi. Það er sláandi að horfast í augu við það að hve miklu leyti þessu var lýst í samtímanum. Að hve miklu leyti stjórnendur hefðu átt að geta gert sér betri grein fyrir því hvernig þetta var. Sjá svart á hvítu hvernig öll menningin í samfélaginu tók þátt í því að horfa fram hjá þessu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi