„Við gleymdum þeim“

Vistmenn á Kópavogshæli voru afskiptir og hælið var afskipt í þjóðfélaginu – Viðvörunarbjöllur og ákall um umbætur hundsað á árum áður – Ríkið tímdi ekki að kaupa reykskynjara fyrir hælið sem síðar kostaði tvo vistmenn lífið

Saga Kópavogshælis eins og hún birtist í skýrslu vistheimilanefndar er hrollvekjandi. Birst hafa óhugnanlegar lýsingar úr þessari svörtu skýrslu á þeim frumstæðu aðferðum, harðræði, afskiptaleysi og vanrækslu sem börn vistuð á Efra-Seli og barnadeildum Kópavogshælis máttu þola á árunum 1952–1993.

Þegar saga hælisins er skoðuð virðist fjárskortur, mannekla, mikil starfsmannavelta, álag, skortur á faglærðu starfsfólki og stefnumótun frá stjórnvöldum og bágborinn aðbúnaður hafa orðið til þess að fjölmörg börn, ungmenni og aðrir vistmenn hafi hreinlega borið skaða af. Fyrstu áratugi starfseminnar var Kópavogshæli lítið annað en „geymslustofnun“ fyrir þroskaskerta og fatlaða, sem lítið átti sameiginlegt með seinni tíma hugmyndum manna um að hælið yrði þjálfunar-, uppeldis- og meðferðarstofnun. Þarna voru börn sem og aðrir vistmenn geymdir en líka gleymdir í þjóðfélagi sem virtist fá úrræði og takmarkaðan áhuga hafa á að búa þeim mannsæmandi líf í samræmi við þjónustuþörf. Ýmis merki voru um að ástandið á hælinu væri fjarri því ásættanlegt og sú umræða, sem reglulega kom upp á níunda áratugnum ef marka má fjölmiðla á þeim tíma, virðist hafa mætt þögninni einni. Stjórnvöld og ráðamenn, sem og samfélagið, virðast hafa skellt skollaeyrum við neyðarköllum innan af stofnuninni. Hæli hinna gleymdu hýsti ljótu leyndarmálin uns þau voru endanlega dregin fram í dagsljósið í svartri skýrslu vistheimilanefndar, 24 árum síðar.

Hrollvekjandi lestur

Um hundrað einstaklingar sem vistaðir voru á Kópavogshæli sem börn á því tímabili sem skýrslan tekur til eru enn á lífi. Samkvæmt fjárlögum þessa árs eru 80 milljónir króna eyrnamerktar greiðslu sanngirnisbóta til þeirra en ríflega tveir milljarðar króna hafa verið greiddir þolendum illrar meðferðar á vistheimilum og stofnunum hins opinbera á undanförnum árum.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum í vikunni eru lýsingar úr skýrslunni oft og tíðum hrollvekjandi lestur. Bæði frásagnir sem hafðar eru eftir vistmönnum sjálfum en ekki síður úr dagbókum og sjúkraskrám stofnunarinnar sjálfrar. Líkamleg valdbeiting sem fólst í að börn voru bundin og tjóðruð heilu dagana, beinbrot sem uppgötvast ekki fyrr en jafnvel mörgum dögum síðar, ofnæmi vistmanna fyrir mat og lyfjum sem ekki voru greind fyrir en árum síðar. Barn sem álitið var heyrnarlaust og hafði farið í heyrnarmælingu árið 1978 reyndist níu árum síðan hafa sæmilega heyrn þegar það fékk loks heyrnartæki.

Hinir afskiptu

Þá er átakanleg lesning um dæmi tilfinninga-, vitsmuna- og félagslegrar vanrækslu. Mörg dæmi eru tekin um börn sem vistuð voru á fullorðinsdeildum, sem voru róleg og eða létu svo lítið fyrir sér fara að þau gleymdust í daglegu amstri starfsmanna. Jafnvel í lengri tíma. Fáliðað starfslið hafi þannig beint orku sinni og tíma í að sinna þeim sem þóttu „erfiðari“ með þeim afleiðingum að önnur börn fengu minni athygli og voru afskipt og aðgerðarlaus. Síðari tíma greiningar á þeim leiddu í ljós að þau báru alvarleg merki „stofnanaskaða“ – nokkuð sem dæmi eru um að hafi síðar gengið til baka og þau verið allt önnur eftir að unnið hafði verið með þeim um hríð og þau fengið athygli.

Árið 1992 er tekið dæmi um 42 ára konu (X) sem vistuð hafði verið á hælinu frá 13 ára aldri. Þar segir: „Gagnrýnt að engar upplýsingar væru um ástand fyrstu árin á Kópavogshæli, X var lengst af á deild 5 og „lifði gjarnan í einangrun og afskiptaleysi“, talin hafa myndað geðklofasýki sem var fljótlega hæglangvinn „enda engin hvatning gefin fyrr en kemur fram á síðustu ár.“

Oft þurfti ekki mikið til

Árið 1992 segir um 42 ára vistmann sem verið hafði á hælinu frá 15 ára aldri: „Þó að tilfinningatengsl X séu vafalítið brengluð af stofnanauppeldi þá má ná til X í gegnum væntumþykju og tiltal.“

Ótal dæmi eru tekin um einstaklinga sem dregið höfðu sig í hlé og sýnt alvarlegar atferlistruflanir vegna þess að þeim hafði ekki verið sinnt, þeir verið á fjölmennum deildum með þurftarfrekari einstaklingum.

„Mjög þótti hafa dregið úr alvarlegum atferlistruflunum síðari ár enda færri einstaklingar á deild, umhverfið betra og hverjum og einum sinnt betur. Þrátt fyrir það sagði í skilafundargerð: „Dvöl X hér í dag er ekkert nema geymsla og þeim mun lengur sem geymslan hér verður hans eina tilboð í lífinu því mun verr gengur að aðlaga,“ segir um 42 ára vistmann árið 1992 sem vistaður hafði verið frá 14 ára aldri.

Ekki skortur á umfjöllun

Ljótar lýsingar og umfjöllun um efni skýrslunnar hefur birst í fjölmiðlum í vikunni eftir að hún var birt opinberlega. DV lék forvitni á að vita hvernig umfjöllun fjölmiðla hafi verið um Kópavogshæli á þessum tíma. Hvort eitthvað þar varpi ljósi á það andrými sem ríkti á hælinu og í þjóðfélaginu sem gæti útskýrt hvers vegna ástandið var eins og raun ber vitni.

Augu fólks virðast hafa opnast fyrir því á árunum 1980 til 1989 að aðstæður þar væru ekki ásættanlegar af umfjöllun fjölmiðla að dæma. Viðtöl má finna við ráðþrota aðstandendur sem höfðu ekki um annað úrræði að velja en að vista fjölskyldumeðlimi eða börn á hælinu. Þar skín í gegn að þau séu ekki ánægð, en fátt annað hafi verið í boði.

Í Þjóðviljanum 8. júní 1989 er rætt við foreldra stúlku sem vistuð hafði verið á Kópavogshæli um árabil. Þar lýsa þau aðstæðum á þann veg að margt hafi breyst til hins betra en enn sé víða pottur brotinn. Móðirin lýsir því sem svo:

„Á Kópavogshæli er starfsfólk of fátt og mikið álag á hverjum einum. Mikill skortur er á ýmiskonar gögnum og tækjum til kennslu og þjálfunar og enginn sjúkraþjálfari er starfandi við hælið. Rétt líkamleg þjálfun er þó grundvallaratriði í meðferð margra barnanna sem þarna dvelja. Mannaskipti eru mjög tíð á hælinu og maður er varla farinn að kynnast einni fóstrunni, þegar hún er farin. Þetta og margt fleira gerir það að verkum að foreldrum og aðstandendum finnst heimilið verða ókunnuglegt og framandi, en þessar breytingar hljóta þó að koma enn verr við vistfólkið, börnin.“

Faðirinn bætir við:

„Hins vegar er ýmislegt varðandi Kópavogshælið sem full þörf er á að ræða. Þetta er ríkisstofnun sem er vanhæf að gegna sínu hlutverki vegna fólksfæðar og skorts á sérmenntun. Til dæmis gæta þrjár fóstrur tólf barna á deildinni þar sem telpan okkar er. Sum barnanna eru mjög hreyfihömluð og þurfa mikla umönnun sem fóstrurnar komast tæpast yfir. […] þjóðfélagið lítur á aðhlynningu þessa fólks sem dýra lausn, þar sem ýtrasta sparnaði verði að koma við. Almenningi finnst vangefna fólkið vera á réttum bás og starfsfólkið sér um að allt gangi snurðulaust. Vistfólkið er hins vegar næmt á umhverfi sitt og þarfnast ástúðar og umhyggju í ekki minna mæli en við sem heilbrigð erum.“

Starfsfólk fékk enga þjálfun

Talsvert virðist hafa verið reynt að vekja athygli á manneklu, starfsmannaveltu og skorti á faglærðu starfsfólki á þessum tíma einnig. Þar fór líklega fremst í flokki Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, formaður Starfsmannafélagsins Sóknar, en í því félagi var m.a. ófaglært starfsfólk á sjúkrastofnunum. Hún skrifaði greinar og kom á framfæri kvörtunum um það álag sem var á ófaglærða félagsmenn hennar. Í grein sem hún skrifaði í Þjóðlíf árið 1986 eftir brunann á Kópavogshæli, sem fjallað er um hér á öðrum stað í umfjölluninni, segir hún:

„Það hefur vakið athygli meðal almennings að einungis tveir starfsmenn skyldu hafa verið á vakt þegar eldurinn kom upp. Staðreyndin er sú, að því einungis er unnt að halda uppi svo fámennum vöktum, að sjúklingar sofi fast. Starfsmenn Kópavogshælis hafa þráfaldlega kvartað undan því að um helgar er aðeins ófaglært fólk á vöktum. Þessum kvörtunum hef ég komið boðleiðis – en þeim aldrei verið sinnt. Þessi störf eru þó vandasöm og enginn skyldi halda að aðhlynning geðveikra eða fatlaðra sé fyrir viðvaninga.“ Bendir Aðalheiður á að það sé ekki forsvaranlegt að ófaglært fólk sem hefur störf á sjúkrastofnunum þurfi ekki að gangast undir námskeið. Unga fólkið sem þarna hafi sótt um í meirihluta viti í raun ekki hvað það er að sækja um.

„Þessi kynning fer hins vegar hvergi fram, en er þó mjög nauðsynleg. Fólk sem sækir um störf á erfiðum sjúkrastofnunum, eins og Kópavogshæli er látið gangast undir krossapróf, en það er allt og sumt. Ekkert er gert til þess að kynna því starfið, heldur er því att áfram,“ skrifaði Aðalheiður.

Í frétt í DV í janúar 1986 undir fyrirsögninni „Sóknarkonur sjá um lyfjagjafir“ upplýsir Aðalheiður sömuleiðis að Sóknarkonur, ófaglærðir starfsmenn á Kópavogshæli, hafi verið látnar annast ýmis ábyrgðarstörf eins og lyfjagjöf og annað tilfallandi þegar þær eru einar á vakt um kvöld, nætur og helgar.

„Það hefur oft verið kvartað yfir þessu og við höfum komið þeim kvörtunum á framfæri en án árangurs.“

Þær frásagnir sem finna má í skýrslunni um rangar skammtastærðir, röng lyf og almenna oflyfjun vistmanna á tímum, kann því að hafa átt rætur sínar að rekja til þess að þeim var í einhverjum tilfellum sinnt af viðvaningum. Vitnað er einmitt í framangreinda frétt DV í skýrslu vistheimilanefndar.

Fyrrverandi starfsmenn hælisins frá níunda áratugnum, sem DV hefur rætt við, bera hælinu þó flestir góða sögu sem vinnustað, eins og lesa má í aukaefni hér í umfjölluninni. Þó hafi runnið upp fyrir mörgum síðar, að ýmislegt hafi þar orkað tvímælis.


Inni á milli starfsmenn sem áttu ekkert erindi í starfið

Magnús Helgi upplifði þvinganir og harðræði – Starfaði um áratugaskeið á Kópavogshæli

Magnús Helgi Björgvinsson hóf störf á Kópavogshæli sem almennur starfsmaður á barnadeild árið 1984. Hann vann þar allt til enda og fylgdi síðustu vistmönnunum út árið 2003. Sem þroskaþjálfi starfar hann enn með þeim.
Fylgdi þeim síðustu út Magnús Helgi Björgvinsson hóf störf á Kópavogshæli sem almennur starfsmaður á barnadeild árið 1984. Hann vann þar allt til enda og fylgdi síðustu vistmönnunum út árið 2003. Sem þroskaþjálfi starfar hann enn með þeim.
Mynd: Aðsend

„Það var held ég árið 1996 eða 1997 sem ég flutti fyrirlestur á þingi um nauðung og valdbeitingu og viðurkenndi að maður hefði tekið þátt í ýmsu sem maður var þá búinn að átta sig á að var ekki fólki bjóðandi,“ segir Magnús Helgi Björgvinsson þroskaþjálfi sem hóf störf sem almennur starfsmaður á barnadeild Kópavogshælis árið 1984. Þar vann hann allt til ársins 2003 þegar hann fylgdi síðustu heimilismönnum sem fluttu burt af hælinu það ár. Hann hefur því mikla reynslu og hefur lifað tímana tvenna.

„Ég kom þarna inn á barnadeildina, þar sem var betra ástand, en eftir á að hyggja þá sér maður núna að það var ýmislegt að þar eins og annars staðar.“ Líkt og fleiri fyrrverandi starfsmenn þá kom Magnús Helgi ungur og óreyndur inn í aðstæðurnar. Þá voru hlutirnir gerðir á ákveðinn hátt sem verður viðtekin venja. Líkt og aðrir þá kveðst hann hafa áttað sig á að ýmislegt misjafnt hefði gengið á eftir því sem frá leið, aðferðir breyttust og vitneskjan á sviðinu jókst.

Aðspurður hvort hann hafi orðið vitni að einhverju í líkingu við það sem lýst var í skýrslunni segir hann svo vera og þá frekar er varðar ofbeldi vistmanna á milli.

„Ég var fyrst ráðinn til að sinna tilteknum einstaklingi sem átti það til þegar hann varð æstur að láta það bitna á öðru heimilisfólki. Þannig var þessu ekki mjög skynsamlega raðað saman á deild. Þarna voru einstaklingar sem lágu vel við höggi og einstaklingar sem voru líklegir til að veita högg, ef þeir voru æstir.“

Þá, líkt og víðar, hafi verið þarna starfsmenn sem ekkert erindi áttu í þetta starf.

„Það voru þarna alls konar þvinganir og allt að því harðræði sem gat verið í gangi, en það var yfirleitt eitthvað í tengslum við vinnu undir leiðsögn geðlækna og annarra. En þarna inni á milli voru starfsmenn sem áttu ekkert að vera þarna.“

Vitnað er í greinarskrif Magnúsar í skýrslu vistheimilanefndar þar sem hann sá sig knúinn til að benda á það ófremdarástand sem ríkt hefði á hælinu undanfarin ár. Sakaði hann stjórn Ríkisspítala um að hafa neitað að viðurkenna þörfina á nauðsynlegum umbótum. Nefndi hann sem dæmi að átta næturvaktir væru með 160 vistmenn og hver vakt með tvær deildir. Skrifin komu í kjölfarið á brunanum í janúar 1986. „Það var ekkert eftirlit,“ segir Magnús og bendir á að næturvaktin hafi ekki orðið brunans vör heldur hafi það verið vegfarandi sem tilkynnti um hann.

Þá staðreynd að ekki var einu sinni brunavarnarkerfi eða reykskynjarar í stofnuninni telur Magnús hafa verið lýsandi fyrir hversu mikil afgangsstærð hún hafi verið álitin. Kópavogshæli hafi um margt verið hæli hinna gleymdu.
„Ég hef talað við aðstandendur sem sögðu að læknar hafi svo gott sem ráðlagt þeim að sækja um vist og koma börnum sem fyrst inn á Kópavogshæli og eignast önnur börn. Það var það sem gefið var í skyn. Staðurinn bauð enda ekki upp á mikið og það voru bara hörðustu aðstandendur sem gátu ræktað almennilega samskiptin við sína. Tengslin rofnuðu fljótt hjá mörgum fjölskyldum er fjölskyldumeðlimur var settur á Kópavogshæli.“

Magnús segir að framan af hafi hælið verið lítið annað en geymslustaður en þegar hann byrjaði hafi verið kominn skóli fyrir börnin og vinnustofur. Hann og samstarfsmenn hans, sem var margt ungt fólk, hafi gert sitt besta fyrir vistfólk.

„Það var farið með vistfólk í sumarbústaði fyrir lítið sem ekkert kaup og við vorum virkilega að reyna að gera þeim lífið bærilegt. Það var upp úr 1980, skilst mér, sem fólk fór fyrir alvöru að reyna að bæta líf þeirra sem þarna bjuggu.“
Líkt og aðrir fyrrverandi starfsmenn ber Magnús hælinu góða sögu sem vinnustað. Þar hafi verið gaman að vinna með fjölda skemmtilegs fólks sem hafði áhuga á vinnunni.

„En á móti vorum við að berjast við ríkisspítalann sem var alltaf að reyna að skera niður fjárveitingar til þessara deilda en áttaði sig aldrei á því að þarna giltu önnur lögmál en með sjúkrarúm, það var ekki hægt að senda fólk í burtu.“
Magnús segir það réttmæta lýsingu að hinir rólegu hafi verið afskiptir meðan fáliðað starfslið sinnti þeim sem meira fór fyrir. Oft með alvarlegum afleiðingum fyrir hina afskiptu.

„Margir lærðu að til að fá athygli þá var betra að vera með læti, hrinda einhverjum eða þvíumlíkt því oft er sagt að neikvæð athygli sé betri en engin athygli. Þetta var orðið betra þegar ég kom en ég get ímyndað mér að það hafi verið hræðileg staða þar sem voru kannski tveir starfsmenn með 20 manns og áttu að sinna öllum þörfum þeirra, það var rétt hægt að gefa þeim að borða og þrífa þá. Ef það var hægt að þrífa þá.“

Magnús samsinnir að átakanlegt sé að lesa lýsingar á því hvernig hinir afskiptu um árabil hafi síðan þurft lítið til, smá athygli og alúð, til að verða allt aðrar manneskjur. Magnús kveðst nú vera að vinna með einstaklingum sem voru á Kópavogshæli og búa nú í fínu húsi í bænum. Þar hafi þeir litla íbúð fyrir sig og einnig sameiginlegt rými.

„Því þau kunna ekki að nota einkarými. Þau eru vön því síðan þau voru lítil að vakna, fara fram og síðan var herberginu þeirra læst. En þau hafa sitt einkarými, einkasalerni og hafa blómstrað. Fyrst voru þau á stórri deild en síðan alltaf minni og minni með árunum uns þau enduðu í starfsmannaíbúðunum sem voru og fluttu þaðan hingað árið 2003. Þetta voru taldir með erfiðustu einstaklingunum þegar ég kynntist þeim fyrst en allir erfiðleikar nú eru smámunir við það sem var.“

Magnús vill koma því á framfæri að það hafi verið fleiri stofnanir en Kópavogshælið. Eftir svo mörg ár í starfi hafi hann heyrt sögur af öðrum stofnunum sem líklega hafi verið verri en Kópavogshæli.

„Ég vil og vona að þær verði skoðaðar líka því það má ekki hvítþvo þá staði með því að skella öllu á Kópavogshæli. Einnig má koma fram að við sem unnum þarna síðustu áratugina vorum búin að umbylta þessum stað hressilega um það leyti sem honum var lokað. Lífsgæðin voru orðin töluvert meiri. Ekki góð, en töluvert betri.“


Varð ekki var við harðræði

Sigurjón Kjartansson á jákvæðar minningar frá starfi sínu á Kópavogshæli á níunda áratugnum

Sigurjón Kjartansson starfaði í þrjú ár á Kópavogshæli og lítur til baka til þess tíma með hlýhug. Hann kveðst ekki hafa orðið var við harðræði og ofbeldi, en heyrði sögur frá fyrri tíð frá eldri starfsmönnum.
Góðar stundir Sigurjón Kjartansson starfaði í þrjú ár á Kópavogshæli og lítur til baka til þess tíma með hlýhug. Hann kveðst ekki hafa orðið var við harðræði og ofbeldi, en heyrði sögur frá fyrri tíð frá eldri starfsmönnum.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Sigurjón Kjartansson, leikari, handritshöfundur og framleiðandi, er einn þeirra sem störfuðu á Kópavogshæli í lok níunda áratugar síðustu aldar. Í samtali við DV kveðst Sigurjón eiga góðar minningar frá þeim tíma sem hann starfaði þar á árunum 1987 til 1990. Þar hafi andrúmsloftið verið vinsamlegt, samskiptin við vistfólk jákvæð og ljóst að breyttir tímar og hugsun hafi verið ríkjandi frá því sem verst var á upphafsárum hælisins.

„Þarna var komin miklu meiri fagmennska þegar ég var þarna. Yfirmenn mínir voru þroskaþjálfar og sú hugsun var ríkjandi. Ég man ekki eftir því að það hafi verið einhver harka eða ómannúðlegheit,“ rifjar Sigurjón upp. Þó hann hafi ekki orðið var við neitt í líkingu við það sem afhjúpað er í skýrslu vistheimilanefndar segir hann líklegt að annað hafi verið uppi teningnum fyrir hans tíð.

„Maður heyrði kannski sögur frá því í „gamla daga“ og eldri starfsmenn sem höfðu unnið þarna lengur höfðu lifað tímana tvenna. Þeir höfðu orð á því að þetta hefði verið miklu verra og allt annar skilningur á hlutunum þá. En ég var þarna í þrjú ár og á frekar bjartar minningar frá þessum tíma. Ég held líka að margir sem hafi verið að vinna þarna á þessum tíma hafi frekar jákvæða upplifun af þessu. Ég get ímyndað mér að það hafi verið allt annað viðhorf á sjötta og sjöunda áratugnum, sem maður nær engu sambandi við. En okkur þótti fljótt svo vænt um vistmennina. Þetta voru sterkir karakterar og ég man bara á sumrin sérstaklega þá var mikið lagt upp úr því að gera eitthvað skemmtilegt. Við fórum með hóp í tívolíið í Hveragerði og svo var farið í sumarbústað og svona, þeim leyft að upplifa ýmislegt. Þetta var skemmtilegur tími, verð ég að segja.“

Sigurjón kveðst heldur ekki hafa fundið fyrir miklu álagi. Starfsmönnum hafi fjölgað á sumrin þó vissulega hafi þeir verið færri á veturna. „Kannski var maður bara vafinn inn í bómull á þeirri deild sem ég var á. En á þessum tíma var þetta að þróast þannig að allir voru að fara á einhvers konar sambýli. Flestir sem voru á þeirri deild sem ég var á fóru í minni einingar og sambýli. Einstaka sinnum hefur maður hitt þessa gömlu vistmenn á förnum vegi og þetta eru bara vinir manns, sem manni finnst maður eiga eitthvað í.“

Sigurjón segist hafa lesið örlítið af þeim lýsingum sem birst hafa úr skýrslunni og segir að þær séu helvíti ljótar. „En ég kannast ekki við þetta frá mínum tíma.“


Kerfisbundið getuleysi

Kristín vann tvö sumur á barnadeild Kópavogshælis – Áttaði sig síðar á að óbeint ofbeldi fólst í afskiptaleysinu

Kristín Amalía Atladóttir starfaði tvö sumur á barnadeild Kópavogshælis um miðjan níunda áratuginn.
Hugsar oft til baka Kristín Amalía Atladóttir starfaði tvö sumur á barnadeild Kópavogshælis um miðjan níunda áratuginn.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Mín upplifun er engan veginn sú að þarna hafi verið fólk sem vildi gera þessum börnum mein eða beitti þau harðræði. Ég upplifði þetta ekki sem mannvonsku, aðeins þeirra tíma þekkingarleysi og kerfisbundið getuleysi til að sinna þessum einstaklingum,“ segir Kristín Amalía Atladóttir, sem vann sem ung kona tvö sumur á barnadeild Kópavogshælis árin 1984 og 1985. Hún segir að henni sé oft hugsað til baka og hún sé hrygg yfir því að hafa ekki verið skynugri á aðstæður og það andvara- og hugsunarleysi sem hún hafi síðar með árunum áttað sig á að hafi viðgengist þar.

Kristín kveðst aldrei hafa orðið vör við beint ofbeldi en þegar hún hafi verið komin til vits og ára hafi runnið á hana tvær grímur.

„Það sem mér finnst erfitt að horfast í augu við var hið hrikalega afskipta- og sinnuleysi. Starfsmenn komu og fóru, enginn var með yfirsýn, hugað var að líkamlegum þörfum barnanna en þau voru að mestu látin afskiptalaus. Engin örvun eða þjálfun, ekkert samhengi í umönnun þeirra,“ segir Kristín sem kveðst skilgreina slíkt afskiptaleysi og vanrækslu nú sem óbeint ofbeldi.

Hún rifjar upp að hún hafi komið þarna inn í sumarvinnu, rúmlega tvítug, og ekki fengið neina kennslu. Hlutverkið hafi verið að sinna umönnun, líkamlegri umönnun, en henni hafi aldrei verið kynntar sértækar þarfir einstaklinganna.
Hún rifjar upp dæmi um stúlku, sem setið hefur í henni lengi.

„Hún var greinilega mjög einhverf og líka mikið fötluð. Hún sat og reri fram í gráðið alla daga. Svo man ég að ég var á kvöldvakt nokkur skipti og sá um að koma henni í rúmið. Ég slökkti ljósið og þegar ég var að fara fram þá læddist ég áberandi upp að henni og kitlaði hana pínulítið. Hún hló og var pínulítið eins og ungbarn. Þegar ég var búin að endurtaka þetta tvö til þrjú kvöld þá sá ég að hún var byrjuð að engjast um í eftirvæntingu. Þar sá ég að undir fötlun hennar var manneskja og það þurfti ekki meira en svona lítinn endurtekinn leik til að mynda samband. Það var ekkert svoleiðis í gangi. Þetta var stúlka sem gerði ekkert annað allan daginn en að sjúga á sér puttann og róa fram í gráðið allan daginn en það var eitthvað meira þarna. Hún var svo fljót að taka við sér þegar manni datt eitthvað svona í hug.“

Kristín segir að sér hafi liðið vel þarna og að andinn hafi ekki verið slæmur. En eftir því sem hún þroskaðist hafi hún farið að skilja betur og sú tilfinning að hún hefði getað gert betur sé sár. „Ég var þarna í stuttan tíma en maður hugsar hvort maður hefði getað lagt sig meira fram um að vinna með viðkomandi. Í einföldum litlum hlutum. Slíkt situr í mér og hefur gert í langan tíma.“


Myndirnar af vistmönnunum sem krjúpa í snjónum eftir brunann í Kópavogshæli vöktu mikil viðbrögð. Hér gefur að líta forsíðu DV 13. janúar 1986, morguninn sem eldurinn kom upp.
Átakanleg forsíða Myndirnar af vistmönnunum sem krjúpa í snjónum eftir brunann í Kópavogshæli vöktu mikil viðbrögð. Hér gefur að líta forsíðu DV 13. janúar 1986, morguninn sem eldurinn kom upp.
Mynd: Timarit.is

Fengu ekki fé fyrir reykskynjurum

Tveir vistmenn létust í eldsvoða á Kópavogshæli árið 1986 – Fjársveltið kostaði mannslíf

Snemma að morgni mánudagsins 13. janúar 1986 kom upp eldur í einni af fjórum deildum í heimiliseiningum Kópavogshælis. Einn vistmaður, sextugur karlmaður sem bjó í næsta herbergi við það sem eldurinn kom upp í, lést af völdum reykeitrunar í brunanum og ein kona, 21 árs, var lögð inn á gjörgæsludeild í lífshættu. Hún lést rúmum mánuði síðar 18. febrúar af alvarlegum afleiðingum reykeitrunarinnar. Fjórtán vistmönnum sem voru í álmunni þegar eldurinn kom upp var bjargað út af reykköfurum. Á forsíðu DV þann dag voru átakanlegar myndir af vistmönnum þar sem þeir krupu helkaldir á ísnum meðan slökkviliðsmenn breiddu yfir þá teppi.

Kviknaði í frá kertaljósi

Degi síðar, þann 14. janúar, var upplýst að kviknað hefði í út frá kertaljósi í einu herbergjanna. Kerti hafði dottið ofan af kommóðu og niður á gólf þar sem eldurinn læsti sig í rúmföt. Glugginn í herberginu var opinn og þegar stúlka, sem var í herberginu opnaði dyrnar til að ná í hjálp varð gegnumtrekkur sem varð til þess að eldurinn magnaðist og eldtungur læstu sig í þakskegg hússins. Í kjölfar brunans komu ýmis vandamál og hættur á hælinu fram í dagsljósið. Nokkuð sem kannski var lýsandi fyrir þá afgangsstærð sem stofnunin var álitin.

Í ljós kom að hvorki var brunavarnarkerfi né einn einasti reykskynjari í Kópavogshæli þegar eldurinn kom upp.
Alvarlegt mál Í ljós kom að hvorki var brunavarnarkerfi né einn einasti reykskynjari í Kópavogshæli þegar eldurinn kom upp.
Mynd: Timarit.is

Í fyrsta lagi var það vegfarandi sem var á ferð í bifreið sinni yfir Arnarneshæðina sem varð eldsins var. Vaktmenn á hælinu vissu ekki að kviknað væri í fyrr en lögregla og slökkvilið mættu á vettvang. Í ljós kom einnig að aðeins tveir vaktmenn sáu um næturvakt á deildunum fjórum sem allar voru í fjórum sérstæðum svefnálmum og hýstu 60 vistmenn.

Hvorki kerfi né skynjarar

En ekki þurfti að undra að fámennt starfslið hafi ekki orðið eldsins vart því upplýst var að ekkert brunavarnarkerfi eða reykskynjarar voru í Kópavogshæli á þessum tíma. Forstöðumaður hælisins hafði ítrekað, í nokkur ár fyrir þennan atburð, óskað eftir fjármagni frá stjórnvöldum til að setja upp brunavarnarkerfi en ávallt fengið þau svör að engir peningar væru til fyrir því.

„Falskt öryggi“

Þáverandi forstjóri tæknideildar ríkisspítalanna bar sömuleiðis við fjárskorti spurður út í reykskynjarana í DV á þessum tíma. Tæknideildin hafi þar að auki metið það sem svo að reykskynjarar veittu „falskt öryggi“ þar sem þeir væru ekki samtengdir og væru ótryggir til frambúðar. Því voru slökkviliðsmenn ekki sammála.

Svo fór að í kjölfar hins mannskæða bruna, sem vafalaust hefði aldrei þurft að kosta nokkurn mann lífið ef til staðar hefði verið lögbundið brunavarnarkerfi í opinberri byggingu, hófst söfnun fyrir brunavarnarkerfi. Var það Kiwanishreyfingin sem stóð fyrir söfnuninni til að koma upp fullkomnu kerfi á hælinu. Kostnaðurinn við kaup og uppsetningu var metinn á fjórar milljónir króna. Á verðlagi dagsins í dag eru fjórar milljónir í janúar 1986, rétt um 26 milljónir króna.
Auglýsing fyrir söfnunina var áhrifamikil, skreytt myndum af vistmönnum í kjölfar brunans og textinn er lýsandi. Þar stendur meðal annars:

„Þau gleymdust, það kostaði eitt mannslíf og marga miklar þjáningar. Við gleymdum þeim, þú og ég. Við getum ekki bætt fyrir mannslíf en við getum komið í veg fyrir að slíkur atburður endurtaki sig. Þau þurfa á okkur að halda.“

Meðan á söfnuninni stóð brást fyrirtækið Securitas skjótt við og færði Kópavogshæli 63 reykskynjara að gjöf til að setja upp á meðan beðið var eftir brunavarnarkerfinu. Virðingarvert framtak hjá báðum aðilum sem vakti athygli, en því miður of seint fyrir vistmennina tvo sem létust vegna eldsvoðans alræmda á hinni fjársveltu stofnun.

Kiwanishreyfingin hóf söfnun fyrir nýju fullkomnu brunavarnarkerfi fyrir Kópavogshæli í kjölfar brunans. Auglýsing söfnunarinnar var áhrifamikil.
Hin gleymdu Kiwanishreyfingin hóf söfnun fyrir nýju fullkomnu brunavarnarkerfi fyrir Kópavogshæli í kjölfar brunans. Auglýsing söfnunarinnar var áhrifamikil.
Mynd: Timarit.is


Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.