Fjársvelt Kópavogshæli: Fengu ekki fé fyrir reykskynjurum

Tveir vistmenn létust í eldsvoða á Kópavogshæli árið 1986 – Brunavarnarkerfi of dýrt og „falskt öryggi“ af reykskynjurum

Myndirnar af vistmönnunum sem krjúpa í snjónum eftir brunann í Kópavogshæli vöktu mikil viðbrögð. Hér gefur að líta forsíðu DV 13. janúar 1986, morguninn sem eldurinn kom upp.
Átakanleg forsíða Myndirnar af vistmönnunum sem krjúpa í snjónum eftir brunann í Kópavogshæli vöktu mikil viðbrögð. Hér gefur að líta forsíðu DV 13. janúar 1986, morguninn sem eldurinn kom upp.
Mynd: Timarit.is

Snemma að morgni mánudagsins 13. janúar 1986 kom upp eldur í einni af fjórum deildum í heimiliseiningum Kópavogshælis. Einn vistmaður, sextugur karlmaður sem bjó í næsta herbergi við það sem eldurinn kom upp í, lést af völdum reykeitrunar í brunanum og ein kona, 21 árs, var lögð inn á gjörgæsludeild í lífshættu. Hún lést rúmum mánuði síðar 18. febrúar af alvarlegum afleiðingum reykeitrunarinnar. Fjórtán vistmönnum sem voru í álmunni þegar eldurinn kom upp var bjargað út af reykköfurum. Á forsíðu DV þann dag voru átakanlegar myndir af vistmönnum þar sem þeir krupu helkaldir á ísnum meðan slökkviliðsmenn breiddu yfir þá teppi.

Kviknaði í frá kertaljósi

Degi síðar, þann 14. janúar, var upplýst að kviknað hefði í út frá kertaljósi í einu herbergjanna. Kerti hafði dottið ofan af kommóðu og niður á gólf þar sem eldurinn læsti sig í rúmföt. Glugginn í herberginu var opinn og þegar stúlka, sem var í herberginu opnaði dyrnar til að ná í hjálp varð gegnumtrekkur sem varð til þess að eldurinn magnaðist og eldtungur læstu sig í þakskegg hússins. Í kjölfar brunans komu ýmis vandamál og hættur á hælinu fram í dagsljósið. Nokkuð sem kannski var lýsandi fyrir þá afgangsstærð sem stofnunin var álitin.

Í ljós kom að hvorki var brunavarnarkerfi né einn einasti reykskynjari í Kópavogshæli þegar eldurinn kom upp.
Alvarlegt mál Í ljós kom að hvorki var brunavarnarkerfi né einn einasti reykskynjari í Kópavogshæli þegar eldurinn kom upp.
Mynd: Timarit.is

Í fyrsta lagi var það vegfarandi sem var á ferð í bifreið sinni yfir Arnarneshæðina sem varð eldsins var. Vaktmenn á hælinu vissu ekki að kviknað væri í fyrr en lögregla og slökkvilið mættu á vettvang. Í ljós kom einnig að aðeins tveir vaktmenn sáu um næturvakt á deildunum fjórum sem allar voru í fjórum sérstæðum svefnálmum og hýstu 60 vistmenn.

Hvorki kerfi né skynjarar

En ekki þurfti að undra að fámennt starfslið hafi ekki orðið eldsins vart því upplýst var að ekkert brunavarnarkerfi eða reykskynjarar voru í Kópavogshæli á þessum tíma. Forstöðumaður hælisins hafði ítrekað, í nokkur ár fyrir þennan atburð, óskað eftir fjármagni frá stjórnvöldum til að setja upp brunavarnarkerfi en ávallt fengið þau svör að engir peningar væru til fyrir því.

„Falskt öryggi“

Þáverandi forstjóri tæknideildar ríkisspítalanna bar sömuleiðis við fjárskorti spurður út í reykskynjarana í DV á þessum tíma. Tæknideildin hafi þar að auki metið það sem svo að reykskynjarar veittu „falskt öryggi“ þar sem þeir væru ekki samtengdir og væru ótryggir til frambúðar. Því voru slökkviliðsmenn ekki sammála.

Svo fór að í kjölfar hins mannskæða bruna, sem vafalaust hefði aldrei þurft að kosta nokkurn mann lífið ef til staðar hefði verið lögbundið brunavarnarkerfi í opinberri byggingu, hófst söfnun fyrir brunavarnarkerfi. Var það Kiwanishreyfingin sem stóð fyrir söfnuninni til að koma upp fullkomnu kerfi á hælinu. Kostnaðurinn við kaup og uppsetningu var metinn á fjórar milljónir króna. Á verðlagi dagsins í dag eru fjórar milljónir í janúar 1986, rétt um 26 milljónir króna.

Auglýsing fyrir söfnunina var áhrifamikil, skreytt myndum af vistmönnum í kjölfar brunans og textinn er lýsandi. Þar stendur meðal annars:

„Þau gleymdust, það kostaði eitt mannslíf og marga miklar þjáningar. Við gleymdum þeim, þú og ég. Við getum ekki bætt fyrir mannslíf en við getum komið í veg fyrir að slíkur atburður endurtaki sig. Þau þurfa á okkur að halda.“

Meðan á söfnuninni stóð brást fyrirtækið Securitas skjótt við og færði Kópavogshæli 63 reykskynjara að gjöf til að setja upp á meðan beðið var eftir brunavarnarkerfinu. Virðingarvert framtak hjá báðum aðilum sem vakti athygli, en því miður of seint fyrir vistmennina tvo sem létust vegna eldsvoðans alræmda á hinni fjársveltu stofnun.

Kiwanishreyfingin hóf söfnun fyrir nýju fullkomnu brunavarnarkerfi fyrir Kópavogshæli í kjölfar brunans. Auglýsing söfnunarinnar var áhrifamikil.
Hin gleymdu Kiwanishreyfingin hóf söfnun fyrir nýju fullkomnu brunavarnarkerfi fyrir Kópavogshæli í kjölfar brunans. Auglýsing söfnunarinnar var áhrifamikil.
Mynd: Timarit.is


Þetta er brot úr ítarlegri umfjöllun DV um Kópavogshælið þar sem rætt er við nokkra fyrrverandi starfsmenn og reynt að varpa ljósi á tíðarandann og viðhorfið gagnvart hælinu á árum áður og dregin fram lýsandi dæmi um viðhorf þjóðfélagsins til starfseminnar. Nánar um málið í DV í dag.


Sjá einnig:

Kristín vann á Kópavogshæli: Kerfisbundið getuleysi

Maður heyrði sögur frá því í „gamla daga“

Magnús vann á Kópavogshæli: Inni á milli starfsmenn sem áttu ekkert erindi í starfið

„Við gleymdum þeim“

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.