Með neyðarhnapp til taks af ótta við stærsta hluthafann

Hæstaréttardómur lýsir ógnarástandi innan veggja Logalands ehf.

Stærsti eigandinn var dæmdur fyrir að leggja hendur á samstarfskonu sína.
Logaland ehf. Stærsti eigandinn var dæmdur fyrir að leggja hendur á samstarfskonu sína.

Þann 2. febrúar síðastliðinn staðfesti Hæstiréttur Íslands dóm úr héraði þar sem fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins Logaland ehf., Kolbeinn Sigurðsson, var sýknaður af þeirri kröfu fyrirtækisins að hann endurgreiddi þriggja mánaða laun sem hann fékk við starfslok sín.

Kolbeinn gegndi starfinu í tæpa þrjá mánuði um mitt ár 2015 en sannkallað ógnarástand ríkti innan veggja fyrirtækisins. Alls störfuðu sjö starfsmenn hjá fyrirtækinu á þessu tímabili, þrúgandi áfengisneysla stærsta hluthafans, Ingibergs Erlingssonar, setti mikinn svip sinn á starfsumhverfið. Meðal annars voru starfsmenn fyrirtækisins með neyðarhnapp frá Securitas sér til halds og trausts ef Ingibergur skyldi láta sjá sig, auk þess sem öryggisvörður frá sama fyrirtæki kom iðulega í heimsókn. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að Ingibergur hafi hlotið dóm fyrir að ganga í skrokk á einum starfsmanni fyrirtækisins auk þess sem hann réðst til atlögu við áðurnefndan Kolbein.

Verulegt ósætti milli hjóna og sonar

Logaland ehf. er í eigu þriggja einstaklinga; hjónanna Erlings Sigurðssonar og Mörtu Magnúsdóttur, sem hvort um sig á 25 prósenta hlut í félaginu, og sonar þeirra, Ingibergs Erlingssonar, sem á 50 prósent. Fyrirtækið sérhæfir sig í margs konar heilbrigðisvörum og þjónustar spítala, hjúkrunarheimili, einkastofur, sambýli og einstaklinga. Saman mynduðu Ingibergur og foreldrar hans þriggja manna stjórn félagsins en í áðurnefndum dómi kemur fram að um verulegt ósætti hafi verið að ræða milli Ingibergs og foreldranna.

Þrátt fyrir það komust eigendur að því samkomulagi í júní 2014 að Ingibergur yrði skráður sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins og var gerður við hann ráðningarsamningur þess efnis. Jafnframt var stjórnarmönnum fjölgað í fimm og tóku Björn Líndal hdl. og áðurnefndur Kolbeinn Sigurðsson sæti í stjórn. Í dómnum kemur fram að umræður um ráðningarsamninginn hafi gengið illa því Erlingur vantreysti syni sínum vegna óhóflegrar áfengisneyslu hans.

Stærsti eigandinn rekinn sem framkvæmdastjóri

Þá kemur fram að ítrekað hafi verið reynt að fá Ingiberg til þess kaupa hlut foreldra sinna eða selja fyrirtækið. Þær tilraunir báru ekki árangur. Einnig kemur fram að í kjölfar þess að Ingibergur tók við stjórnartaumunum hafi áfengisneysla hans aukist og viðvera hans orðið stopul. Hann var áminntur 8. maí 2015, sendur í launalaust leyfi 11. maí og síðan sagt upp þann 28. maí.

Í beinu framhaldi var áðurnefndur Kolbeinn Sigurðsson ráðinn sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá 1. júní 2015. Í ráðningarsamningi hans kom fram að hann skyldi fá greidd þriggja mánaða laun ef ráðningarsamningi hans yrði slitið án sakar af hans hálfu. Það reyndist þarft því þann 24. ágúst, tæpum þremur mánuðum síðar, lét hann af störfum í kjölfar ágreinings við „hluthafa“, eins og segir í dómnum. Fékk hann í kjölfarið þessa eingreiðslu greidda sem dómsmálið snerist um. Samkvæmt heimildum DV voru þess dæmi að aðrir starfsmenn hafi fengið viðlíka ákvæði í sína ráðningarsamninga og eru tvö slík mál í ferli hjá dómstólum þar sem Logaland ehf. freistar þess að fá launagreiðslurnar endurgreiddar.

„Eftir nokkra sólarhringa gætir þú orðið atvinnulaus“

Lýsingar dómsins eru ævintýralegar í meira lagi. Þannig er greint frá því að tæpum tveimur mánuðum eftir að Kolbeinn var ráðinn, nánar tiltekið þann 23. júlí 2015, hafi Ingibergur sent honum póst þar sem fram kom að Kolbeinn gæti orðið atvinnulaus eftir nokkra sólarhringa. Pósturinn var svohljóðandi: „Hæ Kolli. Eftir nokkra sólarhringa gætir þú orðið atvinnulaus … ef þú ert undir það búinn væri gott ef þú myndir skila inn bílnum hið fyrsta þannig að ekki þurfi að tilkynna bílinn stolinn líkt og ég hef lent í. Ef þú vilt gera hluti með öðrum hætti þá getur þú hringt í mig. Ef ég heyri ekkert frá þér á næstu sólarhringum verður þú að axla ábyrgð gjörða þinna … Á eftir mun ég henda starfsfólki úr vinnunni án þinna atbeina … ef þú hefur athugasemdir við það er þér velkomið að hringja í …“.

Lagði hendur á samstarfskonu

Ingibergur stóð við stóru orðin og hálftíma síðar mætti hann á skrifstofuna. Þar sauð upp úr með þeim afleiðingum að Ingibergur lagði hendur á konu sem vann hjá fyrirtækinu og var hann handtekinn af lögreglu. Kemur fram að hann hafi hlotið dóm vegna árásarinnar, sem fólst í því að hann var dæmdur til að greiða fésekt. Daginn eftir árásina skrifaði Kolbeinn undir samkomulag við stjórnarformanninn, Björn Líndal, um að hann hefði heimild til þess að láta af störfum samstundis ef Ingibergur eða aðili honum tengdur tæki við sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Tæpum mánuði síðar, 18. ágúst 2015, ætlaði Kolbeinn að funda með Erlingi, föður Ingibergs, á skrifstofu Logalands. Í stað Erlings mætti Ingibergur sjálfur og var undir áhrifum áfengis. Tilkynnti hann Kolbeini að hann væri rekinn og lagði í kjölfarið hendur á hann. Öryggisvörður frá Securitas þurfti að snúa Ingiberg niður og halda honum þar til lögreglu bar að garði.

Starfsmennirnir gengu út

Í framhaldi af þessari uppákomu fékk fyrirtækjaskrá tilkynningu um að aðeins eigendur fyrirtækisins, Ingibergur og foreldrar hans, sætu í stjórn þess og Ingibergur færi með prókúru fyrir félagið. Afleiðingarnar urðu þær að allir starfsmenn Logalands ehf. sögðu upp störfum og gengu út.

Í dag hefur Logaland ehf. breytt um nafn og heitir nú Heilbrigðisvörur, sem vissulega er meira lýsandi fyrir starfsemi félagsins. Samkvæmt heimildum DV hafa allir fyrrverandi starfsmenn fyrirtækisins haldið á nýjar slóðir og rekur Ingibergur það einn í dag ásamt sambýliskonu sinni.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.