Maður heyrði sögur frá því í „gamla daga“

Sigurjón Kjartansson á jákvæðar minningar frá starfi sínu á Kópavogshæli á níunda áratugnum

Sigurjón Kjartansson starfaði í þrjú ár á Kópavogshæli og lítur til baka til þess tíma með hlýhug. Hann kveðst ekki hafa orðið var við harðræði og ofbeldi, en heyrði sögur frá fyrri tíð frá eldri starfsmönnum.
Góðar stundir Sigurjón Kjartansson starfaði í þrjú ár á Kópavogshæli og lítur til baka til þess tíma með hlýhug. Hann kveðst ekki hafa orðið var við harðræði og ofbeldi, en heyrði sögur frá fyrri tíð frá eldri starfsmönnum.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Sigurjón Kjartansson, leikari, handritshöfundur og framleiðandi, er einn þeirra sem störfuðu á Kópavogshæli í lok níunda áratugar síðustu aldar. Í samtali við DV kveðst Sigurjón eiga góðar minningar frá þeim tíma sem hann starfaði þar á árunum 1987 til 1990. Þar hafi andrúmsloftið verið vinsamlegt, samskiptin við vistfólk jákvæð og ljóst að breyttir tímar og hugsun hafi verið ríkjandi frá því sem verst var á upphafsárum hælisins.

„Þarna var komin miklu meiri fagmennska þegar ég var þarna. Yfirmenn mínir voru þroskaþjálfar og sú hugsun var ríkjandi. Ég man ekki eftir því að það hafi verið einhver harka eða ómannúðlegheit,“ rifjar Sigurjón upp. Þó hann hafi ekki orðið var við neitt í líkingu við það sem afhjúpað er í skýrslu vistheimilanefndar segir hann líklegt að annað hafi verið uppi teningnum fyrir hans tíð.

„Maður heyrði kannski sögur frá því í „gamla daga“ og eldri starfsmenn sem höfðu unnið þarna lengur höfðu lifað tímana tvenna. Þeir höfðu orð á því að þetta hefði verið miklu verra og allt annar skilningur á hlutunum þá. En ég var þarna í þrjú ár og á frekar bjartar minningar frá þessum tíma. Ég held líka að margir sem hafi verið að vinna þarna á þessum tíma hafi frekar jákvæða upplifun af þessu. Ég get ímyndað mér að það hafi verið allt annað viðhorf á sjötta og sjöunda áratugnum, sem maður nær engu sambandi við. En okkur þótti fljótt svo vænt um vistmennina. Þetta voru sterkir karakterar og ég man bara á sumrin sérstaklega þá var mikið lagt upp úr því að gera eitthvað skemmtilegt. Við fórum með hóp í tívolíið í Hveragerði og svo var farið í sumarbústað og svona, þeim leyft að upplifa ýmislegt. Þetta var skemmtilegur tími, verð ég að segja.“

Sigurjón kveðst heldur ekki hafa fundið fyrir miklu álagi. Starfsmönnum hafi fjölgað á sumrin þó vissulega hafi þeir verið færri á veturna. „Kannski var maður bara vafinn inn í bómull á þeirri deild sem ég var á. En á þessum tíma var þetta að þróast þannig að allir voru að fara á einhvers konar sambýli. Flestir sem voru á þeirri deild sem ég var á fóru í minni einingar og sambýli. Einstaka sinnum hefur maður hitt þessa gömlu vistmenn á förnum vegi og þetta eru bara vinir manns, sem manni finnst maður eiga eitthvað í.“

Sigurjón segist hafa lesið örlítið af þeim lýsingum sem birst hafa úr skýrslunni og segir að þær séu helvíti ljótar. „En ég kannast ekki við þetta frá mínum tíma.“


Þetta er brot úr ítarlegri umfjöllun DV um Kópavogshælið þar sem rætt er við nokkra fyrrverandi starfsmenn og reynt að varpa ljósi á tíðarandann og viðhorfið gagnvart hælinu á árum áður og dregin fram lýsandi dæmi um viðhorf þjóðfélagsins til starfseminnar. Nánar um málið í DV í dag.

Sjá einnig:

Magnús vann á Kópavogshæli: Inni á milli starfsmenn sem áttu ekkert erindi í starfið

„Við gleymdum þeim“

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.