Friðgeiri og Guðnýju var í gær sagt að amma þeirra væri dáin: Á kveðjustund opnaði amman augun og heilsaði

Mannleg mistök

Íslensk fjölskylda lenti heldur betur í tilfinningalegri rússíbanareið þegar tilkynnt var um andlát fjölskyldumeðlims í gær, 11. febrúar. Hin 94 ára gamla formóðir, Guðný Ásgeirsdóttir hafði þá verið úrskurðuð látin á dvalarheimilinu sem hún bjó á.

„Pabbi hringdi í mig, þar sem ég var að heimsækja dóttur mína í Gautaborg og tilkynnti mér að móðir hans og amma mín, hún Guðný hefði látist í dag. Hann spurði mig hvort ég ætlaði ekki að panta flug heim til að komast í jarðarförina sem ætti að fara fram á sunnudaginn og ég játaði því,” segir Friðgeir Torfi Ásgeirsson, sonarsonur Guðnýjar.

Fékk annað símtal

Hún vildi meina að fregnirnar um andlát hennar væru stórlega ýktar.

Þar sem Friðgeir sat og útskýrði fyrir dóttur sinni að langamma hennar, sem hún þekkti ekki mjög vel en hefði þó hitt nokkrum sinnum, væri dáin og að vissulega væri það sorglegt, en að hún hefði lifað 94 löng og innihaldsrík ár, hefði átt góða að og verið elskuð, fékk hann annað símtal frá föður sínum. Að þessu sinni tilkynnti Ásgeir, faðir Friðgeirs, honum nokkuð sem á eiginlega helst heima í bíómyndum.

Tilfinningalegur rússíbani

„Systir mín sem er alnafna ömmu, hafði farið á dvalarheimilið þar sem sú gamla lá í rúmi sínu, til að kveðja hana. Hún hafði þá komið inn til hennar, tekið í hönd hennar og var að búa sig undir að kveðja gömlu konuna. Þá opnar amma augun og heilsar. Systir mín fékk auðvitað smá sjokk og eftir að hafa rætt við ömmu, hringdi hún í pabba til að færa honum fréttirnar góðu,“ segir Friðgeir.

Það hafði orðið nafnaruglingur á elliheimilinu og tók Guðný það ekki í mál að hún væri látin. Kona sem hét ekki ósvipuðu nafni og amma, hafði látist og þau mistök voru gerð að hringja í aðstandendur rangs vistmanns. Það voru ekki bara Friðgeir, faðir hans og systir sem fengu fregnirnar, heldur var búið að láta fjöldann allan af ættingjum vita af andlátinu. Starfsmaður dvalarheimilisins bað Guðnýju yngri og eldri innilegrar afsökunar og kvað að öll þau ár sem hún hefði unnið á heimilinu, hefði svona líkt aldrei gerst.

Ánægð að fá heimsókn

Um viðbrögð Guðnýjar eldri segir Friðgeir að hún hefði tekið þessu með stóískri ró og segðist vera við hestaheilsu.

„Hún vildi meina að fregnirnar um andlát hennar væru stórlega ýktar. Henni þótti þetta ekki beint fyndið. Bara undarlegt. Hún á það til að vera örlítið rugluð en þessi dagur virtist hafa verið nokkuð skýr. Hún hafði átt fínan dag þrátt fyrir andlátið. Hún var líka bara ánægð að fá heimsóknina,” segir Friðgeir glettinn.

Kom eiginlega skemmtilega á óvart

Þá opnar amma augun og heilsar

„Þegar ég var fjórtán ára missti ég frænda minn og besta vin. Ég man eftir að hafa dreymt draum þar sem hann var kominn aftur og svo þegar ég vaknaði, þá var hann auðvitað ekki þarna.” segir Friðgeir. Það má segja að tilvikið með ömmu Guðnýju hafi komið Friðgeiri skemmtilega á óvart.

„Ég man hvað ég var svekktur að vinur minn var ekki á lífi þegar mig hafði dreymt það. En í tilviki ömmu þá gerðist það, hún reis svo að segja aftur frá dauðum. Foreldrar hans Jesú lentu í því sama,” segir Friðgeir á léttu nótunum.

„Það er greinilega ekki bara fræga fólkið sem lendir í þessu,” segir Friðgeir. Hann vill ekki gefa upp á hvaða elliheimili Guðný búi á því hann vilji ekki gera mikið úr málinu, enda séu þetta mannleg mistök sem vonandi er hægt að læra af.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.