Magnús vann á Kópavogshæli: Inni á milli starfsmenn sem áttu ekkert erindi í starfið

Upplifði þvinganir og harðræði – Starfaði um áratugaskeið á Kópavogshæli

Magnús Helgi Björgvinsson hóf störf á Kópavogshæli sem almennur starfsmaður á barnadeild árið 1984. Hann vann þar allt til enda og fylgdi síðustu vistmönnunum út árið 2003. Sem þroskaþjálfi starfar hann enn með þeim.
Fylgdi þeim síðustu út Magnús Helgi Björgvinsson hóf störf á Kópavogshæli sem almennur starfsmaður á barnadeild árið 1984. Hann vann þar allt til enda og fylgdi síðustu vistmönnunum út árið 2003. Sem þroskaþjálfi starfar hann enn með þeim.
Mynd: Aðsend

„Það var held ég árið 1996 eða 1997 sem ég flutti fyrirlestur á þingi um nauðung og valdbeitingu og viðurkenndi að maður hefði tekið þátt í ýmsu sem maður var þá búinn að átta sig á að var ekki fólki bjóðandi,“ segir Magnús Helgi Björgvinsson þroskaþjálfi sem hóf störf sem almennur starfsmaður á barnadeild Kópavogshælis árið 1984. Þar vann hann allt til ársins 2003 þegar hann fylgdi síðustu heimilismönnum sem fluttu burt af hælinu það ár. Hann hefur því mikla reynslu og hefur lifað tímana tvenna.

„Ég kom þarna inn á barnadeildina, þar sem var betra ástand, en eftir á að hyggja þá sér maður núna að það var ýmislegt að þar eins og annars staðar.“ Líkt og fleiri fyrrverandi starfsmenn þá kom Magnús Helgi ungur og óreyndur inn í aðstæðurnar. Þá voru hlutirnir gerðir á ákveðinn hátt sem verður viðtekin venja. Líkt og aðrir þá kveðst hann hafa áttað sig á að ýmislegt misjafnt hefði gengið á eftir því sem frá leið, aðferðir breyttust og vitneskjan á sviðinu jókst.

Aðspurður hvort hann hafi orðið vitni að einhverju í líkingu við það sem lýst var í skýrslunni segir hann svo vera og þá frekar er varðar ofbeldi vistmanna á milli.

„Ég var fyrst ráðinn til að sinna tilteknum einstaklingi sem átti það til þegar hann varð æstur að láta það bitna á öðru heimilisfólki. Þannig var þessu ekki mjög skynsamlega raðað saman á deild. Þarna voru einstaklingar sem lágu vel við höggi og einstaklingar sem voru líklegir til að veita högg, ef þeir voru æstir.“

Þá, líkt og víðar, hafi verið þarna starfsmenn sem ekkert erindi áttu í þetta starf.

„Það voru þarna alls konar þvinganir og allt að því harðræði sem gat verið í gangi, en það var yfirleitt eitthvað í tengslum við vinnu undir leiðsögn geðlækna og annarra. En þarna inni á milli voru starfsmenn sem áttu ekkert að vera þarna.“

Vitnað er í greinarskrif Magnúsar í skýrslu vistheimilanefndar þar sem hann sá sig knúinn til að benda á það ófremdarástand sem ríkt hefði á hælinu undanfarin ár. Sakaði hann stjórn Ríkisspítala um að hafa neitað að viðurkenna þörfina á nauðsynlegum umbótum. Nefndi hann sem dæmi að átta næturvaktir væru með 160 vistmenn og hver vakt með tvær deildir. Skrifin komu í kjölfarið á brunanum í janúar 1986. „Það var ekkert eftirlit,“ segir Magnús og bendir á að næturvaktin hafi ekki orðið brunans vör heldur hafi það verið vegfarandi sem tilkynnti um hann.

Þá staðreynd að ekki var einu sinni brunavarnarkerfi eða reykskynjarar í stofnuninni telur Magnús hafa verið lýsandi fyrir hversu mikil afgangsstærð hún hafi verið álitin. Kópavogshæli hafi um margt verið hæli hinna gleymdu.
„Ég hef talað við aðstandendur sem sögðu að læknar hafi svo gott sem ráðlagt þeim að sækja um vist og koma börnum sem fyrst inn á Kópavogshæli og eignast önnur börn. Það var það sem gefið var í skyn. Staðurinn bauð enda ekki upp á mikið og það voru bara hörðustu aðstandendur sem gátu ræktað almennilega samskiptin við sína. Tengslin rofnuðu fljótt hjá mörgum fjölskyldum er fjölskyldumeðlimur var settur á Kópavogshæli.“

Magnús segir að framan af hafi hælið verið lítið annað en geymslustaður en þegar hann byrjaði hafi verið kominn skóli fyrir börnin og vinnustofur. Hann og samstarfsmenn hans, sem var margt ungt fólk, hafi gert sitt besta fyrir vistfólk.

„Það var farið með vistfólk í sumarbústaði fyrir lítið sem ekkert kaup og við vorum virkilega að reyna að gera þeim lífið bærilegt. Það var upp úr 1980, skilst mér, sem fólk fór fyrir alvöru að reyna að bæta líf þeirra sem þarna bjuggu.“
Líkt og aðrir fyrrverandi starfsmenn ber Magnús hælinu góða sögu sem vinnustað. Þar hafi verið gaman að vinna með fjölda skemmtilegs fólks sem hafði áhuga á vinnunni.

„En á móti vorum við að berjast við ríkisspítalann sem var alltaf að reyna að skera niður fjárveitingar til þessara deilda en áttaði sig aldrei á því að þarna giltu önnur lögmál en með sjúkrarúm, það var ekki hægt að senda fólk í burtu.“
Magnús segir það réttmæta lýsingu að hinir rólegu hafi verið afskiptir meðan fáliðað starfslið sinnti þeim sem meira fór fyrir. Oft með alvarlegum afleiðingum fyrir hina afskiptu.

„Margir lærðu að til að fá athygli þá var betra að vera með læti, hrinda einhverjum eða þvíumlíkt því oft er sagt að neikvæð athygli sé betri en engin athygli. Þetta var orðið betra þegar ég kom en ég get ímyndað mér að það hafi verið hræðileg staða þar sem voru kannski tveir starfsmenn með 20 manns og áttu að sinna öllum þörfum þeirra, það var rétt hægt að gefa þeim að borða og þrífa þá. Ef það var hægt að þrífa þá.“

Magnús samsinnir að átakanlegt sé að lesa lýsingar á því hvernig hinir afskiptu um árabil hafi síðan þurft lítið til, smá athygli og alúð, til að verða allt aðrar manneskjur. Magnús kveðst nú vera að vinna með einstaklingum sem voru á Kópavogshæli og búa nú í fínu húsi í bænum. Þar hafi þeir litla íbúð fyrir sig og einnig sameiginlegt rými.

„Því þau kunna ekki að nota einkarými. Þau eru vön því síðan þau voru lítil að vakna, fara fram og síðan var herberginu þeirra læst. En þau hafa sitt einkarými, einkasalerni og hafa blómstrað. Fyrst voru þau á stórri deild en síðan alltaf minni og minni með árunum uns þau enduðu í starfsmannaíbúðunum sem voru og fluttu þaðan hingað árið 2003. Þetta voru taldir með erfiðustu einstaklingunum þegar ég kynntist þeim fyrst en allir erfiðleikar nú eru smámunir við það sem var.“

Magnús vill koma því á framfæri að það hafi verið fleiri stofnanir en Kópavogshælið. Eftir svo mörg ár í starfi hafi hann heyrt sögur af öðrum stofnunum sem líklega hafi verið verri en Kópavogshæli.

„Ég vil og vona að þær verði skoðaðar líka því það má ekki hvítþvo þá staði með því að skella öllu á Kópavogshæli. Einnig má koma fram að við sem unnum þarna síðustu áratugina vorum búin að umbylta þessum stað hressilega um það leyti sem honum var lokað. Lífsgæðin voru orðin töluvert meiri. Ekki góð, en töluvert betri.“


Þetta er brot úr ítarlegri umfjöllun DV um Kópavogshælið þar sem rætt er við nokkra fyrrverandi starfsmenn og reynt að varpa ljósi á tíðarandann og viðhorfið gagnvart hælinu á árum áður og dregin fram lýsandi dæmi um viðhorf þjóðfélagsins til starfseminnar. Nánar um málið í DV í dag.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.