„Við gleymdum þeim“

Vistmenn á Kópavogshæli voru afskiptir og hælið var afskipt í þjóðfélaginu – Viðvörunarbjöllur og ákall um umbætur hundsað á árum áður – Ríkið tímdi ekki að kaupa reykskynjara fyrir hælið sem síðar kostaði tvo vistmenn lífið

Saga Kópavogshælis eins og hún birtist í skýrslu vistheimilanefndar er hrollvekjandi. Birst hafa óhugnanlegar lýsingar úr þessari svörtu skýrslu á þeim frumstæðu aðferðum, harðræði, afskiptaleysi og vanrækslu sem börn vistuð á Efra-Seli og barnadeildum Kópavogshælis máttu þola á árunum 1952–1993.

Þegar saga hælisins er skoðuð virðist fjárskortur, mannekla, mikil starfsmannavelta, álag, skortur á faglærðu starfsfólki og stefnumótun frá stjórnvöldum og bágborinn aðbúnaður hafa orðið til þess að fjölmörg börn, ungmenni og aðrir vistmenn hafi hreinlega borið skaða af. Fyrstu áratugi starfseminnar var Kópavogshæli lítið annað en „geymslustofnun“ fyrir þroskaskerta og fatlaða, sem lítið átti sameiginlegt með seinni tíma hugmyndum manna um að hælið yrði þjálfunar-, uppeldis- og meðferðarstofnun. Þarna voru börn sem og aðrir vistmenn geymdir en líka gleymdir í þjóðfélagi sem virtist fá úrræði og takmarkaðan áhuga hafa á að búa þeim mannsæmandi líf í samræmi við þjónustuþörf. Ýmis merki voru um að ástandið á hælinu væri fjarri því ásættanlegt og sú umræða, sem reglulega kom upp á níunda áratugnum ef marka má fjölmiðla á þeim tíma, virðist hafa mætt þögninni einni. Stjórnvöld og ráðamenn, sem og samfélagið, virðast hafa skellt skollaeyrum við neyðarköllum innan af stofnuninni. Hæli hinna gleymdu hýsti ljótu leyndarmálin uns þau voru endanlega dregin fram í dagsljósið í svartri skýrslu vistheimilanefndar, 24 árum síðar.

Í ítarlegri umfjöllun DV um Kópavogshælið er rætt við fyrrverandi starfsmenn, reynt að varpa ljósi á tíðarandann og viðhorfið gagnvart hælinu á árum áður og dregin fram lýsandi dæmi um viðhorf þjóðfélagsins til starfseminnar. Ekki skorti á að ítrekað hafi verið bent á að umbóta væri þörf á níunda áratugnum. Viðbrögðin voru hins vegar fáleg. Rifjaður er upp bruninn á Kópavogshæli í janúar 1986 þar sem tveir vistmenn létu lífið af völdum reykeitrunar. Í ljós kom að ekkert brunavarnarkerfi var á hælinu, ekki einu sinni reykskynjarar, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um fjármagn til að kippa því í liðinn. Viðkvæði stjórnvalda og ráðamanna var, að væri ekki til peningur í ríkissjóði fyrir því. Nánar um málið í DV í dag.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.