Jón Gnarr um samstarfskonur sínar á Kópavogshæli: „Minnist þeirra með mikilli hlýju og virðingu“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Flestir sem voru vistaðir á svona stofnunum voru umkomulausir einstæðingar sem áttu engan að í öllum heiminum. Og þeir einu sem struku þeim um vangann, töluðu fallega við þau og fóru út í göngutúr með þeim voru þessar konur. Þessar konur voru engir gerendur í þessum ömurlega heimi heldur fórnarlömb,“ segir Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri en hann starfaði á Kópavogshæli í tvö ár á níunda áratugnum. Á meðan umræðan undanfara daga hefur beint að ómannúðlegri og harkalegri meðferð á vistmönnum segir Jón að raunin hafi verið allt önnur á þeim tíma þegar hann var starfsmaður hælisins. Segir hann að samtarfskonur hans á hælinu hafi unnið vanþakklát og óeigingjarnt starf af einskærri góðmennsku og hugsjón.

Skýrsla vistheimilanefndar um Kópavogshæli var gerð opinber fyrr í vikunni en þar má mr finna óhugnanlegar lýsingar á harðræði, afskiptaleysi og vanrækslu sem börn á hælinu máttu þola á árum áðu en börn voru vistuð á Efra-Seli og barnadeildum Kópavogshælis á árunum 1952–1993.

Geymslustofnun fyrir þroskahefta

Fjallað var ítarlega um Kópavogshælið í seinasta þriðjudagsblaði DV. Kom þar meðal annars fram að þegar saga hælisins er skoðuð virðist fjárskortur, mannekla, mikil starfsmannavelta, álag, skortur á faglærðu starfsfólki og stefnumótun frá stjórnvöldum og bágborinn aðbúnaður hafa orðið til þess að fjölmörg börn, ungmenni og aðrir vistmenn hafi hreinlega borið skaða af. Fyrstu áratugi starfseminnar var Kópavogshæli lítið annað en „geymslustofnun“ fyrir þroskaskerta og fatlaða, sem lítið átti sameiginlegt með seinni tíma hugmyndum manna um að hælið yrði þjálfunar-, uppeldis- og meðferðarstofnun. Þarna voru börn sem og aðrir vistmenn geymdir en líka gleymdir í þjóðfélagi sem virtist fá úrræði og takmarkaðan áhuga hafa á að búa þeim mannsæmandi líf í samræmi við þjónustuþörf.

Þá var rætt við fyrrum starfsmenn hælisins, meðal annars Sigurjón Kjartansson sem starfaði á hælinu í lok níunda áratugarins. Sigurjón kvaðst eiga góðar minningar frá þeim árum: andrúmsloftið hefði verið vinsamlegt, samskiptin við vistfólk jákvæð og ljóst að breyttir tímar og hugsun hafi verið ríkjandi frá því sem verst var á upphafsárum hælisins.

„Þarna var komin miklu meiri fagmennska þegar ég var þarna. Yfirmenn mínir voru þroskaþjálfar og sú hugsun var ríkjandi. Ég man ekki eftir því að það hafi verið einhver harka eða ómannúðlegheit,“ rifjar Sigurjón upp. Þó hann hafi ekki orðið var við neitt í líkingu við það sem afhjúpað er í skýrslu vistheimilanefndar segir hann líklegt að annað hafi verið uppi teningnum fyrir hans tíð.

Hugsjónavinna fyrir lúsarlaun

„Mér finnst ömurlegt að hugsa til þess að fólk haldi að þeir sem unnu á Kópavogshæli hafi verið einhver illmenni. Það er bara ekki rétt. Á meðan ég vann á Kópavogshælinu varð ég aldrei vitni að neinu ofbeldi gegn þeim sem þar dvöldu. Þvert á móti. Ég vann á mörgum svipuðum stofnunum á þessum tíma; Kleppi, Arnarholti og Vífilsstöðum. Svona umönnunarstörf þóttu svo mikil kvennastörf að ég var í Verkakvennafélaginu Sókn. Ég var Sóknarkona samkvæmt launaseðli,“ ritar Jón í opinni færslu á facebooksíðu sinni.

Hann kveðst minnast kvennanna með mikilli hlýju og virðingu.

„Þetta voru yndislegar konur sem voru þolinmóðar og hjálpsamar við það fólk sem þær voru að sinna. Flestar höfðu unnið lengi á þessum stöðum. Þær fengu lúsarlaun fyrir vinnu sína og þetta þótti ekkert merkilegt starf á þeim tíma að „vinna með þroskahefta.“ Ég held að drifkrafturinn í þeirra starfi hafi verið góðmennska og hugsjón, vinátta og jafnvel eðlislæg móðurtilfinning.“

Jón bendir jafnframt á að það hafi verið mjö erfitt að fá fólk til að vinna ummönnunarstörf, enda launin ekki í takt við það líkamlega og andlega álag sem fylgdi.

„Og það endurspeglar gildismat samfélagsins. Það var samfélagsleg ábyrgð okkar allra að setja fólk á lokaðar stofnanir, fjarri byggð, og skilja það bara eftir þar, öllum gleymt. Og ef við viljum í alvörunni laga þetta þá getum við ekki dregið fólk í dilka og stillt upp "gerendum" og "fórnarlömbum" heldur þurfum við öll að horfa í eigin barm.“

Þá stingur Jón upp á að Bjarni Benediktsson biðji samstarfskonur hans afsökunar, rétt eins og þá einstaklinga sem máttu þola illa meðferð á hælinu sem börn. Þessar konur hafi einnig verið settar í þessar aðstæður á ákveðinn hátt, að mati Jóns.

„Til að hækka launin mín þá lækkaði ég starfshlutfallið mitt niðrí 50%. Það var svo mikill hörgull á starfsfólki að ég vann alveg 150% vinnu og fékk 100% í yfirvinnu. Það hefðu þessar konur aldrei gert. Og þegar launaskrifstofa ríkisins sá við þessu og setti á yfirvinnubann þá sá ég mér ekki lengur fært að vinna á Kópavogshæli. Ég hélt því til Svíþjóðar að starfa fyrir bílaframleiðandann Volvo.

Ég fékk helmingi hærri laun fyrir að setja hurðir á Volvo 240 í Svíþjóð en fyrir að sinna fötluðu fólki á Íslandi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.