Vann 48 milljónir á skafmiða – „Verstu og lengstu dagar lífs míns“

Mynd: © Eyþór Árnason

Sannkallað jólakarma má kalla það sem kom fyrir 68 ára konu þann 1. desember síðastliðinn. Hún var stödd í verslunarmiðstöð í Greve á Sjálandi í Danmörku með vinkonu sinni. Vinkona hennar þurfti að fara inn í söluturn í verslunarmiðstöðinni til að kaupa sér lottómiða og fóru konurnar tvær því þar inn.

„Ég sagði henni að ég ætlaði ekki að kaupa mér lottómiða en í staðinn keypti ég skafmiða.“

Er haft eftir konunni á vef Danske Spil (dönsku getraunanna) en hún nýtur nafnleyndar. Þegar hún kom heim skóf hún af miðanum og við henni blasti að hún hafði unnið 25.000 danskar krónur á mánuði næstu 10 árin en það eru 3 milljónir danskra króna í heildina en það svarar til um 48 milljóna íslenskra króna.

„Þetta voru verstu og lengstu dagar lífs míns og það er fyrst nú sem ég get andað léttar. Ég skóf af miðanum klukkan 13.45 á föstudegi og fór síðan aftur í söluturninn. Þaðan var ég send í bankann og þá var klukkan orðin 15.45. Þegar ég kom þangað inn var hringt í Danske Spil. Þar var sagt að það myndi líða hálf klukkustund þar til hægt væri að gera eitthvað, ég skildi það ekki alveg, en þá var búið að loka bankanum. Ég varð því að taka skafmiðann með heim aftur. Ég get sagt þér að ég var svo hrædd um að týna honum eða glata honum á einhvern hátt. Ég þorði varla að fara út og svaf nánast með hann undir koddanum.“

Sagði konan í samtali við Sydkysten eftir að hún hafði komið miðanum í öruggt skjól og fengið fyrstu 25.000 krónurnar greiddar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.