Ótrúlegar myndir frá Los Angeles: Borgin brennur – „Sofið með annað augað opið í nótt“

Mynd: Getty

„Það er mjög mikilvægt að fólk sofi með annað augað opið í nótt,“ sagði Daryl Osby, slökkviliðsstjóri í Los Angeles-sýslu í gærkvöldi, í samtali við LA Times.

Ekkert lát er á skógareldum í Los Angeles og nágrenni borgarinnar og hafa hátt í tvö hundruð þúsund manns þurft að yfirgefa heimili sín í San Fernando-dalnum og nágrenni. Seint í gærkvöldi hafði eldurinn farið yfir 12.600 hektara og eyðilagt minnst 300 hús eða fyrirtæki á svæðinu.

Eldtungurnar teygðu sig að brautinni

Í umfjöllun New York Times kemur fram að eldurinn hafi blossað upp í Bel-Air-hverfinu í Los Angeles í gær, skammt frá til dæmis Getty-safninu og heimavist U.C.L.A-skólans. Á Getty-safninu má finna málverk eftir fræga listmálara og fornar styttur.

Ótrúleg sjón blasti við ökumönnum einnar fjölförnustu hraðbrautar Bandaríkjanna, 405 Freeway, í gær. Um 400.000 þúsund ökutæki fara um brautina á hverjum degi og teygðu eldtungurnar sig að brautinni. Hluti brautarinnar var lokaður í gær vegna eldanna.

Óhagstæðar veðurspár

Eldurinn kviknaði til að byrja með í Ventura-sýslu og hefur slökkviliðsmönnum gengið illa að halda eldunum í skefjum. Þá loga miklir eldar í norðurhluta San Fernando-dalsins og í héröðum norður af Los Angeles.

Ekki er búist við því að neitt lát verði á skógareldunum í bráð því veðurspár fyrir daginn í dag eru óhentugar; talsverður vindur verður víða í Kaliforníu og hiti frá 25 og upp í 30 gráður yfir daginn.

Skógareldar kvikna jafnan í Kalforníu í október hvert ár en að sögn veðurfræðinga hafa loftslagsbreytingar þau áhrif að eldarnir kvikna nú seinna og verða óútreiknanlegri. Hér að neðan má sjá nokkur myndbönd af skógareldunum í Los Angeles og nágrenni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.