Mál Árna Gils Hjaltasonar sent aftur í hérað - Hjalti hrósar sigri: „Allir í skýjunum“

Hæstiréttur hefur sent mál Árna Gils Hjaltasyni heim í hérað og verður málið aftur tekið fyrir. Málið verður þá flutt fyrir þrjá dómara. Árni Gils var í ágúst dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að hafa reynt að myrða mann í Breiðholti í mars með því að stinga hann í höfuðið með hníf. Lykilvitni í málinu, gömul vinkona Árna, sagðist hafði sinnast við hann umrætt kvöld, segist hafa séð hnífinn um mánuði síðar í íbúð vinar síns. Sama vitni sagði að fórnarlambið hafi reynt að múta sér til að breyta ekki framburði sínum.

Það sem er óumdeilt í málinu er að Árni kom á vettvangi á bíl vinkonu sinnar, sem var í íbúð frænku sinnar við Iðufell ásamt fórnarlambi. Fórnarlambið og vinkonan, sem er fyrrnefnt lykilvitni, koma út og þá á sér stað pústur á milli Árna og fórnarlambsins. Síðar um kvöldið kemur fórnarlamb á neyðarmóttöku og er þá með skurð vinstra megin fyrir ofan eyra. Árni Gils hefur ávallt fullyrt að hann hafi ekki stungið manninn en hann hafi þó varist árás hans.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að ekki sé hægt að slá því föstu að útilokað sé að hnífurinn hafi rekist í brotaþola fyrir slysni.

Hjalti Úrsus faðir Árna Gils lítur á dóm Hæstaréttar sem sigur. Hann efast stórlega um það að Héraðssaksóknari fari með málið aftur fyrir héraðsdóm. „Þetta er sýknun og öll fjölskyldan er bara grátandi. Það eru allir í skýjunum,“ segir Hjalti.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.