Janusz auglýsti Pólverjum á Íslandi herbergi til leigu á 170 þúsund: „Nálægt Vínbúð“

„Aðgangur að eldhúsi til klukkan 22 á kvöldin. Leita að rólegum manni sem heldur engin partí.“
Myndir úr auglýsingunni „Aðgangur að eldhúsi til klukkan 22 á kvöldin. Leita að rólegum manni sem heldur engin partí.“

Janusz Marek Tracz auglýsti herbergi til leigu á Facebook síðu Pólverja búsettra á Íslandi í dag, 7. desember. Í auglýsingunni segir:

„Mig langar að leigja út herbergi við Mjóddina í Reykjavík strax. Verðið er 170 þúsund krónur.
Nálægt Vínbúð.
Aðgangur að eldhúsi til klukkan 22 á kvöldin. Leita að rólegum manni sem heldur engin partí.“

Á mynd sem fylgir með auglýsingunni má sjá herbergi sem samkvæmt ágiskun blaðamanns er í kringum sex fermetrar að stærð. Í því kemst fátt fyrir en tvíbreitt rúm og náttborð.

Fólk reiddist, hneykslaðist og hló

Viðbrögðin létu ekki á sér standa og svarendur lýstu reiði og hneykslun á auglýsingunni. Svörin skiptu tugum eða hundruðum. Sumir töldu þó að þetta hlyti að vera grín. Flestir lýstu hneykslun sinni á leiguverðinu sjálfu en sumir á athugasemdinni með vínbúðina. Einn þeirra segir: „Fólk í þörf getur ekki greitt 170 þúsund fyrir herbergið. Virðið er heldur ekki nema um 45 þúsund krónur.“

Janusz steig fram í athugasemdunum: „Af hverju skrifar fólk svona margar neikvæðar athugasemdir við þetta. Ef þið hafið ekki áhuga, þá þurfið þið ekkert að skoða þetta. Þetta er fyrir fólk í þörf.“ Í athugasemdum segir Janusz einnig að sjálfur leigi hann íbúð með þremur herbergjum og borgi 220 þúsund krónur fyrir.
Einn segir að Janusz hljóti að ætla sér að leigja öll þrjú herbergin út á 170 þúsund hvert og búa svo sjálfur í tjaldi við vínbúðina. Hann þurfi þá ekkert að vinna.

Blaðamaður DV hafði samband við Janusz og spurði hann út í herbergið og þetta háa verð. Sagði hann þá að búið væri að leigja herbergið út á 200 þúsund krónur. Hann sagði jafnframt að 10 manns byggju í íbúðinni og hver borgaði sama verð, sem kynni að renna stoðum undir samsæriskenningu mannsins í athugasemdunum.

Ekki allt sem sýnist

Þegar gengið var á Janusz kom í ljós að um einn allsherjar brandara var að ræða. Janusz Marek Tracz er ekki til og myndin af herberginu kom frá hóteli í borginni Gdansk í Póllandi. „Þetta var grín til þess að fá fólk til að velta vöngum yfir gríðarlega háu leiguverði. Ég vildi fá viðbrögð frá fólki.“

Kemur hátt leiguverð sér sérstaklega illa fyrir Pólverja á Íslandi? „Þeir ættu að vera brjálaðir. Þegar fólk fer að rísa upp gegn þessu þá gerist kannski eitthvað í þessum málum.“ Er fólk að nýta sér stöðu Pólverja sem eru margir í láglaunastörfum? „Ég veit það ekki. En ég hef séð herbergi til leigu á 120 þúsund krónur. Sjálfur leigi ég þriggja herbergja íbúð á Vogum í Vatnsleysuströnd á 160 þúsund krónur.“

Þekkirðu Pólverja sem hafa misst íbúðirnar og lent á götunni eða þurfa að búa í tjöldum eins og margir Íslendingar hafa þurft að gera? „Já. Ég veit um þá. Það versta sem ég veit er að fólk nýtir sér neyð annarra.“

„Janusz“, sem er 32 ára fjölskyldumaður, vill ekki gefa upp nafn sitt því hann segir að uppátækið gæti komið niður á sér persónulega. Hann hefur verið frá vinnu lengi eftir vinnuslys og tímann hefur hann nýtt sér til að kynna sér betur leigumarkaðinn og aðstæður fólks.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.