fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Dóttir Steinunnar Valdísar: „Reiðu karlarnir komu ekki bara heim til mín og sátu um heimilið mitt“

Auður Ösp
Fimmtudaginn 7. desember 2017 13:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er ekki lengur hrædd við reiðu karlana. Reiðu karlarnir komu ekki bara heim til mín og sátu um heimilið mitt. Reiðu karlarnir eru út um allt í samfélaginu,“ segir Kristrún Vala Ólafsdóttir, dóttir Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur fyrrverandi alþingiskonu og borgarstjóra en hún var 10 ára þegar móðir hennar varð fyrir umsátri hóps af mönnum fyrir utan heimili fjölskyldunnar árið 2010. Hún kveðst hafa verið hrædd við „reiðu karlana“ á sínum tíma og jafnvel fengið martraðir um að mennirnir væri komnir inn á heimilið. Lýsir hún tímabilinu sem martröð.

Umsátrið fyrir utan heimili Steinunnar Valdísar árið 2010 varð eftir að birtar voru upplýsingar um að Steinunn hefði þegið háa fjárstyrki frá stórfyrirtækjum fyrir prófkjör sitt árið 2006. Steinunn Valdís rifjaði atburðina upp í sjónvarpsþættinum Silfrið á dögunum og sagði meðal annars:

„Ég sat undir því að þekktir nafngreindir menn hvöttu aðra karlmenn til að fara heim til mín og nauðga mér. Þeir hvöttu til nauðgana á mér vegna starfa minna í stjórnmálum og vegna þeirra mála sem ég hafði barist fyrir sérstaklega í borgarstjórn og ég hugsa stundum, hvernig samfélagið hefði brugðist við og hvernig lögreglan hefði brugðist við ef að það hefði komið ákall frá þessum mönnum um að fara heim til Dags B. Eggertssonar og nauðga honum. Ég held að það hefði verið brugðist öðruvísi við.“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, birti yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni í kjölfar Silfursins og sagði aðförina að Steinunni vera „ljótan blett á íslenskum stjórnmálum eftirhruns áranna.“

Ljósmyndin er tekin þegar umsátrið við heimili fjölskyldunnar stóð yfir árið 2010 en Kristrún upplifði að eigin sögn mikið óöryggi og hræðslu við „reiðu karlana.“
Fékk martraðir Ljósmyndin er tekin þegar umsátrið við heimili fjölskyldunnar stóð yfir árið 2010 en Kristrún upplifði að eigin sögn mikið óöryggi og hræðslu við „reiðu karlana.“

Mynd: Mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson

Reyndi að vera sterk fyrir mömmu

Í frásögn sem Kristrún Vala dóttir Steinunnar birtir á facebooksíðu sinni greinir hún frá því hvernig hún upplifði atburðina sem lítil stúlka. Lýsir hún því hvernig hún var svipt öryggi sínu og þurfti jafnframt að horfa upp á móður sína verða fyrir miskunnarlausum aðdróttunum og hótunum.

„Einu sinni var stelpa. Hún var 10 ára gömul átti engin systkini en hún átti hund. Hún lifði frekar venjulegu lífi, fór í skóla, æfði íþróttir og eyddi tíma sínum í leikjum með vinum sínum. Foreldrar hennar voru frekar venjuleg. Pabbi hennar vann á auglýsingastofu og mamma hennar var alþingiskona og fyrrverandi borgarstjóri. Ókei, ekkert mjög venjulegt en það var frekar venjulegt fyrir henni. 10 ára gömul stúlkan kom heim einn daginn og þá biðu þær fréttir að um kvöldið myndi líklegast koma fólk, karlar, og standa fyrir utan heimilið.

Verandi barn skildi stúlkan lítið sem ekkert hvað það þýddi og lét það lítið á sig fá. Þangað til að fréttirnar urðu að veruleika. Stúlkan horfði út um eldhúsgluggann og sá þar karla, reiða karla, sem einhverra hluta vegna voru þarna vegna þess að reiðu karlarnir sögðu að mamma hennar væri vond. 10 ára gamalt barnið fór fram í stofu, stúlkan var hrædd, hún spurði hvers vegna, henni var svarað en hún skildi ekki hvers vegna.

Stúlkan vissi mæta vel að mamma hennar væri ekki vond, en hvers vegna voru karlarnir úti í garði að segja það? Stúlkan var hrædd við reiðu karlana. Stúlkan þorði ekki á æfingar vegna reiðu karlana. Hún gerði krók á leið sína heim til þess eins að þurfa ekki að hjóla framhjá reiðu körlunum. Einn daginn þurftu hún og vinkonur hennar að ganga framhjá reiðu körlunum. Þeir yrtu á þær og tóku myndir af þeim. Reiðu karlarnir tóku myndir af 10 ára gamalli stúlkunni og vinkonum hennar. Stúlkan og vinkonurnar voru miður sín þegar þær stigu inn heima hjá stúlkunni. Fullorðna fólkið inni sagði þeim að þær þyrftu að biðja þá um að eyða myndunum. Stúlkan og vinkonur hennar þurftu 10 ára gamlar að fara aftur út í hóp reiðu karlana og biðja þá vinsamlegast um að þurrka út myndirnar sem fullorðnu karlmennirnir tóku af ungu stúlkunum. Stúlkan var hrædd. Hún þóttist hafa talað við þá en hún þorði því ekki. Stúlkan reyndi að vera sterk, hún reyndi að vera sterk fyrir mömmu. Því hún vissi að mamma væri sterk. En stúlkan grét mikið inni hjá sér.

Í rúmar fimm vikur þurfti 10 ára gömul stúlkan að mana sig upp í að fara út af heimili sínu. Í rúmar 5 vikur grét stúlkan á kvöldin, stundum fékk hún martraðir um að reiðu karlarnir væru komnir inn í húsið. Stúlkan skildi aldrei til hins fyllsta hvers vegna karlarnir voru svona reiðir. Svo leið tíminn og á komandi árum byrjaði stúlkan að rekast á ummæli um mömmu hennar. Ekki ummæli eins og hún var vön, ekki venjuleg ummæli um stefnu móður hennar í stjórnmálum heldur ummæli um hennar persónu, um hennar líkama. Unga stúlkan las hótanir gegn móður hennar. Hótanir um nauðgun, hótanir um kynferðisofbeldi.

Enn og aftur skildi unga stúlkan ekki til hins fyllsta hvers vegna það mátti segja svona um mömmu hennar, hvers vegna það mátti hóta henni, hvers vegna það mátti sitja um hana. Fyrst það mátti gera þetta og segja svona við mömmu, þá hlaut að vera í lagi að segja svona um stúlkuna. Þá hlaut stúlkan að þurfa að sætta sig við það þegar hún yrði stór að ef hún segði skoðanir sínar og stóð með sér þá mætti segja svona um hana, þá mætti hóta henni og ofsækja hana. Þessi unga stúlka situr nú og skrifar sína sögu átta árum seinna. Hennar upplifun af martröðinni sem þessi tími var.

Hennar frásögn er eina frásögnin af þessum atburðum sem sögð er í gegnum augu og eyru saklausrar 10 ára gamallar stúlku. Hún var barn í heimi fullorðna og hún var barn sem þurfti að þykjast vera fullorðin. Ekki vegna þess að foreldrar hennar gerðu þær kröfur á hana, heldur vegna þess að reiðu karlarnir komu henni í þær aðstæður. Reiðu karlarnir létu ungu stúlkuna óttast að tjá sig, reiðu karlarnir urðu þess valdandi að unga stúlkan var ekki örugg á sínu eigin heimili.

Stúlkan þorir að tjá sig í dag. Stúlkan heitir Kristrún Vala og er 18 ára. Ég er ekki lengur hrædd við reiðu karlana. Reiðu karlarnir komu ekki bara heim til mín og sátu um heimilið mitt. Reiðu karlarnir eru út um allt í samfélaginu. Reiðu karlarnir hótuðu nauðgunum og hótuðu að sitja um heimili kvenna. Reiðu karlarnir hafa bælt niður skoðanir kvenna, í stjórnmálum, í listum, í menntakerfinu, í öllu samfélaginu. Nú er snjóboltinn farinn að rúlla og fá reiðu karlarnir það ekki stoppað.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt