Dönsk stjórnvöld íhuga að vista hælisleitendur á eyðieyjum

Flóttamenn á leið yfir Miðjarðarhaf.
Flóttamenn á leið yfir Miðjarðarhaf.

Danska ríkisstjórnin íhugar nú hvort vista eigi þá hælisleitendur, sem hafa fengið höfnun við umsóknum sínum, á eyðieyjum við Danmörku. Af nógu er að taka því um 300 eyðieyjar eru við Danmörku. Þessari hugmynd er nú velt upp í tengslum við gerð fjárlaga en það er Danski þjóðarflokkurinn sem setti þessa hugmynd fram fyrir nokkru og nú virðist hún njóta ákveðins hljómgruns hjá ríkisstjórninni.

Ríkisstjórnin, undir forystu Venstre, er minnihlutastjórn borgaralegra flokka og reiðir hún sig á stuðning Danska þjóðarflokksins sem ver stjórnina fyrir vantrausti og tryggir oft á tíðum málum hennar framgang á þingi. Danskir fjölmiðlar segja að þjóðarflokkurinn hafi sett kröfuna um að vista hælisleitendur á eyðieyjum fram í samningaviðræðum um fjárlög næsta árs en viðræður standa nú yfir og er ríkisstjórnin komin í tímaþröng með að ljúka málinu.

Berlingske hefur eftir Inger Støjberg, ráðherra útlendingamála, að hún sé reiðubúin til að skoða tillögu þjóðarflokksins betur en gat þess jafnframt að henni fylgi ákveðnar áskoranir, bæði praktískar og lagalegar. Hún benti á að oftast tækist að senda fólk fljótt úr landi eftir að hælisumsóknum þess hefur verið hafnað. Það að vista það á eyðieyjum geti lengt þetta ferli og gert það erfiðara. Hún benti einnig á að það geti verið dýrt að reisa flóttamannamiðstöð á eyðieyjum og að hugsanlega verði hægt að líkja þessu við frelsissviptingu og þá gæti hugsanlega verið um brot á Mannréttindasáttmála Evrópu að ræða.

Heimsendingar hælisleitenda, sem hafa fengið höfnun við hælisumsóknum, hafa lengi verið erfitt pólitískt mál og Støjberg hefur haft mikinn hug á að koma málum í annan farveg. Í byrjun september voru 921 hælisleitandi í ferli heimsendinga en þar af lá ljóst fyrir að 434 yrðu ekki sendir úr landi þar sem heimaríki þeirra vilja ekki taka við þeim eða þá að ekki telst öruggt að senda þá heim.

Hluti af þessum einstaklingum býr á Kærshovedgård, sem var áður fangelsi, en þar hefur verið komið upp brottfararmiðstöð fyrir hælisleitendur. Íbúar í nágrenni miðstöðvarinnar eru margir hverjir ósáttir við þessa starfsemi og segja að þetta skapi óöryggi á svæðinu og að margir hælisleitendanna séu viðriðnir afbrot.

Martin Henriksen, talsmaður Danska þjóðarflokksins í útlendingamálum, segir að ef ríkisstjórnin sé í alvöru opin fyrir þessum möguleika þá hljóti hún að setja embættismenn í að kanna hvað þarf að gera til að þetta geti orðið að veruleika. Hann sagði að ekki þurfi að hafa áhyggjur af kostnaði þessu samfara, þetta þurfi ekki að vera svo dýrt. Hugsanlega sé hægt að finna eyðieyju þar sem eru byggingar til staðar en einnig sé hægt að koma upp gámabyggð eða tjaldbúðum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.