Dönsk kona nýtur lögregluverndar vegna bókar hennar um „heiðursmorð“ og ofbeldi gegn konum – „Ég vona að þetta valdi breytingum á íslam“

Sara Omar.
Sara Omar.
Mynd: Skjáskot af vef Danska ríkisútvarpsins.

Dansk-kúrdíski rithöfundurinn Sara Omar nýtur nú lögregluverndar allan sólarhringinn vegna nýrrar bókar hennar „Dødevaskeren“ sem kom nýlega út í Danmörku. Bókin hefst svo sannarlega af miklum krafti með lýsingu á því þegar kúrdísk stúlka er myrt eftir að tungan hefur verið skorin úr henni og eyrun af henni. Þetta er refsingin fyrir að hafa valdið fjölskyldunni álitshnekki.

Í umfjöllun Danska ríkisútvarpsins (DR) um málið er haft eftir Sara að hún viti vel að bókin sé ofbeldisfull en fyrir sumar múslimskar konur sé raunveruleikinn svona ofbeldisfullur og það þarf að tala um þetta að hennar sögn. Með bókinn vill hún sýna dökku hliðarnar á menningu hennar og trú. Heiðursmorðin svokölluðu, sifjaspellin, félagslega stjórnun, kúgun á konum og ofbeldið.

Sara fæddist í Kúrdistan en fluttist til Danmerkur 15 ára gömul. Draumur hennar er að hrinda af stað umbótum á íslam. Hún segir að það sé erfitt fyrir fólk sem er alið upp í lýðræðislegu samfélagi að trúa því að konur séu jafn kúgaðar og beittar jafn miklu ofbeldi og hún lýsir í bókinni. Hún segist þekkja þetta vel af eigin raun, hún hafi upplifað þetta á eigin skinni, séð þetta gerast og fundið það.

„Það er mikilvægt að leggja áherslu á að þessi óhugnaður er ekki eingöngu bundinn við kúrdískt samfélag. Þetta gerist í öllum samfélögum í Miðausturlöndum. Þetta er alheimsvandamál sem við verðum að ræða.“

Sagði hún í samtali við DR. Hún segir að ekki sé hægt að horfa fram hjá því að ofbeldismenningin sem hún lýsir í bókinni eigi rætur að rekja til íslam og sé stýrt af íslam. Upptökin séu í kóraninum sem hún sjálf telur að eigi að túlka á mildari hátt og ekki eins bókstaflega. En það sé því miður ekki staðan í dag. Mörg dæmi séu um að atriði úr kóraninum hafi verið tekin upp sem samfélagslegar reglur í Miðausturlöndum og í samfélögum múslima á Vesturlöndum. Til dæmis segi kóraninn að karlar séu yfir konur hafnar því Allah hafi veitt þeim ákveðið forskot.

Hún segist ekki vera í stríði við íslam í sjálfu sér en telji að endurbætur á trúnni þurfi að koma til. Í kóraninum séu góð atriði en hann innihaldi einnig dökkar hliðar sem séu í ákveðnum hópum múslima notaðar sem einhverskonar leiðbeiningar um ofbeldi gagnvart konum og stúlkum.

Hún segir að bókin og boðskapur hennar sé vörn fyrir mannréttindi, hún hafi ekkert með hatur að gera. Þetta sé vörn fyrir réttindi kvenna og barna og réttinda þeirra til að vera frjáls.

„Það eru vandamál þarna úti sem við þurfum að horfast í augu við, hefja umræðu, ræða um og finna raunverulegar lausnir á. Hugsið ykkur ef maður segði: „Viðhorfið til kvenna í kóraninum er ekki í lagi, hvað eigum við að gera í því?“ Og síðan væri rætt um lausnir út frá þessu í stað þess að stimpla aðra sem rasista og hatursmenn íslam.“

Sagði Sara og tók fram að hún væri ekki að gagnrýna múslima sem heild í bókinni. Hún sé að segja frá raunverulegum vandamálum sem eru til staðar.

„Ég lyfti slörinu. Ég segi þér, hvernig þetta er fyrir konu eins og mig, og fyrir mjög margar aðrar konur og börn í samfélögum í Miðausturlöndum og hópum múslima. Ég opna dyrnar aðeins og býð þér inn í heim þar sem illska ræður ríkjum og ætti í raun og veru ekki að vera til á 21. öldinni.“

Sara gagnrýnir bæði hægri- og vinstrivæng stjórnmálanna og segir að þeir nálgist málið ekki á réttan hátt. Hún segir að Danski þjóðarflokkurinn, sem er mjög gagnrýninn á íslam og fólk frá ríkjum utan Vesturlanda, krefjist þess að hún og aðrir útlendingar verði „Danir“ og gleymi eigin uppruna. Það sé spurning hvað felist í því að vera Dani. Þaðan sem hún komi séu konur bara skuggar. Þjóðarflokkurinn ætti frekar að beina kröftum sínum að því að hjálpa fólki að verða að manneskjum, konur séu körlum óæðri í íslam og því væri betra hjá þjóðarflokknum að berjast fyrir jafnrétti og mannréttindum í stað þess að hafa áhyggjur af hvort hún borði svínakjöt.

Vinstriflokkarnir sleppa ekki heldur við gagnrýni hennar. Hún segir þá vilja vel en þegar upp er staðið þá séu þeir haldnir ákveðinni fælni því þeir þori ekki að tala um að vandamálinn séu ekki aðeins í menningunni heldur einnig að viðhorfin til kvenna í íslam og skortur á aldurstakmörkum á hvenær gifta má konu séu einnig vandamál. Það þurfi að þora að ræða um að mannslíf sé mikilvægara en bók sem var skrifuð fyrir mörg hundruð árum.

Sara Omar nýtur eins og fyrr sagði lögregluverndar þar sem umfjöllunarefni bókarinnar er vægast sagt eldfimt og fellur ekki í kramið hjá mörgum. Því er ekki tekin nein áhætta hvað varðar öryggi hennar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.