Þórdís Elva hitti Svíadrottningu á fyrirlestri: Hatur ekki lausnin

„Ég hef aldrei hitt einstakling sem var hataður til betra lífs“
Silvía og Þórdís „Ég hef aldrei hitt einstakling sem var hataður til betra lífs“

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, rithöfundur og fyrirlesari, vakti mikla athygli snemma á þessu ári þegar hún sagði sögu sína af kynferðisofbeldi, á Ted ráðstefnu ásamt gerandanum Tom Stranger. Tom, sem var kærasti Þórdísar árið 1996, nauðgaði henni eftir skólaball og skildu leiðir þeirra eftir það. Eftir átta ára langt ábyrgðarferli í formi bréfaskrifta hittust þau og skrifuðu bók um atvikið sem ber heitið Handan fyrirgefningar og Þórdís hefur fylgt bókinni eftir. Bókin hefur nú þegar verið útgefin í átta löndum og á næstu mánuðum stendur til að bæta Frakklandi, Danmörku og Suður Kóreu í þá flóru.

Svíadrottning innblásin af #metoo

Á þriðjudag, 4. desember, hélt Þórdís fyrirlestur hjá samtökunum World Childhood í Stokkhólmi fyrir á annað hundrað útvalda gesti. Meðal þeirra Silvía Svíadrottning sem stofnaði samtökin árið 1999 en aðalmarkmið þeirra er að útrýma kynferðisofbeldi gegn börnum.

Þórdís var upp með sér að hitta Silvíu og lýsir því í Facebookfærslu: „Í gær fékk ég þann heiður að bæta hinni ástsælu drottningu Svía á listann yfir lesendur mína þegar ég gaf henni sænskt eintak af Handan fyrirgefningar. Við áttum indælt samtal og vorum glaðar að komast að því að eigum sameiginlega vinkonu í Vigdísi Finnbogadóttur.“
Silvía fræddi Þórdísi um samtökin og hvernig þeim var tekið í byrjun. Þá hafi kynferðisofbeldi verið tabú og samtökin máttu þola fálæti og vandræðagang. Síðan þá hefur margt breyst og #metoo hefur veitt drottningunni innblástur og hvatningu í baráttunni.

Hatur og skrímslavæðing ekki lausnin

Þórdís segist hafa undrast á því að samtökin hafi leitað til hennar þar sem hún hafði ekki litið á sig sem barn þegar hún varð fyrir brotinu. „Ég var 16 ára þegar ég var beitt kynferðisofbeldi af fyrsta kærastanum mínum og mér fannst ég mjög fullorðin þegar það gerðist. Það er búið að taka mig töluverðan tíma að horfast í augu við að ég var ennþá barn og finna því stað í sjálfsmynd minni.“

Á fyrirlestrinum gagnrýndi hún staðalímyndir um kynferðisbrotamenn. „Ég deildi sögunni minni og undirstrikaði hvernig skrímslavæðing (hugmyndin um að gerendur séu ill, siðblind skrímsli sem ráðast á mann eða lokka mann inn í dimm skúmaskot) er skaðleg öllum, þolendum, gerendum og samfélaginu í heild. Önnur staðreynd sem við virðumst oft líta framhjá er að margir gerendur eru á barnsaldri, sjálfir. Þegar ofbeldi er annars vegar er freistandi að mála heiminn í svarthvítu og skipta honum upp í 'fólk' vs 'skrímsli' en við verðum að þora að sjá hin litbrigðin ef okkur er alvara með að uppræta þennan heimslæga faraldur. Við verðum að trúa því að hægt sé að endurhæfa þá sem hafa beitt ofbeldi, sérstaklega unga gerendur sem eiga alla ævina fyrir höndum.“

Þórdís segir hatrið ekki lausnina þó það sé freistandi og að enginn hafi breytt hegðun sinni til hins betra vegna haturs annarra. „Sama hversu freistandi það er að hata, þá mun það ekki leiða af sér breytingarnar sem við þurfum mest á að halda. Ég hef aldrei hitt einstakling sem var hataður til betra lífs. Á hinn bóginn hef ég hitt einstaklinga sem tókst að venda kvæði sínu í kross og verða hluti af lausninni vegna þess að einhver trúði á getu þeirra til þess.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.