Þau áttu bara að lagfæra styttuna – Fundu þá 240 ára gömul skilaboð á undarlegum stað

Mynd: Skjáskot af YouTube

Gamlar styttur geta verið áhugaverðar og gaman að skoða þær. Ekki skemmir fyrir að þær geta stundum búið yfir duldum boðskap. Því komust spænskir forverðir að nýlega þegar þeir hófust handa við að lagfæra gamla styttu en í henni fundu þeir 240 ára gömul skilaboð á undarlegum stað.

Sciencealert skýrir frá þessu. Styttan er af Jesú á krossinum og er hún dagsdaglega í Santa Águeda kirkjunni í Sotillo de lar Ribera. Komið var að viðgerðum á styttunni og því voru forverðir fengnir til starfans. Þegar þeir fjarlægðu hluta af rassi styttunnar fundu þeir handskrifað bréf sem er dagsett 1777.

Bréfið var skrifað af prestinum Joaquin Minguez, sem starfaði í kirkjunni í Burgo de Osma, sem er norðaustan við Madrid. Í bréfinu segir að sá sem gerði styttuna sé Manuel Bal en hann er talinn hafa verið listamaður sem starfaði á svæðinu í kringum San Bernardo de Yague og Campillo. Minguez segir einnig frá öðrum verkum Bal og lýsir lífinu eins og það var á þeim tíma þegar hann skrifaði bréfið.

Í bréfinu segir hann einnig að konungur landsins sé Carlos III og að hveiti, bygg, rúg, hafrar og vínber séu helstu tegundirnar sem bændur á svæðinu rækta. Hann segir einnig að algengustu sjúkdómarnir séu malaría og taugaveiki og að fólk stytti sér helst stundir við að spila á spil og boltaleiki.

Hér er hægt að sjá myndband af styttunni og forvörðunum þegar þeir fundu bréfið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.