Skúli Jóa óskar eftir aðstoð fyrirtækja til að gleðja fátækar fjölskyldur um jólin: „Ógleymanleg jól í staðinn fyrir engin jól“

Skúli Jóa vill láta gott af sér leiða um jólin.
Sjómaður og snappari Skúli Jóa vill láta gott af sér leiða um jólin.

„Ég vil gefa þessum fjölskyldum ógleymanleg jól í stað fyrir enginn jól,“ segir sjómaðurinn og snapparinn Skúli Jóa. Skúli óskar eftir aðstoð fyrirtækja og þeirra einstaklinga sem vilja láta gott af sér leiða yfir hátíðirnar.

Skúli Jóhannsson, eða Skúli Jóa eins og hann er betur þekktur, er sjómaður og hefur síðastliðin ár gefið fjölskyldum, sem eiga erfitt, fisk um jólin. Í ár ætlar hann að sjá til þess að þessar fjölskyldur muni eiga gleðileg jól.

Skúli Jóa er vinsæll á Snapchat og vill nota vinsældir sínar til að hjálpa öðrum.

„Mig langar að nota Snapchat til góðs. Sjálfur ætla ég að gefa fisk því ég er sjómaður. Svo eru komin nokkur fyrirtæki sem ætla að gefa kjöt og alls konar glaðning. Ég óska eftir aðstoð frá fyrirtækjum sem vilja leggja sitt að mörkum. Þau fyrirtæki sem vilja taka þátt geta haft samband við mig á Snapchat. Svo hvet ég að sjálfsögðu einstaklinga sem vilja hjálpa að hafa einnig samband við mig.“

Snapchat Skúla Jóa er @skulijoa.

Fimm fjölskyldur fá glaðning

„Ég ætla að gefa fimm fjölskyldum sem eiga sárt að binda um jólin glaðning. Ég er sjómaður og ætla því að flaka fisk fyrir þau. Ég hef gefið fjögurra manna fjölskyldum nóg af fiski fyrir allavega þrjár máltíðir síðustu ár. En ég hef aldrei gert þetta eins stórt og nú. Ég vill fá fyrirtæki á Íslandi með mér í lið til að gefa þessum fjölskyldum eitthvað um jólin,“ segir Skúli og bætir því við að það hafa nokkur fyrirtæki slegist í lið með honum nú þegar.

„Ég er á sjó núna en það eru fleiri fyrirtæki sem vilja tala við mig þegar ég kem í land. Ég mun tala um það á Snapchat hvaða fyrirtæki það eru sem hafa hjarta í sér að hjálpa þeim sem minna mega sín og eru ekki einungis að hugsa um hagnað og græðgi rétt fyrir jól.“

Skúli mun ekki að velja fjölskyldurnar sjálfur heldur ætlar hann að ræða við sveitarfélög og fá ábendingu um fjölskyldur sem þurfa hjálp um jólin.

„Þetta eru fjölskyldur sem sjá kannski ekki fram á að halda jól. Ég vil gefa þessum fjölskyldum ógleymanleg jól í stað fyrir enginn jól.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.