Komið í veg fyrir sjálfsmorðsárás öfgasinnaðra múslima á breska forsætisráðherrann – Tveir handteknir

Theresa May fyrir framan Downing Street 10.
Theresa May fyrir framan Downing Street 10.
Mynd: EPA

Breska leyniþjónustan MI5 og Scotland Yard komu í síðustu viku í veg fyrir sjálfsvígsárás á Theresa May, forsætisráðherra, og eru tveir menn í haldi lögreglunnar vegna málsins. Þeir eru sagðir vera öfgasinnaðir íslamistar. Mennirnir verða færðir fyrir dómara í dag þar sem þeim verður birt ákæra vegna málsins.

Sky-fréttastofan skýrði frá þessu í nótt. Sky segist hafa heimildir fyrir að yfirmaður MI5 hafi skýrt ríkisstjórn landsins frá þessu í gær en málið sé talið mjög alvarlegt.

Eftir því sem segir í umfjöllun Sky þá ætluðu öfgasinnaðir íslamistar að sprengja sprengju í Downing Street, þar sem embættisbústaður forsætisráðherrans er, og nýta sér ringulreiðina sem myndi fylgja í kjölfarið til að komast nærri Theresa May og myrða hana.

MI5, Scotland Yard og lögreglan í West Midlands hafa unnið að rannsókn málsins í nokkrar vikur. Í síðustu viku voru síðan tveir menn handteknir en þeir eru grunaðir um hafa verið að undirbúa árásina. Mennirnir tveir, Naa‘imur Zakariyah Rahman (20 ára) og Mohammed Aqib Imran (21 árs), eru frá Birmingham. Þeir munu koma fyrir dómara í dag þar sem þeim verður birt ákæra.

Talsmenn MI5 skýrðu frá því í gær að leyniþjónustan hefði komið í veg fyrir níu hryðjuverkaárásir í Bretlandi á undanförnu einu ári en nokkrar árásir tókust. Í mars var ekið á gangandi vegfarendur við Westminster Bridge og lögreglumaður stunginn til bana. Árásarmaðurinn, Khalid Masood, var skotinn til bana en hann náði að verða fimm manns að bana áður.

Í maí létust 22 á tónleikum í Manchester Arena þegar Salman Ramadan Abed sprengdi sprengju þar.

Í júní létust 11 þegar hryðjuverkamenn óku á fólk á London Bridge og réðust síðan að vegfarendum með hnífum.

Maður lést í Finsbury Park moskunni í september en það mál tengist hryðjuverkum. Í september mistókst ódæðismönnum að sprengja sprengju á Parsons Green lestarstöðinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.