Gunnar í Krossinum minnist morðs á móður sinni og segist þakklátur að hún hafi verið látin þegar hann var sakaður um kynferðisbrot

Mynd: © Kristinn Magnússon

Gunnar Þorsteinsson, yfirleitt kenndur við sinn gamla söfnuð í Krossinum, fyrirgaf morðingja móður sinnar, Elís Helga Ævarssyni, eftirminnilega í Sjálfstæðu fólki á Stöð 2 en svo virðist sem hann geti ekki fyrirgefið þeim konum sem sökuðu hann um kynferðislega áreitni. Á Facebook-síðu sinni setur Gunnar morð móður sinnar í samhengi við ásakanir um meint kynferðisbrot sín en Gunnar segir að reynt hafi verið að „mannorðsmyrða“ hann.

„Um þessar mundir eru átján ár síðan elskuleg móðir mín var myrt. Það voru dimmir dagar. Minningarnar um hana eigum við og þær eru bjartar. Við vorum alla tíð í góðu sambandi. Ég er að nokkru þakklátur fyrir að hún þurfti ekki að reyna þá ógnaröld sem kom í gegn mér og endað með að reynt var að mannorðsmyrða mig með fölskum sakagiftum. Þegar sá hjó er hlífa skildi. Að bíða niðurstöðu rannsóknar vegna falskrar ákæru og eiga yfir höfði sér tveggja ára fangelsi er ekki á nokkurn leggjandi. Réttlæti sigra að lokum og nú er móðir mín í örmum þess sem síðastur gengur fram á foldu,“ skrifar Gunnar.

Sjö konur sökuðu Gunnar

Árið 2011 sökuðu sjö konur Gunnar um að hafa brotið á sér kynferðislega og lét Gunnar í kjölfarið af störfum hjá Krossinum. Ein þeirra, Sigríður Guðnadóttir, fyrrverandi mágkona Gunnars, sagði að hann hefði áreitt sig kynferðislega þegar hún var fjórtán ára gömul og bjó ásamt móður sinni á neðri hæð heimilis.

Önnur kona, Ólöf Dóra Bartels, sagði í grein sem hún sendi til fjölmiðla að Gunnar hafi brotið á sér frá 15 ára aldri: „Gunnar, þú veist manna best hvað þú gerðir mér. Þú misnotaðir vald þitt og stöðu sem andlegur trúarleiðtogi minn til á brjóta á mér. Þú áreittir mig munnlega frá 15 ára aldri og fórst með hendur þínar inn á brjóst mín og kynfæri, innanklæða þegar ég var enn undir tvítugu. Þú fórst með fingur upp í leggöng mín. Þetta veistu mætavel, en leyfir þér samt sem áður að gera lítið úr brotum þínum í fjölmiðlum. Er það lítið brot að misnota stöðu sína á þennan hátt gagnvart ungri og óspjallaðri stúlku, sem treysti þér og leit upp til þín sem andlegs trúarleiðtoga? Er það lítið brot að biðja mig um að hafa samfarir við þig á gólfi samkomusals Krossins (jafnvel þó þú hafir ekki fengið vilja þínum framgengt)?“

Árið 2011 var kæru á hendur Gunnari vísað frá en saksóknari taldi að ekki hafi verið grundvöllur fyrir frekari rannsóknum í málinu.

Fékk ekki miskabætur í meiðyrðamáli

Gunnar stefndi síðar Steingrími Sævarri Ólafssyni, fyrrverandi ritstjóra Pressunnar, Ástu Knútsdóttur og Sesselju Engilráð Barðda,l fyrir meiðyrði. Hluti ummæla voru dæmd ómerk en kröfu Gunnars Þorsteinssonar um miskabætur var vísað frá dómi. Gunnar hrósaði sigri meðan Þór Jónsson, sá blaðamaður sem skrifaði flestar fréttir Pressunnar um málið, sagði að það eina sem var dæmt dautt og ómerkt hafi verið ummæli viðmælenda í einni frétt af mörgum. Allt annað hafi staðið.

Við aðalmeðferð málsins báru konur sem sökuðu hann um kynferðislegt ofbeldi vitni. Ein þeirra, Valdís Rán Samúelsdóttir, sagði að brot Gunnars gegn sér hafi staðið yfir lengi. „Þú fyrirgefur ekki manni sem hefur misnotað vald sitt í mörg mörg ár. Þótt hann hafi brotið á mér einu sinni, þá erum við að tala um langt tímabil þar sem hann braut á mörgum ungum stúlkum,“ sagði hún í réttarsal.

Önnur kona, Ásta Sigríður H. Knútsdóttir, talskona kvennanna sjö sem sökuðu Gunnar Þorsteinsson um kynferðisofbeldi, sakaði Gunnar um hótanir í réttarsal. „Það voru símhringingar, hótanir inn á talhólf, heimsóknir. Jónína hótaði, sonur Gunnars hótaði. Staðan var orðin þannig að konurnar voru svo skelkaðar að þær þorðu ekki út úr húsi,“ sagði Ásta.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.