Fer að draga til tíðinda í Kóreu? Kínverskt ríkisdagblað birtir leiðbeiningar um hvernig á að lifa kjarnorkuárás af

Mynd: Ríkisfréttastofa Norður-Kóreu.

Ríkisdagblaðið í kínversku borginni Jilin birtir í dag heilsíðu með upplýsingum til almennings hvernig sé best að hegða sér ef til kjarnorkuárásar kemur. Jilin er næst stærsta borg Jilin-héraðs en það liggur einmitt að Norður-Kóreu. Kínversk stjórnvöld hafa lýst yfir áhyggjum sínum að kjarnorkuvopnabrölti Norður-Kóreu og hafa einnig beðið Bandaríkin og Suður-Kóreu um að hætta að ögra einræðisstjórninni í Norður-Kóreu.

Nú fer umfangsmikil heræfing herja Bandaríkjanna og Suður-Kóreu fram á og við Kóreuskaga og í dag munu bandarískar sprengjuflugvélar fljúga yfir Kóreuskaga en það er liður í æfingunni. Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa varað við því að heræfingin geti ýtt Kóreuskaga fram á brún kjarnorkustyrjaldar.

Í kínverska dagblaðinu er hvergi minnst á Norður-Kóreu í tengslum við hugsanlega kjarnorkuárás. Þess í stað er því lýst hvernig kjarnorkuvopn eru frábrugðin hefðbundnum vopnum og fólki er leiðbeint um hvernig það geti verndað sig ef til kjarnorkustríðs kemur. Með greininni eru teikningar til að útskýra enn betur fyrir fólki hvernig það á að bregðast við eftir því sem segir í umfjöllun Jótlandspóstsins.

Norður-Kórea skaut þróuðustu eldflaug sinni til þessa á loft í síðustu viku en þessi tegund eldflauga er talinn geta dregið allt til meginlands Bandaríkjanna. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur varað stjórnvöld í Norður-Kóreu við og sagt að hann muni gera út af við einræðisstjórnina ef hún ógnar Bandaríkjunum með kjarnorkuvopnum.

Kínversk stjórnvöld hafa margoft þvertekið fyrir að hernaður sé eitthvað sem komi til greina gegn Norður-Kóreu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.