Hryllingur á íslenskum heimilum: „Elsku mamma mín, af hverju ertu orðin svona?

Ragnheiður Jónína Sverrisdóttir hefur rannsakað ofbeldi og vanrækslu í æsku og áhrif þess á heilsu og félagslega stöðu á fullorðinsárum

Helga varð fyrir því að faðir hennar sprengdi í henni hljóðhimnuna með barsmíðum fyrir það eitt að hún bar fram rangt orð á dönsku við heimalærdóminn. Lára vann einu sinni það verkefni í skóla að klippa út frétt úr blaði og segja bekknum frá henni. Fréttin sem hún valdi var um mann sem hafði framið fimm vopnuð rán á fjórum dögum. Þegar hún kom heim úr skólanum þennan dag rann upp fyrir henni að maðurinn í fréttinni var faðir hennar. Önnur börn horfðu upp á föður sinn misþyrma móður þeirra eða systkinum með ólýsanlegum hætti og brjóta allt og eyðileggja í íbúðinni.

Þetta er aðeins lítið brot af þeim hörmungum og þjáningum sem lýst er í meistararitgerð Ragnheiðar Jónínu Sverrisdóttur í félagsfræði sem ber heitið „Þegar eitthvað svona brotnar inni í manni“ – Upplifun og afleiðingar ofbeldis og vanrækslu í æsku á heilsu og lífsgæði. Í ritgerðinni er rætt við 12 einstaklinga á nokkuð breiðu aldursbili sem allir eiga sameiginlegt að hafa orðið fyrir ofbeldi eða vanrækslu í æsku, oftast hvorutveggja. Eins og undirtitill verksins gefur til kynna er viðfangsefnið að kanna áhrif slíkrar lífsreynslu í æsku á heilsu og lífsgæði fólks síðar á lífsleiðinni, en ljóst er bæði af rannsókn Ragnheiðar og öðrum rannsóknum að þarna á milli er fylgni hvað varðar ýmis heilsufarsleg og félagsleg vandamál. Leiðbeinandi við gerð ritgerðarinnar var dr. Ingólfur V. Gíslason.

Áður en lengra er haldið verður ekki hjá því komist að stikla á stóru í þeim sláandi frásögnum sem er að finna í ritgerðinni. Af þeim lestri verður ljóst að óhugnanlegt ofbeldi hefur lengi þrifist í fjölskyldum hér á landi og gerir enn, en fer oft leynt.

„Það var gífurlegt ofbeldi á heimilinu semsagt faðir minn drakk mikið og þá gekk hann bersersksgang og barði allt og alla í kringum sig. Hann skaðaði mömmu, skar hana með hnífum, beitti vopnum. Það var allt mölvað og brotið og hent út um glugga.“

Óttatilfinningin fyrsta minningin

Viðmælendur Ragnheiðar koma ekki fram undir réttu nafni í ritgerðinni. Meðal þeirra er kona á þrítugsaldri sem gengur undir nafninu Lára. Í einu atriði birtist sláandi munur á blænum sem er yfir hennar æskuminningum og minningum þeirra sem ekki hafa orðið fyrir ofbeldi í æsku: Æskuminningar hennar eru gegnsýrðar ótta og fyrsta æskuminning hennar er óttatilfinning:

„Lára sagði sína allra fyrstu minningu úr barnæsku vera mikla óttatilfinningu. Minningin er sú að móðir hennar vakti hana þá aðeins fimm eða sex ára gamla um miðja nótt og vildi fá félagsskap hennar. Lára fann að mamma hennar var allt öðruvísi en venjulega.“

„Já ég var alveg skíthrædd, vissi ekkert hvað ég átti að gera. Ég vaknaði og sá að móðir mín var ekki eins og hún var vön að vera [...] augun voru rauð og röddin skrækari en vanalega, mamma var drukkin, hún var blindfull. Ég man að faðir minn var ekki heima en hann var svo oft ekki heima. Ég vakti systur mína sem er tveimur árum yngri og við hágrétum saman vegna hræðslu. Það var ekki mikið sofið þessa nótt.“

Skilin eftir í blóðinu og glerbrotunum

Helga er annar viðmælandi, kona um sextugt sem bjó við mikið andlegt og líkamlegt ofbeldi og mikla vanræsklu alla sína barnæsku. Móðir hennar var fötluð og faðirinn alkóhólisti sem beitti móðurina ólýsanlegu ofbeldi:

„Það var gífurlegt ofbeldi á heimilinu semsagt faðir minn drakk mikið og þá gekk hann bersersksgang og barði allt og alla í kringum sig. Hann skaðaði mömmu, skar hana með hnífum, beitti vopnum. Það var allt mölvað og brotið og hent út um glugga. Svo kom lögreglan og tók hann út í handjárnum og mamma var flutt á spítala æði oft, mikið slösuð eftir hann.“

Ritgerðarhöfundur spurði Helgu hvernig henni og systkinum hennar hefði verið sinnt af öðru fólki eftir slíkar hryllingsuppákomur og svarið er nöturlegt: „Ég spurði hana um systkini hennar og hvort enginn hefði talað við þau börnin og sinnt þeim eftir slíkar uppákomur. Hún sagði svo ekki vera, þau hefðu bara verið skilin eftir í blóðinu og glerbrotunum.“

„Ég man eftir mér fjögurra ára, þá hafði hann hent öllu út um eldhúsgluggann, semsagt mölvað allt í eldhúsinu og tekist að skera mömmu niður handlegginn [...] það var mikið blóð. Bræður mínir beittu mig ofbeldi þeir ..... ég náttúrulega grenjaði og hljóp á eftir sjúkrabílnum sko. Ég átti að þrífa upp blóðið og skúra af því að ég var stelpa.“

Faðir Helgu sprengdi í henni hljóðhimnuna með misþyrmingum:

„Hún nefndi eitt dæmi þar sem faðir hennar refsaði henni með miklu ofbeldi og gengu barsmíðarnar það langt að hann sprengdi í henni hljóðhimnuna, fyrir það eitt að bera rangt fram dönsku sem hún var að læra heima.“

Helga lýsir einnig ömurlegri dvöl hennar og bróður hennar síns á vistheimili sem þau voru sett á, þar sem þau voru niðurlægð og sættu refsingum:

„Helga á greinilega slæmar minningar frá dvölinni á þessu barnaheimili þar sem hún lýsti mikilli grimmd.
Einnig sagði hún frá refsingum fyrir minnstu yfirsjónir sem ýmist voru í formi sviptingar matar eða einhvers konar niðurlægjandi framkomu. Hún lýsti einu tilviki eftir að þau systkini reyndu að strjúka: „Þá vorum við klædd í blaut ullarnærföt og látin standa út í glugga, öðrum víti til varnaðar“.

„Ég man eftir mér fjögurra ára, þá hafði hann hent öllu út um eldhúsgluggann, semsagt mölvað allt í eldhúsinu og tekist að skera mömmu niður handlegginn [...] það var mikið blóð.“

Stefán, sextugur karlmaður, sem hefur búið lengi í Bandaríkjunum, lýsir ótrúlega viðurstyggilegu ofbeldi föður síns í garð móður Stefáns og systkina hans:

„Áður en ég fæddist þá lá eldri bróðir minn út við húsvegg í hvaða veðrum sem var því hann þoldi ekki djöfulganginn sem gekk inni á heimilinu, rifrildið, öskrin og barsmíðarnar endalaust, brotin húsgögn og allt eftir því. Það sem var kannski skelfilegast við þetta var að karlinn var alltaf að beina byssum og rifflum og haglabyssum að henni og berja hana með vasaljósum og einu sinni tók hann klaufhamar upp á milli sæta í bílnum þar sem að hún keyrði og hann var eitthvað illa fyrirkallaður og hún sneri ekki til vinstri nákvæmlega þegar hann sagði þá tók hann bara upp klaufhamarinn og lét vaða í andlitið á henni. Hún gekk yfirleitt um með sólgleraugu. Ég botna eiginlega ekki í hvernig hún lifði þetta af.“

„Þó faðir Stefáns hafi ekki beitt hann miklu líkamlegu ofbeldi var sífelld ógn yfirvofandi enda hlaðnar byssur yfirleitt ekki langt undan, hann horfði upp á ofbeldið gegn móður sinni og bróður og vissi síðar af því að faðirinn misnotaði systur hans kynferðislega og hefur hún aldrei náð sér.“

„Ævi Stefáns hefur verið þyrnum stráð, móðir hans flúði með hann til Íslands og giftist síðar íslenskum manni og það tók lítið betra við því Stefán fann sig alltaf óvelkominn og þurfti að vinna mikið sem barn og upplifði mikla höfnun og útskúfun.“

Hógværar óskir um eðlilegt líf

Flestir viðmælendur Ragnheiðar ólust upp við mikla óreglu og þau óskuðu þess heitt að upplifa eitthvað af því eðlilega heimilislífi sem þau sjá hjá vinum sínum:

„Lára sagðist hafa saknað þess mikið að hafa ekki reglu á heimilinu, sagðist hafa óskað þess svo heitt að eiga að koma heim í mat eins og hinir krakkarnir í hverfinu, að vera vakin til að fara í skólann eða yfir höfuð að hafa einhverjar reglur og ramma á heimilinu. Lára minntist þess einnig að hafa oft ekki fengið mat í skólanum því það var ekki búið að borga fyrir hana. Það var ekki nóg að hafa þurft að fara úr röðinni án þess að fá mat og vera svöng heldur var skömmin líka svo mikil yfir að vera vísað frá fyrir framan hina krakkana. Hún nefndi líka að sjaldnast hafi hún getað farið með í skólaferðalög eða annað sem útheimti fjárútlát. En þetta voru ekki einu vandamálin því að hennar sögn var heimilislífið meira og minna verið litað af óreglu foreldranna. Hún sagðist til dæmis ekki geta gleymt páskadeginum þegar hún var átta ára gömul:“

„Ég og systur mínar vöknuðum snemma morguns til að leita að páskaeggjunum okkar en við komum að móður okkar blindfullri á gólfinu inni í stofu.“

Í bréfi sem Lára skrifaði móður sinni síðar birtast einnig hógværar óskir hennar um eðlilegt heimilislíf:

„Elsku mamma mín ég veit ekki hvar ég á að byrja […] Af hverju ertu orðin svona? Af hverju finnst þér lífið svona erfitt? Mér finnst rosalega erfitt að horfa upp á þig og pabba kasta lífinu burt, mig langar svo að geta talað við ykkur eðlilega og að allt sé gott. Mig langar að þú verðir venjuleg og við getum gert skemmtilega hluti saman, t.d. fara í sund, ræktina, út að borða eða í bíó. Það er ekki orðið of seint fyrir ykkur að snúa blaðinu við en elsku mamma mín það er ekki langt þangað til að það verði of seint og þú veist það. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þú þarft að vinna úr rosalega miklu og þér líður alveg rosalega illa.“

Líkamlegar, andlegar og félagslegar afleiðingar af ofbeldi í æsku

Hér að framan eru aðeins birt brotabrot af þeim átakanlegu frásögnum sem finna má í ritgerðinni. Sjá nánar hér. Ragnheiður ræðir við samtals 12 einstaklinga og auk æskusögu þeirra er því lýst hvernig þeim hefur reitt af í lífinu með þessa æskureynslu í farteskinu. Auk þessa og fleiri lýsinga á heimilisofbeldi er greint frá kynferðislegu ofbeldi, andlegu ofbeldi og einelti. Enn fremur er vanræksla eins og rauður þráður í gegnum allar reynslusögurnar. Um vanrækslu segir í ritgerðinni:

„Vanræksla er annar flokkur innan skilgreiningar- og flokkunarkerfisins þar sem barn er þolandi og er oftast skipt í fjóra flokka. Það er líkamleg vanræksla þar sem til dæmis næringu, hreinlæti og svefni er ekki sinnt. Undir annan flokk fellur svo skorti á eftirlti sem snýr að almennu öryggi barns, t.d. ef barn er skilið eftir án eftirlits. Vanræksla varðandi nám fellur í þriðja flokk. Fjórði flokkur felur í sér að vera ekki til staðar og sinna ekki tilfinningalegum þörfum barns, sýna ekki ástúð og svo framvegis.“

Ragnheiður bendir á afleiðingar af líkamlegu og andlegu ofbeldi í æsku ásamt vanrækslu hafi lítið verið rannsakaðar:

„Ég vildi þarna benda á að bæði stúlkur og drengir verða fyrir ofbeldi sem og konur og karlmenn af hendi kvenna og karla. Kynferðisofbeldi hefur helst verið rannsakað og er að sönnu alvarlegt og afleiðingarnar yfirleitt afdrifaríkar fyrir þolendur. Því má hins vegar ekki gleyma að annað ofbeldi hefur einnig slæm áhrif á líf og heilsu þolenda. Ég tel að vanræksla hafi verið stórlega vanmetin en hún getur haft verulega alvarlegar afleiðingar á börn og fram á fullorðinsár.“

Ragnheiður segir að afleiðingar af kynferðisofbeldi séu síst ofmetnar en annað ofbeldi og afleiðingar þess hafi nokkuð fallið í skuggann af kynferðisofbeldi. Fólk sem hafi orðið fyrir líkamlegu ofbeldi, andlegu ofbeldi og vanrækslu geri sér oft ekki grein fyrir því hvað það hefur haft slæmar afleiðingar og botnar kannski ekki fyllilega í vanlíðan sinni. „Margt af samferðarfólki mínu hefur sagt mér frá ofbeldi og áföllum í lífi sínu en ef það var ekki kynferðisofbeldi var oft eins og fólki þætti það ekki nógu slæmt til að leita aðstoðar, því það væri ekki nógu alvarlegt til að aðhafast frekar,“ segir Ragnheiður. Aðgengi að aðstoð vegna ofbeldis hefur ekki verið mjög gott eða sýnilegt, en það er sem betur fer að verða breyting á því.

Sterk tengsl eru á milli geðrænna vandamála á fullorðinsárum og ofbeldis í æsku samkvæmt sögum fólksins í rannsókn Ragnheiðar og samræmist það einnig fjölda erlendra rannsókna, bæði eigindlegra og megindlegra. Má þar nefna þunglyndi, kvíða, persónuleikaraskanir og áfallastreituröskun og þá sérstaklega flókna áfallastreituröskun (CPTSD), oft kallað uppsöfnuð áfrallastreita. Ragnheiður segist aldrei hafa getað sætt sig við þá skýringu að geðsjúkdómar stöfuðu eingöngu af líffræðilegum þáttum og hún telur að sjúkdómsgreiningar dugi skammt einar og sér – það sé mikilvægt að skoða lífssögu einstaklingsins: „Ég gat ekki kyngt því að geðraskanir væru mestmegnis af líffræðilegum toga. Ég taldi og tel enn að ofbeldi og vanræksla í bernsku séu upphafið að erfiðri lífsgöngu margra. Þetta er oft fólkið sem dettur af vinnumarkaði og verður öryrkjar, ánetjast vímugjöfum, fremur afbrot og svo framvegis,“ segir hún.

Vefjagigt og önnur stoðkerfisvandamál virðist algeng hjá þeim hafa þolað ofbeldi eða vanrækslu í æsku. Þó að ekki sé hægt að sanna orsakasamhengi varðandi aðra sjúkdóma þá ber þó að nefna að hjarta- og æðasjúkdómar, krabbamein, langvinnir lungnasjúkdómar og þrálátar sýkingar eru algengar meðal viðmælenda Ragnheiðar og í einnig þeim rannsóknum sem hún vitnar í. Almennt virðast þessir 12 einstaklingar í ritgerðinni búa við slæma heilsu. Helga nefndi til dæmis hversu mikil veikindi dynja á henni núna eftir að hún hætti að geta unnið myrkranna á milli, loksins þegar ofbeldinu linnti og allt fór að róast í kringum hana þá var eins og þunglyndi og kvíði helltust yfir hana ásamt miklum líkamlegum veikindum en hún hafði áður deyft sig með mikilli vinnu.

„Félagsleg staða þeirra flestra er líka slæm og margir eru öryrkjar. Auk ofangreindra vandamála hafa þau mörg átt við vímuefnavanda að etja, sem og sjálfsvígshugsanir og mörg þeirra gert sjálfsvígstilraunir. Karlmenn voru í meirihluta sem nefndu þetta í viðtölunum en þó hafa fleiri og þar á meðal konur nefnt við mig eftir að þau lásu ritgerðina að þau hafi haft og hafi enn sjálfsvígshugsanir,“ segir Ragnheiður. Um hættuna á að verða fyrir ofbeldi síðar ævinni segir hún:

„Þeim sem búa við ofbeldi og vanrækslu í æsku virðist hættara við að lenda í ofbeldi síðar á ævinni, einelti eða makaofbeldi til dæmis. Ein af ástæðunum er að fólk hefur lært að lifa af í erfiðum aðstæðum og normalísera þær. Hættan er því sú að þau haldi áfram að normalísera óeðlilegar aðstæður og sætti sig við slæmar aðstæður og framkomu eða komi sér síður úr skaðlegum aðstæðum. Án úrvinnslu og aðstoðar við að vinna úr erfiðum afleiðingum er hætta á að þarna verði vítahringur sem erfitt sé að komast úr og þannig molnar heilsan, bæði andleg og líkamleg.“

Meistaragráða á sextugsafmælinu

Ragnheiður Jónína Sverrisdóttir hefur fengist við margt um ævina en upp úr fimmtugu skellti hún sér í nám í sálfræði og útskrifaðist með BS-gráðu úr faginu árið 2014. Hún bætti síðan við sig viðbótardiplóma í afbrotafræði og meistaragráðu í félagsfræði og er nú útskrifuð eftir þetta áhugaverða lokaverkefni undir leiðsögn dr. Ingólfs V. Gíslasonar. Nú stundar hún diplómanám í lýðheilsu í HÍ.

Ragnheiður þekkir bæði af eigin raun erfiðleika í æsku og geðræn vandamál auk líkamlegra vandamála á fullorðinsárum en hún hefur unnið bug á eigin geðvanda meðal annars með námi og annarri uppbyggilegri iðju, auk þess að starfa innan samtakanna Hugarafls sem styðja við fólk með geðræn vandamál, og í 12 spora samtökum eins og Coda, sem vinna gegn meðvirkni. Innan þessara samtaka og víðar hefur hún kynnst mörgu fólki sem glímir við geðræn vandamál á fullorðinsárum: „Ég velti þessu mikið fyrir mér því flestir voru og eru enn að glíma við vandamál, sérstaklega geðraskanir og fékk þetta fólk mikið af geðlyfjum en var oft ekki og hefur sumt enn ekki verið spurt um áföll. Það var eins og fólk væri að leita að áheyrn því margir höfðu farið í gegnum geðheilbrigðiskerfið án þess að hafa nokkurn tímann haft tækifæri til að tjá sig um erfiða barnæsku eða unglingsár, ofbeldi, vanrækslu eða stór áföll.“

Orsakasamhengið milli ofbeldis í æsku og heilsufarslegra og félagslegra vandamála síðar á lífsleiðinni er að koma sífellt betur í ljós og rannsókn Ragnheiðar er eitt gagn sem varpar ljósi á þetta samhengi. En hvað vill hún sjá breytast í heilbrigðiskerfinu og félagslega kerfinu til að bregðast við þessum vanda?

„Það sem mikilvægast er að breyta hér og nú er að það verði hlustað á fólk og lífssögu þess gefinn meiri gaumur. Algengasta umkvörtunarefnið hjá viðmælendum þessarar rannsóknar og annarra sem hafa sagt mér frá áfallasögu sinni var að erfitt hafi verið að fá áheyrn. Ég vitnaði í viðtal við Linn Getz lækni (visir.is) en hún sagði að læknisfræði hefði málað sig út í horn og var þá að gagnrýna að lífssögu fólk væri ekki gefinn nægur gaumur.“

„Ég tel að alltof fljótt sé farið í að greina og gefa lyf án þess að skoða aðstæður fólks og lífssögu. Það gagnar lítið að gefa fólki geðlyf ef það hefur ekki unnið úr áföllum, býr jafnvel enn við ofbeldi og er auk þess í húsnæðisvanda og með afkomukvíða vegna bágrar fjárhagsstöðu. Stundum þarf bara að grípa þarna inn fyrst áður en fólk er lyfjað í drasl.“

„Það þarf að auka fræðslu til muna í skólum, í heilbrigðiskerfinu, velferðarkerfinu og í raun alls staðar þar sem unnið er með fólki. Öll meðferðarvinna þarf að gefa ofbeldis- og áfallasögu skjólstæðinga rými ef hún er fyrir hendi. Aukin fræðsla, aukin aðstoð við þolendur og vinna með gerendum einnig. Það þarf að vinna gegn ofbeldi og þá er ekki nóg að vinna með þolendum og skrímslavæða gerendur heldur þarf að koma þeim skilaboðum skýrt á framfæri hvað ofbeldi er og að ofbeldi sé ólíðandi með öllu. Auk þess að bæta þjónustu við þolendur ofbeldis að ætti einnig að þróa meðferð fyrir þá sem beita ofbeldi. Við viljum vinna gegn ofbeldi og reyna að koma í veg fyrir skaðann og a.m.k. grípa sem fyrst inn í til þess að draga úr skaðanum.“

Ofbeldi er ekki einkamál

Að lokum: Hvaða heilbrigðu lífshættir vinna gegn geðrænum vandamálum?

„Mikilvægt er að hafa aðgang að aðstoð og upplýsingum og fá áheyrn. Öryggi, að hafa þak yfir höfuðið, því allir þurfa að eiga heimili sem er öruggt, fæði og klæði, tilgang og félagsleg samskipti. Hafa aðgang að starfi og tómstundaiðju og einhverju sem gefur tilgang. En fólk sem glímir við geðræn vandamál og afleiðingar ofbeldis er í hættu á að einangrast.“

„Flestir viðmælendurnir mínir sögðu frá erfiðri æsku foreldra sinna, ýmsum áföllum sem þau urðu fyrir, sum komu af heimilum þar sem var mikill alkóhólismi og flestar ef ekki allar tegundir ofbeldis. Viðmælendurnir 12 segja ekki aðeins sína sögu heldur einnig systkina sinna og foreldra.“

„Ofbeldi er lýðheilsuvandamál sem þarf að vinna gegn og sinna með öllum ráðum og dáðum. Eitt af meginatriðunum er að kenna umhyggjurík samskipti og það þarf að kenna í skólum, það þarf að kenna verðandi foreldrum og svo börnunum. Að auka áherslu á umhyggjurík samskipti er mikilvæg forvörn gegn ofbeldi.“

„Ég tel líka að það sé hægt að vinna með afleiðingar ofbeldis og stuðla að því að fólk geti fengið bata og aukið lífsgæði sín. Því fyrr sem tekið er á málum því betra, en þau ekki þögguð niður í áratugi.“

„Ofbeldi er ekki einkamál, ofbeldi á aldrei að líðast og því á að aðstoða fólk til þess að taka á þessum vanda. Börn þurfa að hafa aðgang að fullorðinni manneskju sem þau geta treyst til þess að segja frá ef þau telja sig verða fyrir ofbeldi. Það þarf að kenna fólki að tala saman en ekki bara lesa hugsanir og geta sér til um hvað hinn hafi í huga.“

„Ég vil með þessari rannsókn taka þátt í að greina vandann sem ofbeldi er og finna leiðir til að draga úr ofbeldi og hjálpa fjölskyldum að eiga samtalið og rjúfa þöggunina. Ofbeldi þrífst í þöggun og sumir bera skömmina með sér í gröfina, bæði þolendur og gerendur.“

Smelltu hér til að lesa og skoða ritgerð Ragnheiðar

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.