Norður-Kóreumenn lýsa dularfullum sjúkdómum sem herja á fólk

Það er ekki tekið út með sældinni að búa í Norður-Kóreu ef marka má frásagnir þeirra einstaklinga sem hafa flúið þetta lokaða einræðisríki á undanförnum árum.

NBC News ræddi á dögunum við Lee Jeong Hwa, sem flúði frá Norður-Kóreu árið 2010. Lee segir í samtali við NBC News að íbúar nálægt Punggye-ri-kjarnorkutilraunasvæðinu hafi margir hverjir flúið frá landinu vegna dularfullra veikinda sem herjað hafa á þá.

Lee nefnir sem dæmi að börn hafi fæðst vansköpuð og í einu tilviki hafi barn fæðst án kynfæra. Barnið var drepið skömmu eftir fæðingu, að sögn Lee.

Lee segir að íbúar hafi byrjað að tala um „draugasjúkdóm“ eftir að íbúar fóru margir skyndilega að veikjast alvarlega. Sumir hafi látist en Lee kveðst rekja þessi veikindi til kjarnorkutilrauna Norður-Kóreumanna skammt frá híbýlum fólks.

„Við héldum að við værum að deyja vegna þess að við vorum fátæk og borðuðum illa og sjaldan,“ segir Lee „en nú vitum við að þetta var vegna geislunar,“ bætir hún við.

Fulltrúi Korea Institute of Nuclear Safety segir við NBC að draga megi þá ályktun að margir íbúar hafi orðið fyrir verulegri geislun á undanförnum árum þó ekki hafi tekist að sanna það með vísindalegum hætti. Ástæðan er sú að stofnunin hefur ekki nógu mikil gögn í höndunum.

Þá bendir annar sérfræðingur á að mælar, sem mæla geislun, hafi ekki gefið til kynna aukna geislun á Kóreuskaganum eftir tilraunir þeirra með kjarnavopn að undanförnu. Enn annar sérfræðingur bendir á að möguleg ástæða sé sú að tilraunirnar hafa farið fram neðanjarðar og mesta hættan sé á mengun í grunnvatni en ekki í lofti.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.