fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Múslimum mun fjölga mikið í Evrópu fram til 2050 – Verða hugsanlega 30 prósent íbúa Svíþjóðar

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 5. desember 2017 07:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Straumur innflytjenda, bæði flóttamanna og annarra, til Evrópu er eitt heitasta pólitíska efnið í álfunni í dag og skoðanir eru mjög skiptar í þessu máli. Stundum er rætt um andstæður og jafnvel ágreining á milli þeirra sem teljast kristnir (eða gamlir-evrópskir) íbúar álfunnar og hinna nýju íbúa sem eru flestir múslimar (ný-evrópskir). Í þessu sambandi er oft rætt um hvernig íbúasamsetningin muni þróast og verða í álfunni á næstu áratugum.

Ef engir innflytjendur koma til Evrópu fram til 2050 mun íbúum álfunnar fækka um 7,5 prósent. Ef straumur innflytjenda verður í meðallagi verður íbúafjöldinn álíka og hann er í dag. En hvort sem verður ofan á þá mun múslimum fjölga sem hlutfalli af heildaríbúafjöldanum. Þetta er meðal annars niðurstaða nýrrar rannsóknar Pew Institute. Í rannsókninni var reynt að draga upp mynd, byggða á staðreyndum, af hvernig mannfjöldaþróunin í Evrópu getur orðið fram til 2050.

Undir yfirskriftinni “Europe’s Growing Muslim Population” eru settar fram þrjár hugsanlegar sviðsmyndir varðandi hlutfall múslima í mannfjöldanum í Evrópu. Með Evrópu eiga höfundar rannsóknarinnar við öll aðildarríki ESB auk Noregs og Sviss.

Samkvæmt tölunum þá mun hlutfall múslima af heildarmannfjöldanum í Evrópu aukast úr 4,9 prósentum í 7,4 prósent fram til 2050 ef straumur innflytjenda til álfunnar stöðvast núna. Ástæðurnar eru meðalaldur fólks og hærri fæðingartíðni hjá múslimum en öðrum samfélagshópum.

Í rannsókninni er ekki lagt neitt mat á hvort þróunin verði til góðs eða ills, aðeins er unnið út frá tölum og hugsanlegar sviðsmyndir dregnar upp í samræmi við þær. Höfundar hennar segja að múslimar í Evrópu séu ekki ein samleit stærð og mjög mismunandi sé hversu trúræknir þeir séu og hversu mikið þeir gera úr trú sinni. Þeir segjast ekki vera að spá sérstaklega fyrir um hvernig þróunin verður heldur séu frekar um útreikninga að ræða.

Fram kemur að ef ekki verður frekari straumur innflytjenda til Evrópu þá muni Evrópubúum fækka um 40 milljónir fram til 2050. Ef það gerist þá standa ríki álfunnar frammi fyrir mikilli áskorun því færri verða á vinnumarkaði um leið og meðalaldurinn hækkar.

Ef straumur innflytjenda til Evrópu verður í meðallagi hækkar hlutfall múslima af heildarmannfjöldanum upp í 11,2 prósent og heildarmannfjöldinn helst nokkurn veginn óbreyttur eða um 520 milljónir.

Ef straumur innflytjenda verður mikill verður hlutfall múslima af heildarmannfjöldanum 14 prósent um miðja öldina. Höfundar rannsóknarinnar segja þetta þýða töluverða aukningu en samt sem áður verði múslimar enn minnihlutahópur í álfu þar sem kristni er ráðandi trú.

Höfundarnir byggja niðurstöður sína á fyrri skýrslum og rannsóknum og þeirri miklu aukningu sem varð á komum múslima, bæði sem flóttamanna og innflytjenda, til Evrópu frá 2014 til 2016.

Í rannsókninni kemur fram að ef straumur innflytjenda verður mikill þá muni hlutfall múslima í Danmörku verða orðið 16 prósent af heildarmannfjöldanum 2050 en það er nú 5,4 prósent. Ef straumurinn verður í meðallagi verður hlutfallið 11,9 prósent og ef hann stöðvast verður hlutfallið 7,6 prósent.

Mestu breytingarnar verða í Svíþjóð og Þýskalandi óháð því hver hinna þriggja sviðsmynda er notuð. Ástæðan er að þessi tvö ríki tóku á móti miklum fjölda flóttamanna frá 2014 til 2016. Þessir nýju íbúar ríkjanna eru yngri og eignast fleiri börn en þeir sem eru fyrir. Samkvæmt niðurstöðum höfundanna þá verður fimmti til þriðji hver Svíi múslimi um miðja öldina, allt eftir því hversu mikill straumur flóttamanna verður. Nú eru múslimar 8,1 prósent af heildarmannfjöldanum í Svíþjóð en verða 11,1, 20,5 eða 30,6 prósent um miðja öldina miðað við niðurstöður rannsóknarinnar.

Í Noregi eru múslimar nú 5,7 prósent af heildarmannfjöldanum en verða 7,2, 13,4 eða 17 prósent um miðja öldina miðað við niðurstöður rannsóknarinnar.

Í Þýskalandi eru múslimar nú 6,1 prósent heildarmannfjöldans. Þeir verða 8,7 prósent heildarmannfjöldans ef straumur innflytjenda stöðvast, 10,8 prósent ef straumurinn verður í meðallagi og 19,7 prósent ef hann verður mikill.

Í útreikningum höfundanna er miðað við að múslimskar konur eignist 2,6 börn að meðaltali en konur annarrar trúar 1,6 barn að meðaltali. Þetta mun hafa mikil áhrif, óháð straumi flóttamanna, því meðalaldur múslima í Evrópu er 13 árum lægri en meðalaldur annarra samfélagshópa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi