fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Morð og ólöglegur innflytjandi voru eitt aðalefnið í bandarísku forsetakosningunum – Nú er búið að sýkna innflytjandann af morðákærunni

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 5. desember 2017 06:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hneyksli segir Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, um niðurstöðu dómsstóls í San Francisco í morðmáli sem var mikið í sviðsljósinu í forsetakosningunum á síðasta ári. Mexíkóskur innflytjandi var sakaður um að hafa myrt 32 ára konu, Kate Steinle, í borginni.

„Hneykslanlegur dómur í Kate Steinle-málinu. Það er ekki furða að íbúar landsins séu reiðir vegna ólöglegra innflytjenda.“

Skrifaði forsetinn á Twitter í kjölfar úrskurðar kviðdóms um að sýkna hinn ákærða. Í forsetakosningum á síðasta ári nefndi Trump málið margoft til að benda á að ólöglegir innflytjendur frá Mexíkó séu hættulegir og að ríki, þar sem demókratar eru við völd, séu með misheppnaða stefnu í málum þessara ólöglegu innflytjenda.

Í máli Kate Steinle var 45 ára Mexíkói, Jose Ines Garcia Zarate, ákærður fyrir að hafa myrt Kate Steinle. Zarate hafði áður verið vísað fimm sinnum úr landi. Í apríl 2015 stóð hann frammi fyrir sinni sjöttu brottvísun en saksóknari féll frá ákæru á hendur Zarate fyrir brot á fíkniefnalöggjöfinni. Í kjölfarið lét lögreglan hann lausan en í millitíðinni höfðu alríkisyfirvöld beðið um að fá hann framseldan til að geta vísað honum úr landi.

Steinle var myrt þremur mánuðum síðar. Hún var á göngu á Pier 14 í San Francisco þegar hún var skotin til bana. Skotið kom úr skammbyssu sem Zarate var með en hann hafði ekki leyfi til að vera með byssuna.

„Morðingi Kate Steinle kom aftur og aftur yfir þessu illa vöktuðu landamæri Obama. Hann braut alltaf af sér og var ofbeldisfullur. Þessar upplýsingar voru ekki nýttar í málarekstrinum. Sýkna hans er algjör afskræming á réttlæti. BYGGIÐ ÞENNAN MÚR.“

Skrifaði Trump einnig á Twitter. Margir aðrir repúblikanar hafa einnig brugðist reiðir við og hvetja demókrata til að hætta að vernda ólöglega innflytjendur þannig að hægt sé að flytja þá úr landi.

Jeff Sessions, dómsmálaráðherra, sagði í yfirlýsingu að „koma hefði mátt í veg fyrir þennan harmleik ef San Francisco hefði afhent alríkisyfirvöldum umræddan innflytjanda“ eins og alríkisyfirvöld höfðu farið fram á.

Í málinu sjálfu komst kviðdómur að þeirri niðurstöðu að ekki væri sannað að Zarate hefði haft í hyggju að drepa Steinle. Fyrir dómi hafnaði hann því ekki að hann hefði skotið hana en hélt fast við þann framburð að það hefði ekki verið að yfirlögðu ráði og kviðdómi fannst skýring verjenda hans um að kúlan hefði endurkastast af steinsteyptum göngustígnum og síðan endað í hjarta Steinle sennileg.

Verjendurnir sögðu einnig að Zarate hefði fundið byssuna vafða inn í skyrtu undir bekk á Pier 14 en Pier 14 er vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Þeir sögðu að skot hefði hlaupið úr byssunni fyrir slysni þegar Zarate tók hana upp. Það eina sem kviðdómur sakfelldi Zarate fyrir var að hafa verið með ólöglegt skotvopn í fórum sínum en fyrir það má hann vænta fangelsisdóms á bilinu 16 til 36 mánaða.

Fjölskylda Steinle er ekki sátt við dóminn en í samtali við San Francisco Chronicle sagði fjölskyldan að hún styðji samt sem áður þá stefnu sem veitir ólöglegum innflytjendum vernd ef þeir eru löghlýðnir.

„Við erum land vinsamlegs fólks. En ætlunin var aldrei að búa til öruggt skjól fyrir ofbeldisfulla glæpamenn.“

Sagði faðir hennar.

Fjölskyldan hefur einnig gagnrýnt Trump og umfjöllun hans um lát Steinle.

„Trump talar um Kate eins og hann hafi þekkt hana. Ég hef aldrei heyrt neitt frá kosningastjóra hans. Ég hef aldrei heyrt neitt frá honum. Ég kæri mig ekki um að vera tengdur við mann sem getur ekki á venjulegan og kurteisan hátt haft samband við okkur og spurt okkur um hvað við viljum.“

Sagði bróðir Kate, Brad Steinle, í samtali við CNN.

Þingmenn repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafa brugðist við dómnum og lagt fram frumvarp, sem er kennt við Kate, sem þyngir refsingar ólöglegra innflytjenda sem eru fluttir úr landi en koma aftur. Í fulltrúadeildinni greiddu 257 þingmenn atkvæði með frumvarpinu en 157 voru á móti. Frumvarpið þarf síðan af komast í gegnum öldungadeildina og þar þurfa að minnsta kosti átta þingmenn demókrata að styðja það auk þingmanna repúblikana en bandarískir fjölmiðlar telja að það sé langsótt að það náist og því muni frumvarpið að öllum líkindum ekki verða að lögum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu