Mohamed í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa reynt að myrða íslenska fyrrverandi kærustu - Systir óskar eftir aðstoð almennings: Sagður hafa lifað tvöföldu lífi

Erlendur maður að nafni Mohamed, sem kallar sig Josh, situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa beitt íslenska fyrrverandi kærustu hrottalegu ofbeldi. Málið er rannsakað sem tilraun til manndráps. Mohamed er grunaður um að hafa tekið sína fyrrverandi kærustu hengingartaki þangað til hún missti meðvitund. Hún rankaði við sér og hljóp út á götu þar sem nágrannar urðu varir við köll hennar. Mohamed var handtekinn í Meðalholti í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt sunnudags.

Að sögn Guðmundar Páls Jónssonar, lögreglufulltrúa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, átti árásin sér stað innandyra en konan náði að flýja út. DV hefur séð athugasemdir nágranna á Facebook sem lýsa því að þeir heyrðu hræðileg öskur.

„Hann var úrskurðaður í hálfs mánaðar gæsluvarðhald. Þetta var mjög gróft heimilisofbeldi. Konan er ekki mikið slösuð en aðferðin var mjög svæsin,“ segir Guðmundur Páll og bætir við að lögregla óski eftir því að vitni gefi sig fram.

Leitar síma systur sinnar

Systir konunnar óskar eftir aðstoð almennings á Facebook-síðu sinni og innan Facebook-hóps ætluðum íbúum hverfisins. Að hennar sögn hafði Mohamed á brott með sér síma systur hennar og skó. Hann hafi ekki verið með þessa hluti á sér þegar hann var handtekinn og því biður hún íbúa um að skoða umhverfi sitt. Í samtali við DV segir hún að hún sé fyrst og fremst að leita að símanum því í honum séu mikilvæg sönnunargögn, skilaboð frá Mohamed.

„Við erum að leita af Grænum puma skóm nr 38/39 og Honor 8 síma í bleiku hulstri með blómajárni á. Það er talið að maðurinn hafi falið þetta einhver staðar úti við Stórholt og Meðalholt! Ef þið eigið heima þarna megið þið hafa augun opin og jafnvel kíkja í tunnurnar hjá ykkur. Við og lögreglan erum búin taka nokkra hringi en finnum þessa hluti ekki þess vegna var okkur bent á að deila þessu sem víðast svo þessir hlutir myndu finnast. Þessi maður var handtekinn í nótt vegna tilraunar til manndráps! Hann losaði sig við þessa hluti stuttu eftir verknaðinn og rétt áður en hann var handtekinn!,“ segir systir konunnar á Facebook.

Guðmundur Páll lögreglufulltrúi kannast við þetta í samtali við DV. „Þessi sími virðist týndur.“

Sagður hafa lifað tvöföldu lífi

Systir konunnar segir í samtali við DV að hún geti lítið sagt í viðbót við það sem hún hefur sagt á samfélagsmiðlum. „Þetta var heimilisofbeldi sem endaði með því að hann reyndi að drepa hana,“ segir systir konunnar en að hennar sögn voru í sambandi í nærri tvö ár. Af henni mátti skilja að Mohamed hafi ekki búið með systur hennar þegar atvikið átti sér stað.

Vinkona konunnar sem varð fyrir árásinni varaði sérstaklega við Mohamed innan Facebook-hópsins Beauty tips fyrir atvikið á sunnudaginn. „Hæ Beauty tips, langaði að vara ykkur allar við þessum manni. Vinkona mín var að losna úr tveggja ára hræðilegu ofbeldissambandi með honum. Hún komst að því um helgina að hann hefði allan tímann logið til um nafn og aldur og var í sambandi með annarri konu allan tímann. Hver veit hversu margar aðrar stelpur hann er að tala við eða jafnvel í sambandi með,“ skrifaði vinkona mannsins síðla nóvember.

Vinkona konunnar fullyrðir að maðurinn villi á sér heimildir. „Hann þykist heita Eljoven en er kallaður Josh og vera fæddur 1995 til 1993 (fer eftir við hvern hann talar) en hann heitir Mohamed og er fæddur 1989. Hann var með falsað vegabréf þangað til um helgina sem lögreglan er komin með í hendurnar svo hann hefur verið mjög sannfærandi. Hann er mjög hættulegur og beitti hana og sína fyrrverandi ofbeldi þrátt fyrir að börnin horfðu á eða voru jafnvel í fanginu á þeim,“ skrifaði vinkonan fyrir atvikið á sunnudaginn.

Líkt og fyrr segir hefur maðurinn verið úrskurðaður í gæsluvarðhald næstu tvær vikur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa frétt.