Sveinn Hjörtur saknar Kosts: „Hann er að fylla á í hillur og að ræða við viðskiptavini sína í síðasta sinn“

„Ég verð hugsi og skil Jón vel þegar hann segir mér frá dæmi um risaveltu Costco, um það að bakaríið hjá Costco græði yfir 4 milljónum á dag“
Sveinn Hjörtur „Ég verð hugsi og skil Jón vel þegar hann segir mér frá dæmi um risaveltu Costco, um það að bakaríið hjá Costco græði yfir 4 milljónum á dag“

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, fyrrverandi formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur sem fylgdi Sigmundi yfir í Miðflokkinn, skrifar færslu á Facebook þar sem hann lýsir síðustu ferð sinni í verslunina Kost á Dalvegi sem stendur til að loka á næstu dögum. Eigandinn Jón Gerald Sullenberger tilkynnti þetta á laugardaginn.

Sveinn segir: „Í dag leit ég við í síðasta sinn. Á móti mér tók maðurinn sem alltaf hefur verið út á gólfi við vinnu þau átta ár sem verslun hans hefur starfað. Hann er að fylla á í hillur og að ræða við viðskiptavini sína í síðasta sinn.“

Gat ekki keppt við Costco

Eftir að risinn Costco opnaði í Garðabæ varð erfiðara fyrir minni verslanir eins og Kost að reka sig. Kostur hefur sérhæft sig í amerískum vörum, til að mynda frá fyrirtækinu Kirkland. Kirkland er eitt helsta vörumerki Costco og erfitt fyrir Kost að bjóða sambærilegt verð á þeim vörum.

Sveinn ræddi við Jón Gerald um stöðuna og Jón Gerald nefndi nokkur dæmi um hvers konar ofurefli væri að etja. Sveinn segir: „Ég verð hugsi og skil Jón vel þegar hann segir mér frá dæmi um risaveltu Costco, um það að bakaríið hjá Costco græði yfir 4 milljónum á dag. Ég trúi því vel og veit að á hverjum degi selst yfir eitt tonn af nautahakki þeirra hjá Costco.“

Sveinn segir það hafa verið tómlegt um að lítast, bæði hvað varðar viðskiptavini og vörur í hillum. „Jón og starfsfólk hans létu síðustu vörubrettin fram og vörur sem eftir eru í hillurnar.“ Hann þakkaði Jóni fyrir að hafa reynt í þau átta ár sem verslunin var starfrækt. „Þau gleymdu ekki því sem var aðalsmerki Kosts, vinalegt starfsfólk og gott viðmót sem Jón byggði upp og margir aðrir mættu taka sér til fyrirmyndar.“ og enn fremur „Vissulega var hann ekki ódýrastur, en hann hafði áhugavert vöruúrval sem við þekktum lítið – nema að kynnast því til dæmis í Ameríku eða í öðrum stórverslunum erlendis. Sjarminn var einnig ómur frá amerískri útvarpsstöð sem hljómaði um verslunina, risapakkningar, og margar gæðavörur sem komu okkur á óvart.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.