Katrín segist ekki hafa verið full í þætti Gísla Marteins: „Þetta heitir að vera high on life“

Mynd: Skjáskot af vef RÚV.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra voru ekki drukkin í þættinum Vikan með Gísla Marteini sem sýndur var síðastliðið föstudagskvöld. Þetta segir Gísli Marteinn Baldursson þáttastjórnandi, Katrín Jakobsdóttir þvertekur fyrir að hafa verið í glasi umrætt kvöld.

Ráðherrarnir og flokksformennirnir þrír mættu í þátt Gísla Marteins, líkt og gjarnan í þáttunum var stemningin afslöppuð og rætt var um mál í léttari kantinum. Ræddu þau meðal annars um brandara sem átti að koma fyrir í stjórnarsáttmálanum og báru þau svo saman stærð hana sinna. Rætt hefur verið um það á samfélagsmiðlum að þau hafi verið drukkin í þættinum, sagði meðal annars Snæbjörn Brynjarsson Pírati á Twitter að „það væri enginn skandall að mæta full/ur í Vikuna. Veit ekki um neinn mann sem horfir á þáttinn edrú.“ Árni Snævarr fjölmiðlafulltrúi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sagði að menn kæmu „varla fram í sjónvarpi í Bretlandi nema að hafa komið við á græna barnum“. Bætti Árni því við að íslenskt samfélag væri „svo klofið að menn taka afstöðu til þess hvort ráðherrarnir hafi verið fullir eftir flokkslínum.“ Samfylkingarfólk virðist almennt líta svo á að þau „hafi drukkið 2–3 drykki“ en Píratar að þau hafi „sturtað í sig einni rauðvín á kjaft“.

Gísli Marteinn þvertók fyrir að þau hefðu verið drukkin: „Þau voru reyndar alls ekki drukkin, heldur bara afslöppuð og undir ströngum fyrirmælum frá mér um að vera lauflétt :) En vissulega voru einhverjir hér á twitter að gera því skóna að þau hefðu verið í glasi. En það var ekki svo,“ sagði Gísli á Twitter. Bætti hann svo við á Fésbók að það segi margt um þjóðfélagsumræðuna að fólk geti ekki komið í sjónvarp og verið glatt og hamingjusamt og hlegið og gert að gamni sínu án þess að vera sakað um að vera drukkið!“ Hann sagði ráðherrana hafa verið „algjörlega skörp“ og ekki hefði hvarflað að honum „að þau hefðu smakkað vín“.

DV bar þetta undir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem þvertekur fyrir að hafa verið í glasi: „Ég hafði ekki smakkað áfengan dropa,“ segir Katrín og bætti við: „Þetta heitir að vera high on life“.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.